Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 18:23:25 (2661)

1996-12-20 18:23:25# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., EgJ
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[18:23]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Það er ekki meining mín að tefja umræðuna. Það er að verða áliðið þessa dags og styttist í þinghaldi fyrir jól. Þess vegna er það að sjálfsögðu ásetningur minn, eins og væntanlega fleiri hér á Alþingi, að verða ekki til þess að mál tefjist. Það eru hins vegar þrjár afgreiðslur hjá fjárln. sem mig langar til að minnast á með örfáum orðum. Þannig vill til að ég hef haft nokkur afskipti af þeim málum. Það má því ekki minna vera en ég komi aðeins á framfæri þakklæti til nefndarinnar fyrir þær tillögur sem fyrir liggja í þeim efnum.

Það fyrsta sem ég nefni er tillaga um viðbótarfjárveitingu til Byggðastofnunar upp á 14 millj. kr. Byggðastofnun var skorin niður við fjárlagagerð um 28 millj. og þarna kemur helmingur þeirrar upphæðar til baka. Það sem mér þykir reyndar mikilvægast er að þessi fjárveiting er sérstaklega tengd atvinnuráðgjafarstarfi á landsbyggðinni og sýnir með ótvíræðum hætti hvað sú starfsemi er að styrkja sig í áliti. Það er afar mikilvægt að viðbrögð sem þessi skuli koma fram.

Þá er næst um átakið í landgræðslu og skógrækt sem búið er að ræða æði mikið. Ég reyndar vitna í ummæli hæstv. landbrh. Það var mjög mikilvægt að það skyldi koma fram að hann ætlaði að skýra þessi mál enn frekar í tveimur þingmálum, þ.e. frv. um væntanlega Suðurlandsskóga og síðan þá væntanlega þáltill. um landgræðsluverkefni. Þá kemur auðvitað að því að menn geti rætt um þessi málefni trúverðuglega.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því að ekki er um að ræða nein straumhvörf í fjárveitingum til þessara stofnana. Við fljóta yfirferð sýnist mér að ekki muni verða mikill munur á fjárveitingu t.d. til Landgræðslunnar í lok þessa áratugar miðað við það sem var í upphafi hans ef verðlagshækkanir eru teknar með. Þannig að mér finnst mikil ástæða til að ekki séu allt of miklar væntingar í þessum efnum fyrr en menn hafa farið yfir málin sæmilega skýrt. Ég tel hins vegar afar mikilvægt ef tillaga kemur fram frá hæstv. landbrh. í sambandi við landgræðsluverkefnin, m.a. vegna þess að nú hafa menn fyrir sér skýrari mynd af því hvernig ástand jarðvegs og gróðurs er í landinu og hvernig hægt er að beita landgræðsluaðgerðum með sem skilvirkustum hætti.

Út af því sem kom fram hjá hv. 4. þm. Austurl. liggur reyndar fyrir að helstu rofsvæði landsins hafa verið skilgreind. Það hafa verið gerðar áætlanir um hvernig beri að haga landgræðsluaðgerðum og teknar hafa verið saman kostnaðaráætlanir um þau landgræðsluverkefni. Þannig að nú liggja fyrir miklu betri upplýsingar um þessi mál en áður.

Ég hlýt að fagna því líka sem hefur komið fram í umræðunni m.a. hjá formanni fjárln. um að leitast verði við að horfa til landsins alls þegar á þessi verkefni er litið. Meðal annars hefur verið talað um að um aukna atvinnu geti verið að ræða fyrir þá bændur sem búa á heppilegustu skógræktarsvæðunum en hafa misst umtalsverðan hluta af sinni lífsframfærslu vegna samdráttar í hefðbundnum búskap.

Í þessum efnum hefur verið gert nokkuð mikið úr áformum um aukna skjólbeltarækt í landinu. Þar finnst mér nú satt að segja gæta nokkurs tvískinnungs því að stuðningur við skjólbeltarækt er í lögum. Slíkur stuðningur er í jarðræktarlögunum og eftir þeim lögum hafa bændur landsins hagað sínum ræktunarmáta í sambandi við skjólbeltaræktun. En fyrir liggur að ekkert framlag til slíkrar ræktunar hefur verið innt af hendi sl. ár. Það skýtur þannig nokkuð skökku við að menn skuli núna vera að setja fram háleitar hugmyndir um þá ræktun sem menn hafa ekki sinnt að greiða framlög til sl. fimm ár. Það er alveg útilokað annað en þessi þáttur mála komi til umræðu og úrlausnar þegar málið kemur til frekari umræðu á Alþingi.

[18:30]

Ég tek auðvitað heils hugar undir að um er að ræða mikilvægt mál og góð áform. En ég endurtek það sem ég sagði áðan að það er eðlilegur kostur að málið verði skýrt til hlítar og þá fyrst geta menn metið hvaða rými fæst til þessara ræktunarmála fram yfir það sem verið hefur.

Að síðustu ætla ég að minna á eitt mál enn, sem er fjárveiting til Kvískerjastofu, eins og ég hef gjarnan kallað það. Það er talað um rannsóknir á umhverfi í Austur-Skaftafellssýslu, sem ég hlýt að fagna sérstaklega. Fyrrv. umhvrh. fól sérstökum hópi manna að vinna að þessu verki. Sú niðurstaða fékkst á sl. sumri og hér er komin framkvæmdafjárveiting sem er auðvitað staðfesting á því að þetta verkefni verði unnið á allra næstu árum.

Fyrir þær þrjár brtt., sem sú virðulega nefnd, fjárln., hefur lagt fram og ég hefi haft nokkur tengsl við, þakka ég hér við umræðu málsins. Ég fagna sérstaklega þeirri yfirlýsingu landbrh. að því er varðar átak í landgræðslu og skógrækt, að þau mál verði lögð fyrir þingið í vetur og þá gefst mönnum að sjálfsögðu kostur á að ræða þau í smærri atriðum. Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.