Löggildingarstofa

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 22:40:56 (2702)

1996-12-20 22:40:56# 121. lþ. 54.7 fundur 74. mál: #A Löggildingarstofa# frv. 155/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[22:40]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er mjög eðlilegt að þetta mál sem varðar starf ráðuneytisstjóra í iðnaðar- og viðskrn. sé rætt hér þegar á dagskrá er einmitt það sem við ræðum hér, Löggildingarstofan, vegna þeirra tengsla sem fram hafa komið milli uppsagnar hæstv. iðnrh. á ráðuneytisstjóra sínum og tilboðs sem fullyrt er að honum hafi verið gert. Ég ætla ekki að segja margt um málið en ég undrast það eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. hvernig mál þetta ber að og hvernig á því hefur verið tekið af hálfu hæstv. ráðherra sem telur sig þarna hafa stöðu til þess að breyta til. Ég vil ekki leggja neitt mat á það út frá lögfræðilegri hlið. Það finnst mér ekki vera kannski meginatriði heldur hitt, sem ég tók ekki eftir að nefnt væri hér, að viðkomandi starfsmaður kemur heim í góðri trú og hættir störfum í embætti sem hann hafði tekið að sér tímabundið og fengið leyfi til að sinna um hríð. Hann kemur heim í góðri trú eftir að hafa fengið skilaboð bréflega, eftir því sem sagt er, frá hæstv. iðnrh. um það að leyfi hans verði ekki framlengt. Viðkomandi starfsmaður hjá Eftirlitsstofnun EFTA, þ.e. ráðuneytisstjórinn sem hefur stöðuna, tekur ákvörðun um það að hætta því starfi fyrr heldur en ástæða var til til þess að koma þeim til þess að uppfylla þau skilyrði sem verið var að setja honum. Frá mannlegum sjónarmiðum finnst mér mjög óeðlilega á máli haldið og ég vil að það komi fram hér vegna þess að þetta mál hefur borið hér á góma og skiptir þá engu hver í hlut á.

Ég er mjög undrandi eins og fleiri á þessari málsmeðferð hæstv. ráðherra. Mér finnst hún mjög sérkennileg og ég vil jafnframt taka það fram að þetta ber ekki að skilja á neinn hátt sem svo að ég vantreysti þeim einstaklingi sem hefur gegnt ráðuneytisstjórastarfinu tímabundið, hefur verið settur í það tímabundið af hæstv. ráðherra. Það er starfsmaður sem ég réð í ráðuneytið á sínum tíma og ég get vottað að á þeim tíma stóð sig vel í starfi og ég hef ekki orðið var við að þar hafi orðið einhver breyting á. Það á heldur ekkert skylt við það. Hér er um að ræða spurningu um eðlileg mannleg samskipti að mér sýnist og ég vil að það komi fram af minni hálfu að ég harma það að svona er að verki staðið eins og virðist vera miðað við það sem fram hefur komið í málinu.