Lok þinghalds fyrir jólahlé

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 21:23:15 (2685)

1996-12-20 21:23:15# 121. lþ. 54.95 fundur 158#B lok þinghalds fyrir jólahlé# (aths. um störf þingsins), ÓE
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[21:23]

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Mér þykir fundarstjórn forseta vera með miklum sóma og hef engar athugasemdir við hana. En ég vona að þetta sé allt að skýrast. Í fyrsta lagi held ég að fundinum í myndaherbergi sé í raun lokið þannig að við þurfum ekki að deila um það. Fundi var frestað hér til klukkan tíu mínútur fyrir níu og þá þurfti ég að fara í forsetastól. Ég vil aðeins reyna að skýra þetta. Þeir samningar sem við ræddum í fyrrakvöld hafa staðið og það hefur enginn verið að bera neinum á brýn að ekki hafi verið staðið við þá gerðu samninga. (SvG: Forsrh. var að því.) Nei, það sem hins vegar hefur komið upp síðan eru umræður um það hvort einhver tillaga eða tillögur frá stjórnarandstæðingum yrðu samþykktar. Og til þess að svo verði þarf auðvitað fulltingi stjórnarflokkanna og það hafa stjórnarflokkarnir eftir því sem ég best veit, og veit raunar með vissu, verið að ræða. Ég held að það verði einfaldlega að koma í ljós við atkvæðagreiðslu hér á eftir hvort einhver slík tillaga hlýtur samþykki. Þetta er það sem hefur bæst við í viðræðum mínum við þingflokksformenn og forsrh. hefur að hluta til tekið þátt í þeim viðræðum. Ég læt nú í ljós þá ósk að við getum lokið þessu eins og forseti sem nú er í forsetastól hefur óskað eftir. Við eigum að geta það og ég vona með góðum hætti.