Almannatryggingar og lyfjalög

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 21:31:12 (2689)

1996-12-20 21:31:12# 121. lþ. 54.4 fundur 250. mál: #A almannatryggingar og lyfjalög# (kaup á vörum og þjónustu, lyfjaverðsnefnd) frv. 153/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[21:31]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um brtt. sem við flytjum nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar. Hún varðar það atriði að tengja á nýjan leik upphæðir bótaliða í tryggingakerfinu við launaþróun í landinu eins og verið hefur um langt árabil, allt fram á síðasta ár þangað til hæstv. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, annað ráðuneyti hæstv. forsrh., tók þá ákvörðun í fyrra með meiri hluta sínum að afnema þessa viðmiðun.

Herra forseti. Þá voru uppi miklir svardagar af hálfu ríkisstjórnar um að ekki stæði til að nota þessa breytingu til að skerða upphæðir þessara bótaliða heldur væri fyrst og fremst um tæknilega breytingu að ræða, kerfisbreytingu, ópólitíska kerfistæknilega ákvörðun í anda Sjálfstfl. og Framsfl. með sérstöku tilliti til nýrra þingmanna á vegum þessara flokka. En nú liggja efndirnar fyrir, herra forseti. Strax á fyrsta ári þessara breytinga, við næstu fjárlög eftir að þær verða virkar, ætla ríkisstjórnarflokkarnir sér að sæta lagi og skerða upphæðir þessra bótaliða um að minnsta kosti 1,5 prósentustig.

Það liggur fyrir, herra forseti, að samkvæmt forsendum fjárlagafrv. eru verðlagsbreytingar milli ára áætlaðar um 2% miðað við verðlagsþróun frá miðju þessu ári til miðs næsta árs en launabreytingar samkvæmt forsendum fjárlagafrv. eru áætlaðar 3,5%. Það liggur þar af leiðandi í augum uppi að ef hin fyrri viðmiðun hefði verið í gildi mundu þessir bótaliðir nú, samkvæmt þeirri áætlun sem lögð yrði til grundvallar afgreiðslu fjárlaga, eiga að hækka um 3,5%. Sú var venjan á meðan launaviðmiðunin var við lýði að spár um launaþróun á komandi fjárlagaári voru lagðar til grundvallar uppfærslu þessara liða í fjárlögum. Nú þegar skakkar sem sagt á milli 200 og 300 millj. kr. vegna þess að notuð er 2% uppfærsla í staðinn fyrir 3,5% sem er áætluð launaþróun á næsta ári.

Það sem kannski skiptir nú meira máli er að ef launabreytingar kynnu á næsta ári að verða til muna meiri svo sem vegna þess að semdist um meiri kauphækkanir á næsta ári þá hefði samkvæmt fyrra fyrirkomulagi lífskjör þess hluta landsmanna sem þiggja bætur fylgt launaþróuninni í landinu. Ellilífeyrisþegar, örorkulífeyrisþegar og atvinnulausir hefðu sjálfkrafa fengið sömu kjarabætur og aðrir landsmenn í gegnum þá sjálfvirku viðmiðun að bótaliðirnir fylgdu launaþróuninni í landinu. Þetta fannst hæstv. ríkisstjórn ekki nógu gott. Hún tók þá ákvörðun að grípa til sérstakra ráðstafana gagnvart kaupmætti þessa fólks og afnema þá sjálfvirku viðmiðun við lífskjör annarra í landinu sem þessir hópar hafa notið um árabil og áratuga skeið. Það verður varla skilið öðruvísi en svo, herra forseti, en að það sé niðurstaða stjórnarflokkanna að þetta fólk sé aflögufært og þó svo aðrir kynnu að fá einhverjar kauphækkanir á árinu sé ástæðulaust að vera að skila þeim til ellilífeyrisþega og atvinnulausra. Þeim ættu að duga þessi 2% að mati ríkisstjórnarinnar. Auðvitað hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort ekki sé svo komið að ríkisstjórnin ætlist til þakklætis fyrir að hafa þó fært þetta upp um 2%, samanber það að barnabætur, barnabótaauki, vaxtabætur og persónufrádráttur á ekki að hækka um eitt einasta prósent, um núll prósent nú um áramótin.

Við þingmenn stjórnarandstöðunnar, herra forseti, viljum leggja áherslu á okkar grundvallarafstöðu í þessum málum með því að flytja brtt. um að þeirra tilhögun verði tekin upp á nýjan leik. Nú er það þannig, herra forseti, að í ljósi efnahagsþróunar og verðbólgutalna á síðustu árum skipta í sjálfu sér verðtengingar eða viðmiðanir af því tagi sem áður voru meira og minna algildar í okkar skattkerfi og efnahagslífi minna máli því breytingarnar eru minni. Það er ekki allt á jafnmikilli flugaferð mælt í tugum prósentna í verðlagsbreytingum milli ára og áður var. Þess þá heldur, herra forseti, ætti það ekki að vera mikið deiluefni ef menn telja sig hafa fundið sæmilega sanngjarnar viðmiðanir fyrir helstu þætti skattkerfisins og almannatryggingakerfisins. Það ættu ekki að þurfa að standa deilur á Alþingi hver áramót um það að þeir hlutir taki eðlilegum verðlagsbreytingum. Hæstv. ríkisstjórn skaut sér á bak við það í fyrra að kerfislæg rök lægju til grundvallar þeirri ákvörðun að afnema launaviðmiðun bótaliða í almannatryggingakerfinu. Það væru sem sagt ekki þau rök að bætur væru of háar eða of lágar, að það þyrfti að breyta raungildi þeirra. Nei, þvert á móti var svarið og sárt við lagt að það stæði ekki til að breyta þeim í sjálfu sér. Það er þá orðið þannig, herra forseti, að það þarf ekki einu sinni að fara aftur fyrir kosningarnar til að finna dæmi um ömurleg svik Framsfl. gagnvart eigin yfirlýsingum og loforðum. Það nægir að fara aftur til desember, aftur til jafnlengdar að ári, til að draga fram vitnisburð um að í þessum ræðustóli stóðu talsmenn stjórnarflokkanna og voru með svardaga um að það væri ekki tilgangurinn með þessum breytingum að nota þetta sem tæki til að skerða lífskjör þessa hluta landsmanna sérstaklega.

Nú blasa efndirnar við. Þessir liðir verða skertir svo nemur hundruðum millj. kr. ef svo heldur sem horfir á næsta ári með þeirri aðgerð einni að uppreikna þessa liði um einungis 2% í staðinn fyrir áætlaða launaþróun. Held ég þó að það séu ekki margir menn í landinu nema ef vera skyldu hæstv. ráðherrar og meiri hluti þeirra hér sem bindur vonir við að launahækkanir á næsta ári verði ekki nema 3,5%. Ég held að þeir séu nánast einir um það, þessir 10 hæstv. ráðherrar og meiri hlutinn sem hér stendur á bak við þá, að gerir sér vonir um í þeim skilningi mælt að launabreytingarnar verði ekki meiri. Staðreyndin er sú að í þjóðfélaginu eru uppi væntingar um að það verði umtalsverðar kjarabætur í komandi kjarasamningum sem mælist frekar í tugum en einingum prósentna og hvað verður þá orðið eftir af 2% uppfærslu ellilífeyris, almannatryggingabóta, örorkulífeyris og slíkra stærða? Þá jafngildir það ávísun á stórkostlega kjaraskerðingu þessa hóps borið saman við aðra landsmenn. Þá er náttúrlega tilgangurinn með þessu orðinn næsta nakinn. Hann hefur verið sá allan tímann að útbúa sér tæki til að framkvæma sérstaka kjaraskerðingu gagnvart þessum aðilum.

Það verður þess vegna fróðlegt, herra forseti, að sjá hver viðbrögð stjórnarliðsins verða við þessari brtt. sem felur það eitt í sér --- afar einföld í eðli sínu brtt. á þskj. 447 --- að tengja á nýjan leik þessa launaþróunarviðmiðun sem um árabil hefur verið lögð til grundvallar útreikningi þessara bóta í íslenska almannatryggingakerfinu. Það er í raun og veru öll róttæknin sem í þessu felst, að hverfa aftur til þess fyrirkomulags sem ágæt pólitísk samstaða, verður maður að álykta, var búin að vera um á Íslandi um áratuga skeið. Því allir flokkar sem á annað borð hafa átt aðild að ríkisstjórnum á Íslandi hafa staðið að því og starfað á grundvelli þeirra leikreglna að þessi tilhögun væri viðhöfð.

Herra forseti. Í ljósi þess, eins og ég hef áður sagt, hvað sagt var um þessa hluti í fyrra þá hljóta hv. þm. stjórnarliðsins að fagna því tækifæri að geta nú endurskoðað afstöðu sína til þess hvort rétt hafi verið að styðja tillögur hæstv. ráðherra við afgreiðslu síðustu fjárlaga um þessa kerfisbreytingu með þeim sérstöku rökum að í því fælist alls ekki og nema síður væri ákvörðun um að skerða kjör þessa hluta landsmanna.

Það vill svo vel til, herra forseti, að á borðum okkar liggur fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 117 frá 1993, og reyndar einnig lyfjalögum sem gerir þetta mikla plagg að bandormi, hvorki meira né minna. Þar með er handhægt að flytja þessa einföldu brtt. og fer vel á því að menn geti þá tjáð hug sinn til þessara mála með atkvæði sínu á eftir.

Herra forseti. Það væri ástæða til að fara ítarlegar yfir hvernig hæstv. ríkisstjórn er að ganga frá málum hvað varðar kjör ýmissa hópa í landinu nú um áramótin. Ég held að því miður hafi farið svo með einhverjum hætti hjá okkur að pólitíkin í umræðum um meginmálin við afgreiðslu lánsfjárlaga, tekjuskattafrv. og annarra slíkra hluta hafi allt of lengi legið í láginni þangað til kannski fram á síðustu tvo til þrjá sólarhringa. Að hluta til vegna þess að hæstv. ríkisstjórn beitti því lævíslega bragði að þegja um mestu óhæfuverkin fram á síðustu stundu en draga þau svo upp úr pokanum þegar eins og tveir sólarhringar voru til áætlaðra þingloka. Það er nokkurt umhugsunarefni satt best að segja þegar farið er yfir það hvernig hæstv. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar með hæstv. félmrh. Pál Pétursson innan borðs ætlar að afgreiða hér mál gagnvart elli- og örorkulífeyrisþegum, atvinnulausum og barnafólki og lágtekjufólki sem er með tekjur sem liggja nálægt skattleysismörkum eða rétt þar fyrir ofan. Staðreyndin er sú, herra forseti, að það er um eina samræmda árás að ræða á alla þessa aðila. Eina samræmda árás og hún felst í því að hlutur þessara aðila er fyrir borð borinn, ýmist algjörlega eða að verulegu leyti með þeim aðferðum sem hæstv. ríkisstjórn hefur valið sér við frágang þessara mála.

Það hefur gefist allt of lítill tími til að ræða þessi mál. Upplýsingar hafa ekki komið fram að hluta til fyrr en á síðustu sólarhringum. Það var fyrst á fundi í efh.- og viðskn. fyrir, ég hygg, þremur kvöldum sem sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að frysta upphæðir persónufrádráttar, barnabóta og annarra slíkra þátta í skattkerfinu kom fram. Þá fyrst var skýrt frá því að ríkisstjórnin og meiri hluti hennar á Alþingi hefði ákveðið að hverfa frá því að láta þessar breytur í skattalögum taka eðlilegri verðlagsuppfærslu.

[21:45]

Fyrir lá að sérstök árás á bótaþega í almannatryggingakerfinu var fólgin í þeirri aðferð eða formúlu hæstv. ríkisstjórnar að uppfæra þá liði eingöngu um 2%. Hv. stjórnarliðar hafa verið býsna duglegir við það, bæði í gær og í dag eftir að þessar umræður hófust, að gera lítið úr þessum breytingum. Reynt er að höfða til þess að þarna séu ekki stórar upphæðir á ferð, þetta séu nánast hverfandi tölur í ljósi þess að engin verðbólga sé í landinu þannig að það skipti svo sem ekki miklu hvort skattgreiðslumörkin séu 60 þús., 61 þús. eða 62 þús., barnabæturnar 9 þús., 30 þús. eða hvað það nú er eftir því hvort um einstæða foreldra eða aðrar barnafjölskyldur er að ræða. En þetta endurspeglar kannski ágætlega mat hæstv. ríkisstjórnar og talsmanna stjórnarflokkanna á veruleikanum, sem sagt t.d. að það skipti láglaunafólk eða einstæða foreldra ekki miklu máli hvort þessi þúsundkall til eða frá í skattleysismörkunum sé til staðar eða ekki 1. janúar nk. þegar menn hefja skattgreiðslur á nýju skattári.

En ætli það sé nú samt ekki þannig að það skipti máli á mörgum heimilum í landinu að skattleysismörkin hækka ekki um talsvert á annað þús. kr. eins og þau hefðu átt að gera, sem þýðir aftur að meira en 500 kr. úr launaumslaginu um hver mánaðamót renna í ríkissjóð í staðinn fyrir að koma í vasa launamannsins? Ætli það sé ekki því miður þannig að það geri það? Því miður, herra forseti, hlýtur maður að segja, því að það er auðvitað dapurlegt að þurfa að viðurkenna að ástandið sé þannig á Íslandi að jafnvel 500 kr. um hver mánaðamót skipti verulegu máli fyrir þúsundir heimila í landinu. En þannig er það. Og það bætir auðvitað ekki úr skák ef þau heimili eru til viðbótar því að vera lágtekjuheimili, líka heimili þar sem mörg börn eru á framfæri og þar sem menn hafa jafnvel verið að reyna að koma sér upp húsnæði og treysta á vaxtabætur úr skattkerfinu á næstu árum og allir þessir liðir skerðast samtímis við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að frysta þessar upphæðir í stað þess að láta þær taka eðlilegri verðlagsuppfærslu. Þá verða 500-kallarnir að þúsundköllum um hver einustu mánaðamót. Og jafnvel hæstv. ráðherrar eru tæplega svo skyni skroppnir að þeir átti sig ekki á því að fyrir lágtekjufjölskyldurnar skipta hlutirnir máli þegar þeir eru farnir að mæla þetta í þúsundköllum a.m.k. um hver mánaðamót.

Herra forseti. Ég vil alveg sérstaklega mæla fyrir þessari breytingartillögu okkar sem flutningsmenn ásamt mér að eru hv. þm. Ágúst Einarsson, Jón Baldvin Hannibalsson og Kristín Ástgeirsdóttir. Þetta er breytingartillaga á þskj. 447. Það væri ánægjulegt ef hæstv. ráðherrar, t.d. hæstv. fjmrh. eða hæstv. félmrh. sem hin félagslega bágsemd í landinu á víst að heyra undir að nafninu til --- maður verður nú að segja svona að nafninu til miðað við framgöngu hæstv. ráðherra fram að þessu --- létu það eftir sér að skiptast aðeins á skoðunum við okkur um þessa stöðu. Út af fyrir sig held ég að þjóðin taki því ekkert illa þó við hættum við þetta jólaleyfi okkar og hittumst aftur í janúar til þess að ræða m.a. þessa breytingartillögu. Ég er ekki viss um að því yrði í sjálfu sér illa tekið, alla vega ekki á meðal almennings, ef við þingmenn létum okkur hafa það að ganga þannig að okkar störfum þrátt fyrir annríki og vökur að undanförnu að við kæmumst að þeirri niðurstöðu að málin væru ekki fullrædd og óhjákvæmilegt að taka aðeins betur á einu og einu atriði, eins og til að mynda því hvernig væri verið að ganga frá málum varðandi lágtekjuhópana, elli- og örorkulífeyriþegana, þá atvinnulausu og aðra sem í sambærilegri stöðu eru á Íslandi í miðju góðærinu á því herrans ári 1996, með árið í hönd farandi 1997 og styttist þá til aldamóta.

Herra forseti. Ég hvet til þess að menn geri upp hug sinn til þessarar breytingartillögu okkar og skoði sinn hug mjög vandlega. Svik hæstv. ríkisstjórnar liggja alveg fyrir. Orðin frá því í fyrra um að kerfisbreytingin mikla að afnema launaviðmiðun bótaliða í almannatryggingakerfinu eru að reynast ómagaorð, alla vega ómerkingaorð ef svo heldur fram sem horfir að strax á fyrsta ári eftir að þessar breytingar eru gerðar, þá verði þær notaðar til þess að skerða kjör þessara aðila þrátt fyrir svardagana, til þess að ráðast sérstaklega að lífskjörum þessa hóps sem ég hélt satt best að segja að sæmilega þverpólitísk samstaða væri um á Íslandi að væri einna síst aflögufær.