Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 16:03:41 (2647)

1996-12-20 16:03:41# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[16:03]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða fjárlagafrv. fyrir árið 1997 við 3. umr. og ég ætla að leyfa mér að koma hér að nokkrum þáttum við þessa umræðu til viðbótar við það sem ég mælti við 2. umr. um fjárlagafrv. Mér þykir vænt um að sjá að hv. formaður fjárln. er hér viðstaddur og vænti þess að varaformaður verði það einnig, svo gildan þátt sem hann hefur átt í að stýra verki nefndarinnar með formanni. Og eins og hæstv. forseti nefndi þá hef ég óskað eftir viðveru hæstv. umhvrh. vegna máls míns hér og hæstv. heilbrrh. Ég hef nú ekki gert mikið af því við umræðu um þetta fjárlagafrv. að biðja um viðveru ráðherranna en í þessu tilviki taldi ég það rétt vegna þess að ég ætla að víkja að fáeinum atriðum sem varða mál sem heyra undir viðkomandi ráðuneyti.

(Forseti (GÁS): Forseti vil aðeins geta þess að hæstv. umhvrh. er þegar kominn í hús.)

Virðulegur forseti. Ég mun haga mínu máli með hliðsjón af því og geyma þá frekar heilbrigðisþáttinn þangað til viðkomandi, hæstv. ráðherra er viðstaddur. Hv. formaður fjárln. reifaði hér mál í morgun og lagði fyrir, ítrekaði forsendur þessarar fjárlagagerðar af hálfu meiri hlutans og gerði grein fyrir einstökum brtt. sem meiri hlutinn stendur að við fjárlagafrv. Það er ekki ástæða af minni hálfu til að endurtaka þau orð sem ég hafði við 2. umr. málsins um hinar almennu forsendur sem ríkisstjórn og meiri hluti hennar hér á Alþingi hafa lagt við þessa fjárlagagerð. Okkur í minni hlutanum greinir ekki á við ríkisstjórnina um það æskilega markmið að skila hallalausum fjárlögum. Það er raunar atriði sem Alþb. hefur m.a. margoft nefnt sem æskilegt og það var fjmrh. þess sem fyrstur reið á vaðið um langa hríð að skila hallalausum fjárlögum. Þá er ég að minna á fjármálaráðherratíð Ragnars Arnalds, hv. núv. þm., sem gegndi embætti fjmrh. við verulega aðrar aðstæður heldur en nú eru uppi í sambandi við ýmsar hagstærðir og hagþróun í þjóðfélaginu, en með ötulu starfi náði hann að skila hallalausum fjárlögum á árunum um og eftir 1980. Mér finnst ástæða til að rifja það upp hér, og ég man ekki betur en viðkomandi hv. þm. hafi nefnt það sem hugmynd að það væri ástæða að festa það í lög að ekki mætti keyra fram úr eins og iðulega hefur verið gert á liðinni tíð í sambandi við fjárlagagerð og skuldasöfnun sem því tengist. Þannig að um þetta markmið er ekki ágreiningur við meiri hlutann sem nú talar hér á Alþingi og ræður mestu um mál.

Hitt er annað efni, sem ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í, að ýmsar áherslur af hálfu meiri hlutans eru okkur ekki að skapi og hefur það þegar komið fram. Það sem stendur upp úr við þessa lokaafgreiðslu fjárlaganna, og sem hv. formaður fjárln. kom að í upphafi síns máls í morgun, eru vissulega þær miklu framkvæmdir sem ráðgerðar eru á sviði orkufreks iðnaðar og virkjanaframkvæmdir sem því tengjast. Það eru gífurlega háar upphæðir, 38 milljarðar kr. samtals, í þau verkefni sem ríkisstjórnin er nú að vona að komist af stað á árinu 1997 og að unnið verði fyrir allt að 15 milljarða kr. af þessari upphæð á komandi ári. Þetta eru geysilega háar upphæðir. Ég minnti við 2. umr. á óvissuna og álitaefnin sem þessu tengjast og þá alveg sérstaklega álbræðslu á Grundartanga. Ég held því aðeins til haga hér að ég kom allrækilega að þessu máli við 2. umr. Í þessu sambandi vil ég nefna þær 80 millj. kr. sem nú koma fram við 3. umr. sem eins konar mótvægisaðgerð við þessar framkvæmdir sem tengjast að öllu leyti að heita má suðvesturhluta landsins og aðalþéttbýlissvæði þess og er að finna sem heimild í 6. gr. samkvæmt tillögu meiri hlutans. Ég ætla vissulega ekki að fara að leggjast á móti fjárveitingu sem þessari þó að mér finnist að þær séu heldur lausbeislaðar hugmyndirnar um nýtingu hennar og getur orðið allerfitt að skipta þeim reytum, þessum litlu 80 millj. kr., til aðstoðar við nýsköpun í atvinnulífi á öðrum svæðum landsins. Ég bara nefni það hversu hverfandi lítil þessi upphæð er miðað við milljarðana 15 sem gert er ráð fyrir að fjárfest verði fyrir á næsta ári vegna orkufreks iðnaðar og framkvæmda sem þeim áformum tengjast. Það er sannarlega stórfellt áhyggjuefni hvernig hallar á merinni í sambandi við þessa stefnu ríkisstjórnarinnar, þessar megináherslur í siglingu ríkisstjórnarinnar. Og ég er ansi hræddur um að menn hrökkvi nú við þegar að uppgjöri kemur milli jóla og nýárs í sambandi við stöðu íbúafjölda á hinum einstöku svæðum landsins og einstökum sveitarfélögum og menn líti á þau dæmi og beri saman þau áform sem hér á að innsigla annars vegar og hins vegar þá þróun sem hefur verið í gangi varðandi íbúatilfærslu í landinu. Engin merki eru um að hún sé að breytast á jákvæðan hátt í neinu sem máli skiptir heldur í hina áttina, án þess að ég vilji fullyrða um hvernig tölur Hagstofunnar verða nákvæmlega undir árslokin.

Ég ætla, virðulegur forseti, að víkja hér að tveimur atriðum sérstaklega í máli mínu fyrir utan að nefna þær brtt. sem ég endurflyt hér við 3. umr. og gerði rækilega grein fyrir við 2. umr. um frv. Þessir þættir eru það nýmæli að veita aukið fjármagn til landgræðslu og skógræktar. Af því tilefni hef ég nú óskað eftir nærveru hæstv. umhvrh. Hitt atriðið tengist heilbrigðismálunum og þá sérstaklega heilbrigðisþjónustunni á landsbyggðinni. Og ég vænti að hæstv. heilbrrh. verði kominn þegar kemur að þeim þætti í máli mínu.

Það hefur verið boðað og liggur fyrir sem tillaga að undir heitinu Átak í landgræðslu og skógrækt komi 75 millj. kr. á næsta ári til ráðstöfunar. Þessi tillaga var kynnt núna fyrr í vikunni ef ég man rétt, ég held að það hafi verið þann 18. desember, þannig að það eru nú ekki margir dagar síðan hæstv. umhvrh. hélt blaðamannafund af þessu tilefni og kynnti málið. Af hálfu hv. fjárln. og talsmanns nefndarinnar hefur ekki komi neitt ítarlegt fram um þetta mál. Það er satt að segja afar almenns eðlis og lítið sem kemur fram um nýtingu á þessum fjármunum og það sem að baki býr. En ef leitað er til undirgagna sem ég hef undir höndum um þetta efni frá fjárln. þá er þó af aðeins meiru að taka og vona ég að ég hafi haft fyrir því að taka það með hér í ræðustólinn. --- Jú, hér er þetta erindi sem kemur frá fjmrn., einmitt í fyrradag, dagsett 18. desember, sama daginn og hæstv. umhvrh. heldur sinn kynningarfund um málið. Það er sem sagt viðbótarerindi vegna fjárlaga þar sem þessar 75 milljónir koma sem hluti af áformum um að veita alls 450 millj. kr. til landgræðslu og skógræktar fram til aldamóta eða á fjögurra ára tímabili. Ég hef farið yfir þetta erindi sem fylgdi með til fjárln. og lá fyrir ríkisstjórninni 13. desember sl. og sem að nokkru leyti var gerð grein fyrir af hæstv. umhvrh. á nefndum blaðamannafundi.

Ég vil segja almennt um málið að ég tel það út af fyrir sig ánægjuefni að reynt skuli að veita fjármagn til þeirra málaflokka sem hér um ræðir. En ég kemst ekki hjá því að gera nokkra fyrirvara á málinu eins og það berst okkur hér til Alþingis.

Í fyrsta lagi finnst mér það vera mjög gagnrýnivert að það skuli fyrst vera tveimur dögum fyrir afgreiðslu fjárlaga að fjárveitinganefnd fær þetta mál til meðferðar. Nefndin hefur þar með enga aðstöðu til þess að fara ofan í málið svo sem eðlilegt væri að gera þegar um er að ræða þó þetta mikla fjármuni, hátt í hálfan milljarð króna, sem er ramminn á fjögurra ára tímabili. Þetta er eitt.

[16:15]

Annað efni sem þessu tengist er að málið hefur ekki verið kynnt þinginu. Áætlanir um þetta hafa ekki verið kynntar þinginu og hér hefur engin aðstaða verið til að ræða um þau framkvæmdaáform sem að baki búa og gert er ráð fyrir að ráðist verði í þegar á næsta ári. Ég hef grun um að þessum áætlunum hafi verið svona sullað saman, fyrirgefið orðbragðið, settar saman skulum við segja með tiltölulega litlum fyrirvara. Ég geri mér þó grein fyrir því að margir óskalistar hafi legið fyrir árum saman um þennan málaflokk. Mér er það ljóst. En ég tel það mjög gagnrýni vert að þingið skuli ekki fá aðstöðu til að fara eðlilega yfir þessi efni, svo mikilvæg sem þau eru. Það er langt frá að það sé hægt að telja að svo hafi verið.

Í þriðja lagi hlýt ég að segja að ég tel að þær tillögur eins og þær liggja fyrir í erindi til ríkisstjórnarinnar frá 13. desember 1996, séu mörgum annmörkum háðar. Þá á ég m.a. við aðferðafræðina sem lesa má út úr þeim gögnum sem þar liggja fyrir.

En svo ég nefni það áður en ég fer út í það í einstökum atriðum, virðulegur forseti, þá er málið kynnt þannig að ég held að það hljóti að hafa orðið verulegur misskilningur hjá þeim sem hafa hlýtt á fréttaflutning af þessu máli, því eins og það var fyrir lagt í fréttatíma Ríkisútvarpsins þann 18. desember í framhaldi af fréttamannafundi hæstv. umhvrh., þá hljóta menn að halda að með þessum tillögum sé kominn grunnurinn að því að draga úr mengun andrúmsloftsins með koldíoxíði, koltvísýringi, sérstaklega sem svarar 100 þúsund tonnum. Hæstv. umhvrh. hafði ekki fyrir því að leiðrétta þann misskilning sem fyrirspurn fréttamannsins bauð upp á í þessum efnum. Hver er nú sannleikurinn í þessu máli eins og mér sýnist hann vera? Það verður þá leiðrétt ef rangt er skilið af minni hálfu. Ég skil þetta mál þannig að það sé tengt af hálfu umhvrn. sérstaklega við samning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Það er meginatriðið og hæstv. umhvrh. hefur ekki dregið dul á það. Hins vegar hrærast saman ýmis önnur markmið og ég ætla út af fyrir sig ekki að gagnrýna það. En það vantar samt mikið á að málið sé skýrt fyrir lagt, þ.e. hvert sé hreyfiaflið í þessum tillögum. Það skortir talsvert á það.

Ég ætla að ganga út frá þessu meginmarkmiði eins og það hefur verið sett upp, þ.e. að það sé svona til þess að auðvelda stjórnvöldum að standa við markmið, skuldbindingar sínar, varðandi loftslagsbreytingar, að spýta svolítið í varðandi landgræðslu og skógrækt í landinu til að binda koltvísýring og ná þannig árangri. Markmið stjórnvalda var þegar gerð var framkvæmdaáætlun seint og um síðir og kynnt í nóvember árinu 1995, að þessir þættir sem hér eru til umræðu, landgræðsla og skógrækt, legðu til minnkun á þeirri mengun sem ella yrði um 100 þús. tonn á áratugnum. En þegar málin eru skoðuð og miðað við það fjármagn sem fyrir liggur -- virðulegur forseti, ég vænti að hv. formaður fjárln. hafi áttað sig á þessu þannig að það sé að minnsta kosti alveg skýrt í hans huga þótt það kæmi ekki fram í framsöguræðunni -- þá kemur í ljós að þessi þáttur í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar stenst ekki vegna þess að það tekst ekki að binda nema sem svarar 78 þús. tonnum af koltvísýringi miðað við áætlað fjármagn til aldamóta. Það skortir sem sagt á aðgerðir sem leiða til þess að það takist að binda reiknuð 22 þús. tonn af þessum mengandi efnum til aldamóta. Það er það sem þessi áætlun á að skila í þessu samhengi. Það eru ekki 100 þús. tonn. Menn hafa talið sig vera á leiðinni með að ná vissum árangri í þessu með þeirri starfsemi sem ráðgerð var, en með framkvæmdaáætluninni er meiningin að leggja til með þessari aukningu sem svarar tæpum fjórðungi eða svona nær kannski 20%, fimmtungi, af því sem áformað var til að vinna upp það sem á vantaði til að sú áætlun sem gerð hafði verið stæðist. Ég held að það sé mjög æskilegt að menn átti sig á því hvað hér er á ferðinni og fari ekki að skrifa á þessa fjármuni sem þarna eru samdrátt í mengun upp á 100 tonn því það sýnist mér ekki vera raunin.

Látum það vera. En ég vil minna á í leiðinni að það sem út af hefur staðið varðandi framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar frá í nóvember í fyrra og það sem stefnir í, er annað og miklu meira en umrædd 22 þús. tonn. Nú er ég að tala við hæstv. umhvrh. En það var hæstv. landbrh. sem lagði til kynninguna eða stóð að kynningunni á sínum tíma. En hér ber sami einstaklingur tvær kápur sem kunnugt er og hef ég gagnrýnt oft í þingræðum þá hugsanavillu sem liggur að baki því að ætla sama manni, að ætla umhvrh. landsins hver sem hann er, að sinna fagráðuneyti og vera í eilífri baráttu innbyrðis við sjálfan sig um það hvora skikkjuna hann ber hverju sinni. Þetta nær náttúrlega ekki nokkurri átt, virðulegur forseti. Þetta er alveg hliðstætt því og að fjmrh. væri settur yfir iðnrn. jafnframt. Þetta er alveg hliðstætt því. Það er enginn munur á því. Ég vona að það verði aldrei endurtekið við myndun ríkisstjórnar á Íslandi að hræra svona saman hlutunum. En það er önnur saga.

Litið til þess sem út af stóð þá held ég, og ég skal fara með tölur hér, virðulegur forseti, að þegar horft var til málsins núna á þessu ári hvernig reikningar stóðu varðandi koltvísýring 1990 annars vegar og horfurnar miðað við aldamót, þá munar þar ekki 22.000 tonnum heldur langtum meiru. Yfir 300.000 tonn vantaði á að markmið samningsins um loftslagsbreytingar sem Ísland undirritaði væru uppfyllt. Að vísu ef öll mengandi efni eru vegin saman þá er talan ekki alveg eins há vegna þess að það horfir ekki eins illa varðandi önnur mengandi efni sem eru tekin inn í þessa útreikninga, en það er samt stórlega keyrt fram úr í þessum efnum. Og það vil ég segja við hæstv. umhvrh. í þessu tilviki að það eru engin efni til þess að lýsa einhverri ánægju yfir um stöðu mála að þessu leyti eða að telja að hér hafi fundist einhver lausn sem skiptir einhverju verulegu máli í þessu samhengi. Svo er því miður ekki. Þetta er aðeins brot af því sem þyrfti til að koma til að standa við loftslagssamninginn og framkvæmdaáætlunina og ná því markmiði að ekki verði mengað meira andrúmsloftið, hinn sameiginlegi lofthjúpur mannkyns, af Íslendinga hálfu árið 2000 heldur en var 1990.

Að vísu var það landbrh. sem hafði orðið á blaðamannafundinum 18. desember. En ef hæstv. umhvrh. hefði fengið að tala á þeim sama fundi þá finnst mér að skort hafi allverulega á metnað í þessum efnum. Og að nota tækifærið. Það mátti gjarnan vera hæstv. landbrh. sem hefði gert það því hann var kannski að leggja eitthvað til frá ráðuneyti landbúnaðarmála. En ef umhvrh. hefði verið að tala um málið almennt þá hefði hann hlotið að benda á að það væri nú nauðsynlegt að önnur ráðuneyti kæmu fram með sitt framlag til að ná þessu markmiði, samgrn. ekki síst og sjútvrn. sem standa fyrir þeim þáttum sem mestu valda í þessum efnum. En það var nú ekki. Það var nánast látið að því liggja að þetta yrði nú bara svona eins og það væri á vegum þessara aðila og ekkert verið að bæta inn í. Síðan gleymdist það nú --- það hefur kannski verið óvart hjá hæstv. landbrh. á þessum blaðamannafundi --- að minna á að þegar þessi samanburður er gerður þá eru ekki tekin með inn í þann reikning þau framkvæmdaáform upp á 38 milljarða kr., stóriðjuáform, sem munu bæta allrækilega við þá mengun efna sem falla undir loftslagssamninginn fram til aldamóta ef þessi áform standast.

Það kemur væntanlega inn í þingið hér eftir áramót, það er víst ekki von á því að svar berist hingað við fyrirspurn sem ég lagði fyrir hæstv. umhvrh. þann 9. des. um losun gróðurhúsalofttegunda miðað við ýmis framkvæmdaáform í stóriðju sem eru á borðum stjórnvalda, hvað þau muni þýða og hvernig þau muni líta út. Það svar liggur ekki fyrir en ég minni á að það er væntanlegt. Þá fá menn kannski betri skilning á þessu heildardæmi sem hér er við að fást og menn eru að bera saman í sambandi við þessi áform varðandi skógrækt og landgræðslu. Þá er náttúrlega dæmið allmiklu dekkra en ég var að nefna. Ég veit að hæstv. umhvrh. hlýtur að hafa af því áhyggjur þó að ríkisstjórnin hafi brugðið sér í það gervi sem samsveitungar mínir og fleiri austur á Héraði settu hana í árið 1948, held ég, austur á Egilsstöðum þar sem þeir voru að efna í ályktun, bænaskrá til stjórnvalda, um nauðsynlegar aðgerðir. Þeir settu fram í ályktun sinni þá merkilegu forsendu fyrir beiðni sinni, sem er eðlilegt að rifja upp við þessa umræðu, að ríkissjóður Íslands væri skuldlaus. Og með vísan til þess að ríkissjóður Íslands væri skuldlaus -- þeir könnuðust nú ekki við það í fjmrn. Ég man ekki hvort Eysteinn var þar við stýrið á þeim tíma. Hann var þar oft. En alla vega bar þetta víst ekki alveg saman við stöðuna hjá þáv. fjmrh. og menn undruðust þessa skynsamlegu ályktun sem gerð var þarna austur á Egilsstöðum og fóru að kalla þessa samþykkt Egilsstaðasamþykkt. Og hana hefur stundum borið á góma í umræðum um fundaályktanir.

[16:30]

Ríkisstjórnin brá sér í nákvæmlega í sama gervi í nóvember 1995 þegar hún settist yfir framkvæmdaáætlunina varðandi loftslagssamninginn, hvernig ætti að standa við þá hluti, hæstv. landbrh. Hún gerði sér lítið fyrir, ríkisstjórnin, og setti alla stóriðjuna í landinu bæði nú og framvegis inn fyrir sviga eða hornklofa. Með hvaða orðum? Ég vona, virðulegur forseti, að ég hafi tekið það með, þetta er svo merkilegt og nauðsynlegt að rifja það upp:

,,Framkvæmdaáætlun vegna iðnaðar: Það er skoðun ríkisstjórnarinnar að þess skuli gætt að þetta markmið`` þ.e. að fara ekki lengra árið 2000 en var 1990 varðandi þessi mengandi efni ,,komi ekki í veg fyrir að hinar hreinu orkulindir landsins verði nýttar t.d. í nýjum stóriðjufyrirtækjum jafnvel þótt fyrirtækin stundi starfsemi sem óhjákvæmilega felur í sér aukið útstreymi koltvíoxíðs eða annarra gróðurhúsalofttegunda vegna iðnaðarferla.``

Ég vona að þetta sé skýrt, þetta er skoðun ríkisstjórnarinnar. Og þegar það hefur borið við að menn í sambandi við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, eins og væntanlegra framkvæmda uppi á Grundartanga, leyfa sér að benda á að þarna komi nú til mengun, allveruleg viðbót mengandi efna af væntanlegri álbræðslu uppi á Grundartanga. Hverju er þá til svarað? Jú, það er vitnað í samþykkt ríkisstjórnarinnar frá nóvember 1995 og ekki söguna meir. Sjá menn í hvaða stöðu við erum sett, hvað verið er að setja þjóðina í? Hvers konar ljós er verið að setja ríkisstjórn Íslands í á alþjóðavettvangi og Íslendinga í heild? Gera menn að fíflum út um allan heim með samþykktum af þessu tagi, sem er aldeilis með ólíkindum þannig að allt sem hefur verið tengt við ágæta samþykkt sveitunga minna austur á Egilsstöðum fyrir mörgum áratugum bliknar í sambandi við þessa niðurstöðu og skoðun ríkisstjórnarinnar, sem sett var fram á þessum tíma og ég þykist vita að hæstv. heilbrrh. muni kannast við einnig. En málið varðar nú einnig heill og heilbrigði mannfólksins sem hér er um að ræða. Þetta vildi ég að lægi fyrir þegar við erum að skoða þann þátt sem áformum í landgræðslu og skógrækt er ætlað að uppfylla til að vinna upp það sem hallað hefur á í þessum málaflokki, ekki bæta við umfram áætlun ríkisstjórnarinnar heldur ná því markmiði sem þar var sett og þessum málaflokki var ætlað að uppfylla til að vega á móti aukningu á öðrum sviðum í þessu sambandi.

En nú kom hins vegar nokkuð vel í ljós hvaða afleiðingar það hefur að ætla umhvrh. landsins að fara með annað ráðuneyti því hæstv. landbrh. ber auðvitað enga ábyrgð á þeim samningum þegar hann er með kápu landbrh. á sér, þá ber hæstv. umhvrh., sem er sama persónan á stundum, enga ábyrgð á þeim samningum sem ráðuneyti umhverfismála er ætlað að gæta. Það verður a.m.k. ekki séð af þeim hugmyndum sem hér eru varðandi aðgerðir á þessu sviði. Ég vil minna á að það eru fleiri alþjóðasamningar sem Ísland er skuldbundið af en samningurinn um loftslagsbreytingar og sem snerta nákvæmlega það mál sem við erum að ræða. Og þar á meðal samningurinn um líffræðilega fjölbreytni. Ég er ansi hræddur um að ýmis atriði, sem eru í þessum framkvæmdaáformum, fjögurra ára framkvæmdaáformum, geti stangast allrækilega á við ákvæði þess samnings og raunar margra annarra skuldbindinga sem Íslendingar hafa tekið á sig á alþjóðavettvangi og gæta þarf þegar um er að ræða aðgerðir í gróðurríki landsins. Það er raunalegt, virðulegur forseti, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að í sambandi við góð áform, eins og hér eru á ferðinni almennt séð, skuli ekki betur vandað til verka en raun ber vitni.

Menn biðja vafalaust um að ég rökstyðji frekar það sem ég læt hér liggja að og ég skal reyna að nefna örfá atriði án þess að fara langt út í þá sálma tímans vegna. Ég vil þá sérstaklega vekja athygli á því að ýmis þau áform sem uppi eru hafa verið um landgræðslu og hæstv. umhvrh. eða landbrh. --- jú, ég held að það hafi hæstv. umhvrh., kynnti á sérstakri ráðstefnu um kolefnisbúskap Íslendinga, sem Líffræðifélag Íslands stóð fyrir líklega í nóvember sl. og ég geri ráð fyrir að gangi inn í þessar hugmyndir. Þar eru uppi vangaveltur um aðgerðir í landgræðslu sem byggja m.a. á að nota í mjög ríkum mæli innfluttar tegundir í sambandi við landgræðslu hérlendis. Tegundir eins og lúpínu, svo dæmi sé tekið, en líka fleiri sem augljóslega brjóta gróft gegn ákvæðum samningsins um verndun líffræðilegrar fjölbreytni, fyrir utan það að leiða til vistfræðilegs stórslyss í landinu sem komandi kynslóðir munu þurfa að glíma við ef heldur fram sem horfir.

Ég minni á í þessu sambandi að sumir hlutir virðast vera alveg sjálfsagðir og augljósir eins og mörgum þótti þegar bændur landsins voru að rista sundur mýrlendið og ræsa fram langt umfram þarfir. Þá voru ekki margir sem æmtu. En núna er hæstv. umhvrh., með reku að láni frá hæstv. landbrh., farinn að framkvæma það, sem sumum fannst nú ansi djúpt í árinni tekið 1970 af Nóbelsskáldi Íslendinga, að sá tími væri nú kominn að þörf væri á að fara að moka ofan í. Ég held í rauninni að við séum staddir í svipuðum sporum að því er varðar ýmsar þær aðferðir, sem menn eru að beita núna í landgræðslu þar sem lítið tillit er tekið til vistfræðilegra viðhorfa sem eru orðin viðtekin og viðurkennd erlendis þar sem menn eru að vanda til verka, og ganga fram í fullkominni blindni. Og það sem verra er án þess að skeyta nokkru um viðvörunarorð sem koma úr mörgum áttum í sambandi við þessi efni.

Ég vil líka segja það, virðurlegur forseti, svo ég komi aðeins frekar sjónarmiðum mínum á framfæri um þessi efni, sem gætu enst lengi ef ætti að skýra þau vel, að á bak við aðgerðir eins og þær sem hér er um að ræða, margar hverjar mjög jákvæðar og almennt séð með jákvæðu formerki, að þar skortir þá áætlunargerð um landnotkun og skipulag sem ætti að vera sjálfsögð forsenda þess hvernig í málin er gengið á sviði landgræðslu og skógræktar í landinu.

Samþykkt var þál. 19. mars 1990, um landgræðslu, þar sem Alþingi ályktar að fela landbrh., orðrétt, með leyfi forseta: ,,... að hlutast til um að gerð verði markviss áætlun um aðgerðir til að stöðva eyðingu jarðvegs og gróðurs á Íslandi þar sem þess er kostur.``

Markviss áætlun. Ég hef ekki séð að þessi áætlun væri kynnt á Alþingi Íslendinga og ég efast um að hún sé til sem slík, þessi markvissa áætlun sem er þó vísað til sem ákveðins bakgrunns fyrir þessu. Og af því að formaður fagráðs Landgræðslunnar, held ég að sé kallað, er viðstaddur umræðuna þá finnst mér mjög á það skorta að það ágæta ráð hafi komið með sín sjónarmið og áætlanir inn á Alþingi Íslendinga, sem ég er ekki í vafa um að hafa áhrif í þeim efnum sem ég er að öðrum þræði að gagnrýna. Og ég er ansi hræddur um að sumt af því sem þar er uppi fái ekki staðist þá mælikvarða sem ég vil leggja á aðgerðir í þessum efnum og vísa enn til þess sem er orðinn rauður þráður í hinni almennu umræðu um þessi efni.

Ég vil líka segja það, virðulegur forseti, að þó að ég aðallega nefni Landgræðsluna og aðgerðir sem henni tengjast þá tel ég líka að það skorti verulega á að Skógræktin sem opinber aðili hafi gert nægilega grein fyrir sínum málum í samhengi skipulags, landnotaskipulags. Mér finnst margt vera í þoku varðandi markmiðin og vek athygli á því að alltaf er verið að finna upp einhver ný nöfn á hlutina sem mér finnst nú ekki vera mjög lýsandi. Við höfum verið að tala síðustu árin um landgræðsluskóga, menn þekkja það, og verið að veita fé í landgræðsluskóga. Hvað heitir þetta núna, virðulegur forseti? Kannski hæstv. landbrh. hafi það á hraðbergi. Ég held að það sé landbótaskógar og fjölnytjaskógar og vefst fyrir mönnum þegar á að fara að greina sundur og skilgreina mismuninn á þessum aðgerðum, sem eru ekki alltaf ljósar, eins og fyrir er lagt.

Virðulegur forseti. Ég skal ekki hafa þetta mikið lengra því það er auðvitað hægt að ræða þessi efni síðar og verður hvort sem er ekki úr þessu breytt þeim tölum sem hér eru. En ég vil leggja á það mjög ríka áherslu að fyrr en seinna verði undinn að því bráður bugur að fara ofan í þær áætlanir og framkvæmdaáform sem hér er verið að renna fjárhagslegum stoðum undir til þess, sem hlýtur að vera ósk allra sem að þessu standa, þar á meðal ríkisstjórnar landsins, að þetta fari sem best fram og þannig að það nýtist í þeim almennu markmiðum sem varða sjónarmið landsmanna til þessara aðgerða í almennu samhengi séð. Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að minna á í þessu samhengi frv. sem ég hef flutt með nokkrum öðrum hv. þm. og sem ég held að geti orðið til að bæta vinnubrögðin og varðar breytingu á lögum um landgræðslu eins og það heitir, þ.e. lög nr. 17/1965, þar sem m.a. er reynt að koma inn tillögum í þá löggjöf sem varða svolítið ný viðhorf í þessum málum um verndun líffræðilegrar fjölbreytni, varðandi þá mælikvarða sem menn þurfa að beita áður en þeir taka í notkun í stórum stíl innfluttar tegundir til þess að sæmilega sé að verki staðið.

[16:45]

Þessi tillaga hefur verið endurflutt með breytingum þar sem komið er til móts við ýmsar ábendingar, m.a. af hálfu stofnana undir landbrn., í umsögnum til umhvn. Ég vona að menn horfi á þetta þingmál þegar þar að kemur og ég mun mæla fyrir því. Þá gefst m.a. tilefni til að ræða þessi mál betur og ítarlegar af minni hálfu. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. umhvrh. --- ég hef nú kannski meira horft til hæstv. ráðherra í því samhengi þó að tillögurnar séu frá landbrn. runnar í þessu tilviki --- taki með sér þær ábendingar sem ég hef fram reitt í fullri vinsemd og sé reiðubúinn til að reyna að stuðla að því að nýtingin á þeim peningum sem hér er verið að leggja í þessa málaflokka megi vel úr hendi fara. En ekki meira um það.

Virðulegur forseti. Ég ætla þá að beina orðum mínum til hæstv. heilbrrh. en ráðherrann hefur verið svo vinsamlegur að vera viðstaddur umræðuna. Tilefnið er atriði sem lá ekki skýrt fyrir við 2. umr. sem varðaði framlög til heilbrigðismála en eru nú komin inn, að vísu ekki mjög skýr, við 3. umr. en þó aðeins ljósari og í aðeins skárra horfi heldur en þau voru dregin upp í fjárlagafrv. og í verulega skárra horfi er óhætt að segja. Tel ég það mjög góðra gjalda vert að þar hafa menn dregið í land varðandi þann mikla niðurskurð sem reiknað var með í fjárlagafrv. upphaflega, bæði með sjúkrastofnanir á höfuðborgarsvæðinu en einnig til sjúkrahúsa og heilsugæslu úti um land.

Hv. formaður fjárln. vék að þessu máli í sínum inngangi þegar hann mælti fyrir tillögum. Það er alveg ljóst af því sem þar kom fram að það er talsvert óunnið áður en þetta mál verður sæmilega skýrt. Ég leyfi mér að vitna til ræðu hv. formanns fjárln., þar sem hann vék að þessu og sagði, með leyfi forseta:

,,Varðandi sjúkrahúsin á landsbyggðinni er fallið frá því að ná sparnaðinum á einu ári. Fyrir liggur áfangaskýrsla frá vinnuhópi á vegum heilbrrn. sem fór yfir þetta mál. Niðurstaðan varð sú að málið var ekki á því undirbúningsstigi að rétt væri að deila sparnaðinum út á hvert sjúkrahús. Fyrsta nauðsynlega skrefið væri að skipa verkefnisstjórn sem ræddi við stjórnir sjúkrahúsanna og annarra heilbrigðisstofnana um möguleika til að ná fram sparnaði með samvinnu og samruna til að mynda heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa. Nauðsyn ber til að hafa heimamenn með í undirbúningi aðgerða. Þeir hafa möguleika til að gefa umsagnir um héraðshlutdeild, upptökusvæði, kostnað á sjúkrarúm og aðrar forsendur sem lagðar eru til grundvallar þegar litið er á fjárlagagrunn þeirra sjúkrahúsa sem hlut eiga að máli.``

Einnig fylgdi, og það er bein tilvitnun, með leyfi forseta:

,,Ég vil leggja áherslu á þá stefnumörkun í þessu sambandi að það ber nauðsyn til að styrkja heilbrigðisþjónustuna í sessi á landsbyggðinni og í þessa vinnu á að fara undir merkjum hagræðingar sem miðar að því. Ég tel að ef út í aðgerðir er farið undir jákvæðum formerkjum geti þær leitt til sterkari eininga og skýrari verkaskiptingar. Þá ber að koma málum þannig fyrir að framlög til sjúkrahúsanna verði endurmetin ef þeim tekst að auka sérfræðiþjónustu og héraðshlutdeild þeirra hækkar. Sterkari einingar hafa meira afl til að laða til sín sérfræðinga frá sérfræðisjúkrahúsum með farþjónustu. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga við það endurmat sem ætlunin er að fara í á landsbyggðinni. Í ljósi þessa þykir ekki raunhæft að ná sparnaði á skemmri tíma en þremur árum.``

Ég get í rauninni tekið undir málflutning hv. formanns fjárln. varðandi þessi efni. Mér þótti gott á þetta að hlýða. Það er ein ábending almenns eðlis sem þetta varðar sem væri kannski ráðlegt að nota sem ályktun af þessari stöðu eins og hún er núna í framhaldi af þeim upphaflegu tillögum sem lágu fyrir í fjárlagafrv., að það væri e.t.v. skikkanlegri og betri vinnuaðferð að byrja á því að fara í gegnum málin út frá þeim almennu sjónarmiðum, þeim breytingum sem menn eru með í huga að ná fram. Að því búnu að leggja saman hagræðinguna og sparnaðinn sem ásættanlegur er og hefur orðið að niðurstöðu. Mér er ljóst að menn bera því við að þetta sé tafsamt. En ég held að þetta sé eina aðferðin sem sé skynsamleg og þurfi að beita. Ég geri ráð fyrir að hæstv. heilbrrh. hefði kosið að þannig væri haldið á málinu. Ég vænti þess. Að minnsta kosti ætti mönnum að vera það ljósara nú heldur en síðastliðið sumar að það væri eðlilegt að ganga þannig í málin að því er varðar heilbrigðismálin almennt og sjúkrahúsin sérstaklega, jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem á landsbyggðinni eins og þessu er skipt upp hér í umræðunni. Ég tel mjög eðlilegt að það sé farið yfir sviðið út frá þessum sjónarmiðum eins og hv. formaður fjárln. lagði til.

Það eru viss atriði sem ég vildi þegar draga fram vegna framhaldsvinnu að þessum málum því enn eru menn að tala um að þessi sparnaður ætti að nást á þremur árum og ekki búnir að yfirgefa það vinnulag. Ég skal svo sem ekkert segja hver verður niðurstaðan, hvað tekst með skynsamlegum hætti, undir þeim formerkjum sem hv. formaður fjárln. dró fram, að styrkja heilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni í þessu tilviki.

En þarna er margs að gæta. Ég vil nefna í því samhengi alveg sérstaklega að það er í rauninni ekki aðeins óskynsamlegt heldur ótækt að halda þessari siglingu áfram og skilja sjúkrastofnanir eftir með skuldahala sem ríkið ber í rauninni ábyrgð á sem rekstraraðili þessara stofnana, þá á ég við sjúkrahús. Að vísu var veruleg bót á ráðin með því sem kom fram í fjáraukalagafrv. sem hefur verið afgreitt ef ég man rétt niðurstöður atkvæða hér í þinginu á síðustu sólarhringum. Vissulega er um að ræða að skuldir hafa verið lækkaðar o.s.frv. en það er óskynsamlegt að halda þessari skuldasöfnun áfram þegar menn endurmeta málin og taka á í sambandi við hagræðingu og möguleika á sparnaði og ekki síður að halda áfram skuldasöfnun með því að ætla rekstrargrunn þessara stofnana of lágan til þess að unnt sé að reka þá þjónustu sem nú er og sem heldur áfram 1. janúar og áfram á næsta ári. Niðurstaðan úr skoðun mála mun ekki liggja fyrir fyrir en kemur fram á næsta ár og kannski fram á mitt næsta ár jafnvel þótt vel væri unnið. Þá eru menn búnir að bæta við þennan uppsafnaða halla með viðeigandi fjármagnskostnaði og með svipuna reidda yfir sér og þau vandræði sem því fylgja. Ég hefði talið að skynsamlegra væri að reyna að fá sæmilega hreint borð með því að greiða uppsafnaðar skuldir, ríkið gerði þannig hreint, og með því að lyfta grunninum þannig að þjónustan geti haldið áfram frá byrjun næsta árs án þess að nýjar skuldir safnist upp. Síðan komi hagræðingaraðgerðirnar og sparnaðurinn eftir því sem skoðun mála leiðir í ljós og ásættanleg niðurstaða verður um.

Ég horfi auðvitað á mitt kjördæmi m.a. vegna þess að ég þekki þar betur til mála en annars staðar. Sjálfsagt er að líta á mál þar eins og annars staðar á landinu. Ég er alveg viss um að allir sem í hlut eiga eru reiðubúnir til þess og hafa reyndar verið að vinna að þeim málum að undanförnu. Þar á meðal stærsta sjúkrahúsið, aðalsjúkrahúsið á Austurlandi sem annast bráðaþjónustu, Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað sem hefur farið í gegnum margháttaða skoðun, úttekt á úttekt ofan. Og þau mál ættu að liggja svona sæmilega skýrt fyrir, þ.e. um hvaða kosti er þar að ræða.

Ég hef lagt á það áherslu í umræðum hér og fengið raunar ágætar undirtektir frá formanni fjárln. í því efni, að það meginmarkmið verði að standa sem forsenda þeirra aðgerða sem farið verður í, að ekki verði lögð af bráðaþjónusta hjá þessari meginstofnun sem annast bráðaþjónustu á Austurlandi. En hugmyndir voru uppi hjá embættismönnum fyrir nokkrum árum um þá óhæfu að þessi þjónusta yrði lögð af og reiddar fram í skýrslu sem ávöxtur af starfi vinnuhóps á vegum heilbrrn. á þeim tíma. Það er alveg nauðsynlegt að ljóst sé að menn ætli ekki við frekari athugun mála að stefna þessari þjónustu í hættu með sumarlokunum eins og það er kallað sem engu skila heildstætt litið á málin og væru upphafið að því að slá striki yfir það markmið að rækja á austurhelmingi landsins, í rauninni á svæðinu frá Húsavík til Vestmannaeyja eða Selfoss eftir því hvort við er miðað, bráðaþjónustu fyrir íbúa þessara svæða.

Þetta er megináhersluefni mitt í þessari umræðu vegna þess að þetta er ekkert einkamál heilbrrn. og stjórnar viðkomandi stofnunar eða stofnana. Þetta er spurning um aðstöðu fólks á svæðinu, lágmarksþjónustu við fólk á þessu svæði. Það er það sjónarmið sem ég er hér að túlka og ég veit að það á ríkan stuðning í hópi þingmanna Austurlands og ég vil engan þar undan skilja. Því vænti ég þess að það meginsjónarmið fái að standa sem grundvöllur frekari athugunar mála.

Ég vil einnig vekja athygli á ýmsu því sem fram er reitt sem sparnaðarhugmyndir, þar á meðal frá vel þjálfuðum úttektarmönnum eins og þeim sem gerði síðustu úttekt á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað undir heitinu Nýsir hf. ráðgjafarþjónusta, þar sem verið er að vísa á líklegan sparnað sem sækja megi með því að leggja saman heilbrigðisþjónustu á svæðinu með þessum orðum, með leyfi forseta:

,,Kannaður verði sá möguleiki að sameina allar heilbrigðisstofnanir á Mið-Austurlandi í eina stofnun með starfsstöðvum á öllum þéttbýlisstöðum, en fjárveitingar og daggjöld til þeirra munu nema um 500 millj. kr. á árinu 1997.`` --- Svo kemur staðhæfingin: ,,Með þessari sameiningu má nýta það fjármagn sem lagt er til heilbrigðisþjónustu á svæðinu mun betur en nú er gert og bæta þjónustuna.``

Þegar ég fæ þessa skýrslu í hendur þá spyr ég um það hvaða könnun liggi að baki þessari fullyrðingu. Hvaða athuganir liggja að baki þessari fullyrðingu: ,,Með þessari sameiningu má nýta það fjármagn mun betur en nú er gert og bæta þjónustuna``? Það er nú ekkert minna. En þegar spurt er þá eru engin svör. Það hefur engin athugun farið fram á þessu máli. Þetta er bara hugmynd sett fram, en af úttektaraðila þannig að það mætti halda að það væri eitthvert kjöt á beininu. En mér vitanlega er það ekki. Þarna gildir það sama og um tölurnar í fjárlagafrv. að það er skynsamlegra verklag --- og hef ég þó sannarlega ekkert á móti því að þessi athugun fari fram og hef verið talsmaður þess lengi, hæstv. heilbrrh., að menn reyndu að líta svæðisbundið á þessa þjónustu. Ég stóð m.a. að því að reyna að fá styrkingu á slíkri svæðisbundinni stýringu með þáltill. sem var samþykkt á Alþingi 1990 og hæstv. ráðherra kannast vafalaust vel við. Þannig að ég hef ekkert á móti því að þessi athugun fari fram. En ég geri athugasemd við að menn vísi á að þarna sé hægt að sækja einhvern umtalsverðan sparnað með slíkri aðgerð án þess að hafa fært rök fyrir því og sýnt fram á það og jafnframt að bæta þjónustuna á svæðinu.

[17:00]

Og annað atriði, kannski ekki stórt, í þessu samhengi sem varðar almenna skoðun þessara mála er erindi sem fór frá heilbr.- og trn. í haust um svonefnd ferliverk og mögulegan sparnað sem átti að ná í gegnum það að sjúkrahús hættu að senda reikninga til Tryggingastofnunar ríkisins vegna ferliverka. Þess í stað verði fært fé frá Tryggingastofnun ríkisins til sjúkrahúsanna sem síðan semji við sitt starfsfólk. Ég held að menn séu á spori sem ekki er víst að sé auðvelt að útfæra á sjúkrahúsunum úti á landi nema á þeim allra stærstu. Ég bendi á þetta í fullri vinsemd vegna þess að ég hef efasemdir um að tilraunir af þessum toga skili miklu. En ég hlýt jafnframt að benda á að mikið hefur verið rætt um sparnaðaraðgerðir í heilbrigðisþjónustu og rekstri sjúkrahúsa. Ein krafan, sem ég veit að borin var fram fyrir nokkru síðan gagnvart þeirri stofnun sem ég var að miða hér við, var úttekt á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað, og var krafa af hálfu heilbrigðisyfirvalda fyrir ekki mjög löngu síðan. Það var að greina sundur heilsugæsluþátt sem rekinn var í tengslum við sjúkrahúsið og hafði verið mjög lengi, og sjúkrahúsreksturinn. Greina þetta í sundur. Hvað kemur svo út úr Nýsi hf.? Úttekt? Jú, eitt af snjallræðunum þar til að finna sparnað, og ég held að það sé úr tillögunni sem gekk til heilbr.- og trn., --- tillaga nr. 3 --- er að Fjórðungssjúkrahúsið og heilsugæslan í Neskaupstað verði sameinuð í eina stofnun og fjárlaganúmer þeirra verði sameinað í eitt. Þetta minnir mig á þau ráð sem brugðið var á af fjármálastofnunum og lánastofnunum upp úr 1980 í sambandi við þrengingar sjávarútvegsfyrirtækja í landinu þar sem gerð var krafa um að greina á milli veiða og vinnslu. Skipta upp. Við höfum eitt ágætt dæmi úr mínu kjördæmi, Seyðisfjörð, þar sem fylgt var þeim ráðum með ekki mjög hollum afleiðingum, að mínu mati. Og ég held að hér sé á ferðinni eitthvað ekki ósvipað þegar maður fer yfir þessi efni. En ég hugsa að sú ábending sé út af fyrir sig alveg rétt. Og það hafði verið niðurstaða stjórnar umræddrar stofnunar að best færi á því út frá fjárhagslegu sjónarmiði að samreka. Eins og þarna er verið að vísa til.

Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að orðlengja þetta varðandi heilbrigðisþáttinn. Ég ítreka að ég fagna þeim almennu sjónarmiðum sem hv. þm. Jón Kristjánsson, form. fjárln., hefur lagt inn í málið og geri ráð fyrir því að hann eigi sinn góða þátt í því að sveðjurnar eru ekki meira á lofti og ekki meira áberandi en nú er. Þó einhvers staðar sé aðeins látið blika á hnífsblað þá er það ekki hátt á lofti. Ég er ánægður að svo er og einnig að hv. þm. tók sérstaklega undir það sjónarmið, í umræðu um þessi efni, að þess verði að gæta að bráðaþjónusta verði í engu skert, sem bráðaþjónusta, á Austurlandi og það sé ekki það sem menn hafi í huga. Ég vona sannarlega að því verði fylgt sem forsendu í þeirri eðlilegu athugun mála að ná fram skynsamlegri hagræðingu og ásættanlegum sparnaði á einstökum sviðum. Það þurfa menn alltaf að hafa þegar um opinberan rekstur er að ræða og mjög margs að gæta í sambandi við þau efni í heilbrigðisþjónustunni almennt séð sem tekur til sín mikið fjármagn og hef ég ekkert við það að athuga. Raunar vil ég aðeins bæta því við sem síðasta atriði varðandi þennan þátt að ég hef verið þeirrar skoðunar lengi að afmarka hefði þurft miklu betur verkefni og aðsóknarsvæði þeirra stofnana sem ríkið stendur fyrir, sjúkrastofnana úti um landið, þó það sé á kostnað þess, hvað eigum við að segja, alfrelsis. Ætli það væri ekki hæfilegt orð, þess allsherjarfrelsis sem er varðandi það hvert læknum hentar að vísa sjúklingum sínum eða sjúklingar bera fram óskir um hvert þeir eigi að leita. Ég held að þessi stefna hafi orðið ansi dýrkeypt fyrir alla að ná ekki skýrari línum í sambandi við svæðaskiptingu í heilbrigðisþjónustunni almennt og þar á meðal þau verkefni sem eðlilegt er að beina til stofnana sem eru starfræktar og lagt er til fé og ætlað er að byggja upp þó að það sé á kostnað þess allsherjarsvigrúms sem sumir hafa mælt fyrir og er raunar það sem uppi er í landinu að þessu leyti.

Síðan örfá orð, virðulegur forseti, um brtt. sem ég bar fram við 2. umr. og hef endurflutt, að vísu með auknum liðstyrk varðandi eina þeirra. Það er tillaga um undirbúningsfjármagn vegna Náttúruhúss í Reykjavík, nútímalegs náttúrufræðisafns á höfuðborgarsvæðinu. Þar hafa gerst meðflutningsmenn hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hv. þm.Kristín Halldórsdóttir. Það eru því fulltrúar úr öllum þingflokkum stjórnarandstöðunnar sem standa að þeirri litlu tillögu sem þar liggur fyrir um að hefja á nýjan leik undirbúning að þessu bráðnauðsynlega verkefni að koma upp nútímalegu náttúrufræðisafni á höfuðborgarsvæðinu.

Aðrar tillögur eru enn þá fluttar af minni hálfu en þar hafa þó gerst þau tíðindi að meiri hluti fjárln. hefur tekið upp í brtt. sínum við 3. umr., tillögu sem varðar húsnæði sýslumannsins á Seyðisfirði, nánar tiltekið starfsstöð embættisins að Bjólfsgötu 7, þar sem gert er ráð fyrir að komi 6 millj. kr. til endurgerðar á því húsnæði. Um leið er slegið striki yfir söluheimild á húseigninni þannig að engir þurfa að velkjast í vafa um að verkefnið til að búa sæmilega að þessu embætti er í því fólgið að þetta gamla og sögufræga hús verði endurbætt svo þar verði viðunandi starfsaðstaða og jafnframt verndaðar þær menningarminjar sem í þessu húsi eru fólgnar, ein af mörgum sem varða gömlu húsin á Seyðisfirði, sem er einn dýrmætasti fjársjóður þess byggðarlags. Ég þykist vita, og dreg það af orðum sem hv. þm. Sturla Böðvarsson lét falla við 2. umr. að frá honum hafi komið liðstyrkur til að fá inn upphæð fyrir næsta ár, sem er þá upphafið að því að koma þessu máli í viðunandi höfn. Og ég þakka fyrir það sem þar er fram komið.

Fyrir liggur brtt. varðandi grunnkortagerð af Fljótsdalshéraði, 5 millj. kr. framlag á móti samningi heimamanna um það verkefni og einnig tillaga varðandi Hollustuvernd ríkisins, sem býr við mikið fjársvelti á sama tíma og stjórnvöldum hentar að dengja hverju verkefninu á fætur öðru til þeirrar stofnunar. Nú síðast var vísað frá hæstv. ráðherra umhverfismála því verkefni að hraða aðgerðum vegna mengunar sem blasir við frá Járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga, sem ekki er vanþörf á. En ég hef ekki orðið var við að neitt hafi komið til viðbótar í formi fjárframlaga við 3. umr. og því er þessi brtt. áfram til afgreiðslu við 3. umr. fjárlaga, um 12 millj. kr. viðbótarframlag til Hollustuverndar ríkisins.

Ég tek eftir því, virðulegur forseti, og það skal vera undir lokin á máli mínu, að fyrir liggur líka ný tillaga, nýr liður, um rannsóknarstöð á Kvískerjum. 3 millj. kr. vegna þeirrar hugmyndar að koma þar upp rannsóknarstöð á vegum eða í tengslum við Háskóla Íslands. Ég skil málið eins og það er fyrir lagt að háskólanum sé ætlað að taka þar við þegar búið er að koma fótum undir þessa rannsóknarstöð. Ég fagna þessari ráðagerð og því framlagi sem hér er komið. Ég þykist vita að hv. þm. Egill Jónsson eigi sinn hlut í því að hafa stuðlað að því að þarna kæmi fjárframlag við þá hugmynd sem kynnt var fyrir nokkrum árum og tel það mjög góðra gjalda vert. Ég hef oft orðað það svo, reyndar fyrir löngu síðan, að þegar litið er til Kvískerja hefur þar lengi verið starfandi háskóli í sveit. Það fer vel á því að stoðum verði rennt undir áframhaldandi rannsóknir í framhaldi af því afreki sem þar hefur verið unnið af fólkinu á Kvískerjum, systkinunum á Kvískerjum, sem hafa hvert um sig lagt þar einn stein á annan til að gera garðinn frægan á þessum bæ, afskekkta bæ, í sambandi við náttúrurannsóknir. Þetta geta, virðulegur forseti, verið mín lokaorð um þetta efni sem við höfum rætt.