Löggildingarstofa

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 22:30:39 (2698)

1996-12-20 22:30:39# 121. lþ. 54.7 fundur 74. mál: #A Löggildingarstofa# frv. 155/1996, Frsm. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[22:30]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frhnál. frá minni hluta efh.- og viðskn. Þannig er að í ljósi nýrra upplýsinga hefur minni hlutinn endurskoðað afstöðu sína til þessa máls. Öfugt við það sem við nefndarmenn í efh.- og viðskn. höfðum ástæðu til að ætla miðað við þær upplýsingar sem okkur voru veittar um málið, hefur komið í ljós að um það er mikill ágreiningur. Ég ætla ekki að fara út í það hér af tillitssemi við viðkomandi aðila að rekja hvernig staðið var að því að miðla upplýsingum til efh.- og viðskn. en okkur var talin trú um að um þetta mál ríkti algjör samstaða meðal hagsmunaaðila, starfsmanna og annarra sem í hlut ættu.

Annað hefur komið á daginn eins og kunnugt er. Það er m.a. ljóst af umræðum um næsta dagskrármál á undan að um þessi mál standa miklar deilur. Málin eru illa undirbúin, þau eru illa gerð og það kostaði breytingartillögur við nánast hverja einustu grein frv. sem var til 2. umr. fyrr í dag. Þá hefur og komið á daginn að málefni starfsmanna eru í mikilli óvissu. Það hefur ekki verið rætt við starfsmenn þessara stofnana og mikil óvissa er um hvernig hagir þeirra verða eftir þessar breytingar. Minni hlutinn telur því vænlegast að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar og fresta afgreiðslu þess þannig að meiri tími gefist til að skoða málin betur.

Hæstv. iðnrh. færir fram sem rök fyrir þessu máli að því eigi að fylgja nokkur sparnaður, það er sami hæstv. iðnrh., er það ekki, herra forseti, sem er genginn á dyr, og að þetta sé þar með væntanlega hluti af sparnaðaraðgerðum ríkisstjórnarinnar og tengist afgreiðslu fjárlaga. Þess vegna verði þetta að ná hér fram. Við höfum nú heyrt það áður, herra forseti, að einkavæðing eftirlitsiðnaðarins í landinu sé gerð í sparnaðarskyni en reynslan er önnur. Staðreyndin er sú að það hefur engin ein atvinnugrein í landinu blómstrað jafnmikið á síðustu missirum eins og eftirlitsiðnaðurinn og sérstaklega hinir einkavæddu hlutar hans. Það er í raun verið að koma á í landinu lagskiptum eftirlitsiðnaði þar sem annars vegar er einkageirinn með veiðileyfi á viðskiptavinina og síðan opinberar silkihúfur, stofnanir þar ofan á með fínum stjórnum sem kosta sitt líka.

Herra forseti. Ég innti hæstv. ráðherra eftir því í gær hvort fjölmiðlafréttir um það að hæstv. ráðherra hefði falboðið forstjórastarfið í hinni nýju stofnun tilteknum manni. Það komu lítil svör, herra forseti, þannig að ég hef því miður ekki annað tækifæri en þetta síðasta, hér við 3. umr. málsins, til þess að knýja á um svör frá hæstv. ráðherra. Ég óska eftir því að hæstv. forseti lyfti nú brúnum sínum og geri gangskör að því að fá hæstv. ráðherra í salinn.

(Forseti (GÁ): Forseti mun verða við því. Ráðherra er hér á næstu grösum og verður hans leitað. --- Hv. þm. má halda áfram að tala.)

Það er ekki um annað að tala, herra forseti, en þessa einu spurningu sem ég ætlaði að leggja fyrir hæstv. ráðherra þannig að ég kýs að gera hlé á máli mínu þangað til ráðherra gengur í salinn og vona að það verði ekki 29 mínútur eins og fordæmi eru fyrir hér á þingi.

Herra forseti. Það er mér mikið gleðiefni að hæstv. ráðherra skuli sjá sér fært að koma í þingsalinn í öllum sínum önnum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort réttar séu þær fjölmiðlafregnir næsta fáheyrðar sem hafa komið fram núna á síðustu sólarhringum um það að hæstv. ráðherra hafi í bréfi boðið ráðuneytisstjóra í ráðuneyti sínu sem er í leyfi frá störfum að gerast forstöðumaður þessarar nýju stofnunar. Hvort hægt sé að fá að sjá þessi bréf og upplýsa um þessi mál á hinu háa Alþingi áður en málið verður endanlega afgreitt. Þannig háttar til að ráðuneytisstjóri í iðn.- og viðskrn. er í leyfi frá störfum og hefur verið að sinna mikilvægu embætti í þágu þjóðarinnar á erlendri grund. Hann hugðist nú snúa heim eins og til hafði verið stofnað í samræmi við þann tíma sem hann hafði fengið leyfi. En þá berast fregnir af því að hæstv. ráðherra hafi ekki hug á því að láta ráðuneytisstjórann taka sín fyrri störf, heldur bjóði honum önnur og lægra sett embætti, ýmist skrifstofustjórastörf í ráðuneytinu, að gerast undirmaður fyrrum undirmanna sinna, eða hitt sem fram hefur komið að hæstv. ráðherra hafi boðið ráðuneytisstjóranum að gerast forstöðumaður fyrir væntanlega Löggildingarstofu. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að við fáum hér svör um það frá hæstv. ráðherra hvort rétt sé eftir haft, hvort rétt sé bréfað og hvernig það standi þá af sér stjórnskipulega hjá hæstv. ráðherra að gera hvort tveggja í senn, að meina ráðuneytisstjóranum að setjast í sína fyrri stöðu og festa svona fyrir fram forstjórastarfið í þessari stofnun, hvort hæstv. ráðherra hafi kannað það alveg til hlítar að ekki sé öðrum hæfari mönnum til að dreifa í heiminum sem kynnu að sækja um forstjórastarfið hjá Löggildingarstofunni heldur en ráðuneytisstjóranum, og þar af leiðandi hafi verið óhætt að treysta því að ekki kæmi til neinnar misbeitingar á valdi á þó að ráðuneytisstjórinn fengi fyrir fram embættið. Ég held að það sé alveg það minnsta sem hæstv. ráðherra getur lagt á sig við lokaafgreiðslu þessara mála að upplýsa þetta. Vonandi dregur hæstv. ráðherra ekkert undan því að eins og kunnugt er, þá er reynslan af því frekar slæm fyrir ráðherra, bæði hér heima og erlendis, að draga undan þegar spurt er um alvarleg mál.