Lok þinghalds fyrir jólahlé

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 21:18:00 (2680)

1996-12-20 21:18:00# 121. lþ. 54.95 fundur 158#B lok þinghalds fyrir jólahlé# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[21:18]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég verð nú að segja alveg eins og er að ég varð mjög undrandi á þessari ræðu hæstv. forsrh. Hér hafa verið til meðferðar frv. til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, þrjú frv. en það virðist skorta eitthvað á fjarskiptin við hæstv. forsrh. hér í þessari stofnun. Er það þannig að forustumenn þingflokka stjórnarflokkanna, forsetar Alþingis og hæstv. ríkisstjórn talast ekki við? Hvað er hér á seyði? Veruleikinn er sá að hæstv. iðnrh. knúði fram í nótt umræður um mjög umdeilt mál sem stóðu til klukkan átta í morgun. Í framhaldi af því áttum við fund með forseta Alþingis og ræddum um það hvernig best væri að halda á málum í dag og í kvöld ef ljúka ætti hér fundum. Við fórum síðan, formenn þingflokka stjórnarandstöðuflokkanna, og réðum ráðum okkar og gerðum ráð fyrir því að mundum hittast ásamt öðrum forustumönnum þingsins hér síðar í dag. Og við gerðum ráð fyrir því að stjórnarliðið mundi hafa forustu um það. Það hefur ekki gerst. Ég skora því á hæstv. forsrh., áður en hann ber það á mig og okkur að við séum að ganga á bak samninga, að hann kynni sér hvað hefur farið á milli manna fyrr í dag.