Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 16:00:10 (2645)

1996-12-20 16:00:10# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[16:00]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hæstv. menntmrh. að það skiptir miklu máli fyrir okkur, fámenna þjóð í stóru landi, að efla rannsóknir, efla stofnanir eins og Raunvísindastofnun sem gegnir auðvitað mjög miklu og mikilvægu hlutverki í öllu vísindastarfi hér á Íslandi. Við eigum mjög mikið undir því að það fari fram rannsóknir, grundvallarrannsóknir á sviði jarðvísinda og annarra vísindagreina sem tengjast náttúru okkar. Þess vegna er mjög mikilvægt að okkur takist að auka með einhverjum hætti starfið og styrkja þessar stofnanir með auknum fjárframlögum. Þó að ekki sé um háar fjárhæðir að ræða þá held ég samt sem áður að það skipti máli.

Í annan stað vil ég nefna það sem kom fram hjá hæstv. menntmrh. um Kvikmyndasjóð. Við heyrum miklar umræður um óæskilega framleiðslu í kvikmyndagerð. Það flæða yfir myndir sem börn og unglingar hafa aðgang að. Þess vegna held ég að það skipti mjög miklu máli að við styrkjum þá Íslendinga sem sinna kvikmyndagerð, þannig að þeir hafi aðgang að Kvikmyndasjóði svo þeir megi efla íslenska kvikmyndagerð og menning sem tengist íslenskri kvikmyndagerð aukist og eflist. Þannig held ég að hin uppvaxandi íslenska unga þjóð, og ekki síst unga fólkið og börnin, læri að meta kvikmyndir með því að þær séu íslenskar, þær fyrstu sem börnin kynnast. Þau læri að meta og hafna því versta en velja það besta í kvikmyndagerð sem boðið er upp á hverju sinni.