Frestun á fundum Alþingis

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 22:49:24 (2707)

1996-12-20 22:49:24# 121. lþ. 54.9 fundur 261. mál: #A frestun á fundum Alþingis# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[22:49]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin og skýringarnar. Tilgangur minn með athugasemdinni var sá að fá svörin og skýringarnar fram því að mér finnst að það þurfi að skýra tillögu af þessu tagi. Hún er svo óvenjuleg og hléið svo langt miðað við það sem tíðkast hefur hér. Það er síðan auðvitað þingsins að meta hvort það fellst á þá ósk að hafa þetta langan tíma frá venjulegum störfum þingsins. Ég heyrði á hæstv. forsrh. að hann taldi að þetta væri heppilegt, m.a. með hliðsjón af störfum ríkisstjórnarinnar. Það kann svo vel að vera og ég hef engar athugasemdir við það að gera á þessu stigi málsins, en ég taldi nauðsynlegt að skýringarnar kæmu fram.