Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 18:35:29 (2662)

1996-12-20 18:35:29# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[18:35]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Niðurstöðutölur fjárlagafrv. liggja fyrir við 3. umr. samkvæmt tillögu meiri hluta hv. fjárln. Þær eru þessar:

Tekjur 126,2 milljarðar og gjöld 126,08 milljarðar. Tekjuaukningin nemur 800 millj. kr. en tillögur meiri hluta nefndarinnar leiða til hækkunar á gjöldum sem nema um 1 milljarði og 50 millj. kr.

Herra forseti. Frá því í haust hafa líkur á álveri á Grundartanga aukist verulega. Einnig eru líkur á stækkun Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar og forstjóra hennar. Eingöngu álverið mundi leiða til 25% aukinnar fjárfestingar, bara sá liður. Þótt þessar líkur á auknum umsvifum komi ekki fram í fjárlögum nema að litlu leyti verðum við að vera við þessu búin. Það má segja með þeim orðum að ef góðærið kæmi okkur á óvart þá gæti það orðið hallæri. Það mundi væntanlega koma okkur einnig á óvart, svo ég þylji stöðugleikabænina fyrir hv. þm. Hjörleif Guttormsson. (HG: Já, endilega að hafa hana yfir.) Án þess ég fari lengra nefni ég bara þá bæn að fara með að sígandi lukka gefist best. Hægt vaxandi bati hentar best eins og þegar vorið kemur yfir landið með batnandi tíð en ekki með gusugangi. Annars gæti líka fleira skolast til sem helst ekki má missa sig. Því er brýnt að fylgja aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum til að stefna stöðugleikanum ekki í tvísýnu.

Hvað varðar alla þá umræðu sem varð um yfirvofandi niðurskurð á sjúkrahúsum á landsbyggðinni, þá komu aldrei fram tillögur sérskipaðrar nefndar um 160 millj. kr. niðurskurð og hvernig honum yrði skipt. Þess í stað er sparnaðarátakinu, sem leiðir af 160 millj. kr. hagræðingarkröfunni, dreift á þrjú ár og það sem mestu skiptir í því sambandi er að ekki verður farið í þetta mál út frá skrifborðum hér í grenndinni heldur verður litið til aðstæðna á hverjum stað og ekki dregið úr fjárveitingum og umsvifum nema í samráði við heimaaðila. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að ekki sé eðlilegt að setja upp kjördæmastjórnir sjúkrahúsanna heldur leiti stjórnir þeirra leiða til meiri samvinnu með aukinni verkaskiptingu á milli sjúkrahúsanna og einnig þá með meiri sérhæfingu. Þannig tel ég að framtíð sjúkrahúsanna á landsbyggðinni felist að verulegu leyti í sérhæfingu hvers og eins þeirra á tilteknu fagsviði. Það mundi vafalaust einnig geta haft í för með sér að illræmdir biðlistar eftir aðgerðum heyrðu brátt sögunni til. Biðlistarnir löngu eru vissulega blettur á heilbrigðisþjónustunni og kerfinu í landinu og að fólk þurfi að þjást mánuðum eða árum lengur en ástæða væri til. Þetta á ekki að eiga sér stað og er vissulega hægt að laga og verður að laga. Ágreiningur um leiðir má ekki tefja fyrir úrbótum.

Ég vil einnig gera að umtalsefni launaliði sýslumannsembættanna á Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Seyðisfirði, Keflavík og Hafnarfirði. Þess er þá helst að geta að framkvæmdanefnd um stofnun embættis ríkislögreglustjóra mun skila niðurstöðum sínum væntanlega í janúar og hinn 1. janúar kemur nýráðinn ríkislögreglustjóri til starfa. Hann mun fara yfir málin og þykir eðlilegt að hann sé með í þeim ráðum þegar kemur að mótun þessara embætta og tilflutningi. En sem kunnugt er urðu þau til við það að samkvæmt nýjum lögreglulögum var Rannsóknarlögregla ríkisins, RLR, lögð niður og skyldu stöður flytjast m.a. á ofangreinda staði. Hitt skal vera alveg ljóst að það er ekki skilningur meiri hluta hv. fjárln. að þær stöður við embættin séu settar í nokkra hættu. Meðal annars er ástæðan fyrir því að fjárln. hafnaði beiðnum af landsbyggðinni um stöður rannsóknarlögreglumanna við nokkur embætti þar sem vissulega voru færð gild rök fyrir því að brýn þörf væri fyrir. Þessar stöður rannsóknarlögreglumanna eru til þess og þær eru ekki settar í hættu né nokkrum dyrum lokað þótt þær séu nú fluttar á safnlið þar til endanlegar niðurstöður liggja fyrir. Þessi er einnig skilningur annarra í meiri hluta fjárln. Ef aðrar hugmyndir sem hafa komið fram í dag, og einkum hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, ættu við rök að styðjast, þá væru það að mínum dómi svik og þvert á það sem áður hefur verið talað og kemur ekki til mála.

Lögreglulögin sem taka gildi 1. júlí 1997 gera ráð fyrir þessum rannsóknarlögreglustöðum, þ.e. þessum stöðum rannsóknarlögreglumanna svo það komist nú rétt fram. Við erum ekki að ljá máls á að þær séu fluttar annað.

Herra forseti. Margt væri hægt að ræða um fjárlögin við 3. umr. áfram og vafalaust margir fleiri en ég mun ekki halda lengri tölu um þau. Ég vænti þess að þau verði að lokinni umræðu samþykkt og menn geti á næsta ári vel unað við þessi fjárlög.