Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 17:42:20 (2653)

1996-12-20 17:42:20# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[17:42]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin enda hafði hann góðan tíma til að svara. Mig langar aðeins til að nefna við hann tvennt ef ég gæti fengið að nota minn tíma nettó, hæstv. forseti, en ekki brúttó.

Varðandi Lánasjóð ísl. námsmanna, þá er það ekki sambærilegt dæmi vegna þess að Lánasjóður ísl. námsmanna er að hluta til fjármagnaður með lántökum. Það er venjan að ef framlögin duga ekki, þá er lánstalan hækkuð í lok ársins, ef þau eru of mikil þá er lánstalan hreyfð þannig að það er annað mál, það er örugglega annað mál. Hér er hins vegar um það að ræða að hæstv. fjmrh. er að brjóta ákvæði laganna um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga, 16. gr. sem hljóðar svo:

,,Tekjur skulu færðar á því ári, er þær eru lagðar á eða hæfar til ákvörðunar samkvæmt ákvæðum gildandi laga.``

Það er alveg klárt mál að það að fela í fjárlögunum þúsund millj. kr., sem eru þó í raun og veru allar samkvæmt þeim lögum sem eru í gildi, er brot á lögunum um ríkisbókhald. Það er 100% klárt og ég skora á hæstv. fjmrh. að kynna sér það og fara aðeins betur yfir þetta í samráði við sérfræðinga sína. Svona liggur dæmið, að það er í raun og veru verið með bókhaldsbrellum að stinga undan þúsund milljónum til þess að það sé hægt að nota þær sem skiptimynt í kjarasamningum eða hugsanlega sem breytingar á jaðarskattaákvæðum laga þegar þar að kemur í vetur.

Varðandi elli- og örorkulífeyri, þá ætla ég bara að þakka honum fyrir svörin og segja hvernig ég skildi hann. Ég skildi hann þannig að hann muni beita sér fyrir því að bætur almannatrygginga hækki að jafnaði eins og laun verða ákveðin á næsta ári.