Öryggi raforkuvirkja

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 22:22:48 (2695)

1996-12-20 22:22:48# 121. lþ. 54.6 fundur 73. mál: #A öryggi raforkuvirkja# frv. 146/1996, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[22:22]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Aðeins út af orðum hv. þm. Svavars Gestssonar um afgreiðslu málsins. Þetta mál er hluti af fjárlagafrv. Það hefur komið fram hér áður í þessari umræðu og ég fagna því að það væri mikilvægt að stjórnarandstaðan á Alþingi skildi að ríkisstjórnin þyrfti að fá mál þau sem væru hluti af fjárlagafrv. samþykkt fyrir áramót. Það er nefnilega gert ráð fyrir að með sameiningu Löggildingarstofunnar og Rafmagnseftirlits verði talsverður sparnaður af rekstri þessara stofnana og þeim sparnaði er gert ráð fyrir í fjárlagafrv.

Eins og ég hygg að hv. þm. hafi orðið varir við við atkvæðagreiðslu hér eftir 2. umr. málsins í þeim tillögum sem komu frá meiri hluta iðnn., 14 breytingartillögum sem gerðar voru við frv., þá eru þær til komnar vegna þess að verið er að koma til móts við óskir þeirra sem komu til fundar við nefndina. Og það hefur verið reynt eftir því sem nokkur kostur var á að ganga eins til móts við þá sem komu á fund nefndarinnar.

Þá var mjög rætt um það hér snemma í morgun hvað yrði um það starfsfólk sem nú starfar hjá báðum þessum stofnunum. Í frv. til laga um Löggildingarstofu eru ákvæði um að starfsmenn skuli að öðru jöfnu sitja fyrir um sambærileg störf hjá hinni nýju stofnun. Þeir starfsmenn sem ráðnir verða til starfa hjá hinni nýju stofnun að undangenginni auglýsingu eins og skylt er samkvæmt lögum munu halda fyrri rétti sínum samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þetta varðar t.d. fyrirframgreiðslu launa, biðlaunarétt, makalaun og lausnarlaun vegna heilsubrests. Af þessu leiðir að yfirleitt verður engin breyting á réttarstöðu starfsmanna sem kunna að ráðast til starfa hjá hinni nýju stofnun og að í frv. eru gerðar ráðstafanir sem tryggja að réttarstaða starfsmanna verði óbreytt. Að þessu er nú unnið og sá undirbúningur er hafinn á vegum iðnrn. Við vonumst til og munum leggja okkur fram um að í nýju skipulagi þessarar stofnunar verði hægt að ráða allflest það starfsfólk sem þar er starfandi á báðum stofnununum núna. Því er hins vegar ekki að neita að það er gert ráð fyrir að þetta frv., og þess vegna er það hluti af fjárlagafrv., spari nokkrar millj. kr. Það kann auðvitað að vera að það komi til á einhverjum stigum málsins að þarna fækki starfsmönnum og þá verður að reyna að gera það eins mildilega og nokkur kostur er. Ég veit að það mun taka einhvern tíma að koma þessu skipulagi á og það mun kosta einhverja peninga. En menn munu fara mjög varlega í þessum efnum og reyna að gera þetta eins lipurlega og hægt er.