Almannatryggingar og lyfjalög

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 22:11:55 (2692)

1996-12-20 22:11:55# 121. lþ. 54.4 fundur 250. mál: #A almannatryggingar og lyfjalög# (kaup á vörum og þjónustu, lyfjaverðsnefnd) frv. 153/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[22:11]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þó nú sé eiginlega liðið að lokum þessa þings er hér til umræðu sú tillaga sem mesta þyngd hefur af öllum þeim tillögum sem stjórnarandstaðan hefur flutt í þessari síðustu lotu þingsins. Hér er gerð tillaga um að bætur til þeirra hópa sem hafa búið við verst kjör verði tengdar launaþróun í landinu eins og áður gilti.

Nú er það svo, herra forseti, að skylt er skeggið hökunni og svo sannarlega er þetta í stíl við þá stefnu sem jafnaðarmannaflokkar hafa fylgt hér á landi eins og annars staðar áratugum saman. Þetta mál tengist grunnstefi í starfsemi Alþfl. allt frá því að hann var stofnaður fyrir 80 árum. Þeir sem flytja tillöguna, þar á meðal eru tveir þingmenn jafnaðarmanna, sem því miður eru mjög önnum kafnir við fundahöld annars staðar sem tengjast þinginu þannig að það er ekkert skrýtið þó ég komi hér og mæli fyrir tillögunni. Hvert er réttlætið fyrir því að hafna þessari tillögu? Ég get ekki séð það, herra forseti.

Staðan er þannig að við fjárlögin í fyrra var tengingin við hina almennu launaþróun í landinu felld brott en því fylgdi jafnframt loforð um að þetta yrði ekki notað til að skerða kjör þessara hópa. Ég man ekki betur en þetta loforð hafi verið án tvímæla, hafi verið skýlaust.

Hvernig er staðan í þjóðfélaginu í dag, herra forseti? Hún er einfaldlega þannig að þensla er á næstu grösum. Það er svo mikil þensla að hæstv. menntmrh. lýsti því yfir í gær að rök hans fyrir því að taka ekki meira fé, taka ekki sérstakan eignarskatt sem tekinn er samkvæmt lögunum frá 1989 um endurbætur á menningarbyggingum, væru vegna þess að hann vildi ekki stuðla að þenslu á suðvesturhorninu. Með öðrum orðum, það er alveg klárt að menn búast við þenslu á næstunni.

Hv. þm. Sturla Böðvarsson hefur haldið margar ræður síðustu daga. Hann hefur aftur og aftur farið í fjölmiðla og varað við því að þensla væri á næsta leiti, það væru líkur á verðbólgu, óhóflegum launahækkunum. Með öðrum orðum, á annan veginn segja hv. þingmenn stjórnarinnar að gert sé ráð fyrir allverulegum launahækkunum en þeir hafa nú þegar hækkað þennan lið á fjárlögum um aðeins 2%. Ég segi, herra forseti, að það er ákveðið misræmi þarna á milli. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að við ræðum það vel í kvöld áður en þingheimur kveður og heldur til jólahalds, hvort þetta sé hin rétta jólagjöf til þessara hópa. Hóparnir sem við erum að hugsa um með þessari tillögu, sem liggur fyrir frá fjórum hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar, gerir ráð fyrir að bætur úr almannatryggingakerfinu verði aftur látnar taka mið af þeim breytingum sem líklegt er að verði á launum á yfirstandandi ári og næsta ári. Telja menn að það sé líklegt að laun muni ekki hækka nema um 2%? Hafa menn ekki hlustað á raddir verkalýðshreyfingarinnar? Hafa menn ekki hlustað á það, sem til að mynda framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands sagði í haustbyrjun, að svigrúm væri fyrir allgóðar launahækkanir? Muna menn ekki eftir því þegar hæstv. forsrh. hélt sínar ræður í byrjun þessa þings og lýsti því yfir að árferðið væri allt á uppleið og það væri bjart framundan í íslensku þjóðlífi? Er það þá ekki sanngjarnt, herra forseti, að líka þessir hópar sem eiga allt sitt undir almannatryggingakerfinu fái að njóta í sama mæli þessa bata sem hæstv. ríkisstjórn hefur gumað svo af? Hvers vegna ekki? Hvaða rök eru fyrir því að svo verði ekki gert? Ég segi eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson sem talaði fyrr í kvöld: Hvaða rök hafa stjórnarliðar fyrir því að fella þessa tillögu? Ég er reiðubúin til að hlusta á þau og taka afstöðu til þeirra. En við verðum fyrst að heyra þau. Staðan er einfaldlega þannig að stjórnarliðið þegir þunnu hljóði. Stjórnarliðið ætlar sér með því að þegja þunnu hljóði og með því að fella þessa tillögu eins og er alveg klárt að þeir hyggjast gera, líka að brjóta loforðið sem þeir gáfu í fyrra, það loforð sem eins og hér hefur verið margítrekað gekk út á það að þær breytingar sem urðu við fjárlögin í fyrra á lögum um almannatryggingar yrðu ekki notaðar til þess að skerða kjör þessara hópa. Enda alveg klárt að með því að hækka aðeins þessa bótaliði um 2% á næsta ári er stefnt að því að skerða kjör þeirra. Þar með eru menn líka að lýsa því yfir að orðin sem þeir létu sér um munn fara í fyrra séu ómerk. Ég get ekki fallist á það, herra forseti, og þess vegna hvet ég hv. þm. stjórnarliðsins til að íhuga hvort það sé nú ekki í takt við anda þeirrar hátíðar sem við erum nú senn að halda til að fagna, hvert í sínu heima, að gefa þessum hópum þá jólagjöf sem þeim væri sennilega kærkomnust og fælist í því að samþykkja þessa tillögu. Gleymum ekki anda jólanna, herra forseti. ,,Elska skalt þú náungann eins og sjálfan þig.`` Við mundum öll ef við værum í þessari stöðu vilja fá þessa tillögu samþykkta og við skulum þá líka gera náunga okkar það.