Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 18:55:21 (2665)

1996-12-20 18:55:21# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[18:55]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. form. fjárln. fyrir þessar skýringar. Sérstaklega finnst mér gott að heyra að ákveðið skuli hafa verið að þrengja þessar heimildir 6. gr. En mér finnst enn áhyggjuefni sú harða hægri sinnaða peningafrjálshyggja sem hér er boðuð. Og ég er nú ekki alveg sannfærður um það, þrátt fyrir orð hv. form. fjárln., að ekki sé átt við skólana þegar sagt er, með leyfi forseta:

,,Reynt verði eftir megni að skapa markaðsaðstæður í ríkisrekstri, t.d. með þróun innri markaðar og þjónustugjöldum. Gerðir verði samningar við einkaaðila um lögboðna þjónustu sem ríkið greiðir.``

Í tillögum ríkisstjórnarinnar er verið að festa þjónustugjöld í sessi. Það er verið að festa gjöld á nemendur í sessi. Það er verið að festa t.d. fallskattinn í sessi, en hann er þjónustugjald sem einstaklingar eiga að greiða sem falla á prófum eða þurfa að endurinnrita sig í námskeið. Og þetta er stefnan í almannaþjónustunni almennt. Þannig að það er ekki rétt að ekki sé verið að innleiða þessa peningafrjálshyggju í almannaþjónustuna og ég óttast, ef ekki verður horfið af þessari braut, að þá förum við að líkjast óþægilega mikið hinu fyrirheitna landi, Nýja-Sjálandi, hinu fyrirheitna landi nýfrjálshyggjunnar.