Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 18:57:13 (2666)

1996-12-20 18:57:13# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[18:57]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi útboð á þjónustu og þjónustusamninga þá vil ég ekki útiloka, þó ég sé ekki með skólana í því sambandi, að skynsamlegt sé fyrir ríkið að skilgreina þjónustu og fá aðra aðila til að annast hana fyrir sig undir ákveðnum formerkjum ef þar er vel skilgreint til hvers er ætlast og þá skilgreint hvaða þjónusta er ætlast til að sé veitt. Mér finnst ekkert á móti því að skoða slíkar leiðir þó að ég sé ekkert á því að ganga eftir öllum hugmyndum í þeim efnum en ég útiloka slíkt ekki neitt. Ég vil ekkert um það segja á þessu stigi hvort það er skynsamlegt að bjóða út fangelsi enda segir aðeins þarna að það eigi að athuga slíka möguleika. Hins vegar er ég ekki búinn að sjá neinar niðurstöður af slíkum athugunum og vil ekki slá neinu föstu um slíkt og ég er alveg sammála hv. 17. þm. Reykv. um að fangelsi eru auðvitað viðkvæmar stofnanir. Það verður að vera mjög vel um hnútana búið ef slíkt ætti að ganga upp en mér finnst að það eigi nú ekki að útiloka skoðun á slíkum hlutum. Ég er sammála því að það eigi að kanna leiðirnar í þessum efnum en ég er ekki búinn að skrifa undir endanlegar tillögur í þessu, langt frá því.