Álver á Grundartanga

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 15:07:37 (2782)

1997-01-28 15:07:37# 121. lþ. 56.95 fundur 160#B álver á Grundartanga# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[15:07]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður talaði um víðtæka samstöðu um þá stefnu sem núverandi ríkisstjórn fylgir og hjáróma raddir einar hefðu heyrst sem efuðust um að þar væri rétt stefna við hún. Sennilega er átt m.a. við þann sem hér talar og okkur talsmenn Alþb. og Kvennalistans sem höfum á mörgum undanförnum árum varað sterklega við þeirri mjög einhliða áherslu á uppbyggingu orkufreks iðnaðar á kostnað annarra atvinnugreina og án þess að taka tillit til þeirra mörgu þátta sem ber. Alþb. varð fyrst íslenskra stjórnmálaflokka til að móta samræmda stefnu til stóriðjuuppbyggingar og nýtingar orkulinda landsins. Það var gert þegar á árinu 1976. Við höfum lagt áherslu á að menn færu sér hægt í þessum efnum, menn tækju tillit til annarrar atvinnustarfsemi og svigrúms þjóðarbúsins, menn vönduðu undirbúning sem mest, menn tryggðu ýtrustu mengunarvarnir og einnig hófsemi í sambandi við virkjanir, menn gættu byggðasjónarmiða og vernduðu ímynd landsins. Stefna ríkisstjórnarinnar gengur gegn öllum þessum markmiðum. Þar er stefnt í kollsteypu með áformuðum framkvæmdum. Framkvæmdapakki upp á 38 þús. millj. kr. liggur fyrir aðeins á þessu og næsta ári. Reynt er að fá útlendinga til að fjárfesta í fleiri og enn stærri iðjuverum á næstunni og beitan sem notuð er er lágt orkuverð og afsláttur frá mengunarvörnum. Öllu er síðan hlaðið á eitt landshorn, þessum stóru framkvæmdum með þeim gífurlegu áhrifum sem það mun hafa á byggðaþróun í landinu.

Síðan varðandi undirbúninginn að álbræðslu á Grundartanga. Sá undirbúningur leiðir vissulega í ljós marga vankanta á gildandi kerfi, lögum og reglum og kynningu mála gagnvart almenningi. Auglýsingar ná ekki til almennings sem skyldi og þröng túlkun er á því hverjir eru taldir hagsmunaaðilar. Það er brýnt að breyta lögum um mat á umhverfisáhrifum, sérstaklega þannig að óháður úrskurðaraðili fjalli um kærur í stað umhvrh.

Í niðurstöðu sinni vegna mats á umhverfisáhrifum ógilti umhvrh. úrskurð skipulagsstjóra ríkisins í flestum atriðum, en embætti hans hefur með höndum úrvinnslu þessara mála. Í stað þess að líta heildstætt á framkvæmdir vegna álbræðslunnar var rofið allt samhengi milli verksmiðju, efnistöku, raflína og virkjana. Þetta gengur í senn gegn heilbrigðri skynsemi og anda laganna. Segja má að ráðherra hafi með úrskurði sínum niðurlægt embætti skipulagsstjóra og allt það ferli um mat á umhverfisáhrifum eins og þau eru í lögunum. Hæstv. ráðherra leyfði sér áðan að orða það á þá leið að allt væri eðlilegt í sambandi við þetta að það þurfi ekki að orðlengja það. Hver vill ekki orðlengja það? Það er sjálfur hæstv. ráðherra sem tekur ákvörðunina og slær niður mat skipulagsstjóra samkvæmt lögunum. Þá um starfsleyfi til álbræðslunnar sem nú er í vinnslu og tillögur Hollustuverndar þar að lútandi. Aðeins nokkrar staðreyndir nefndar.

Álbræðslan stenst ekki mælikvarðann um bestu fáanlegu tækni, m.a. varðandi losunarmörk. Heimiluð losun á flúor er a.m.k. 50% hærri en auðvelt er að ná og gildir um nýjar álbræðslur í Noregi og Svíþjóð. Engin hreinsun er á brennisteinssamböndum sem er heimiluð tífalt hærri samkvæmt tillögunum en gerist á Norðurlöndum. Stjórnvöld skáka í því skjóli að hafa ekki viljað gerast aðilar að alþjóðasamningum um að draga úr losun brennisteinssambanda. Gert er ráð fyrir að mati Hollustuverndar ríkisins að rykmengun frá álbræðslu á Grundartanga verði langtum meiri en frá álbræðslunni í Straumsvík. Vatnsöflun til álbræðslu á Grundartanga hefur ekki verið tryggð, mér vitanlega, hvorki til fyrsta áfanga, hvað þá til 180 þús. tonna álbræðslu. Hávaðamengun og sjónmengun eru stórir þættir sem ekki hafa fengið þá athygli sem ber á undirbúningsstigi.

Einn ljótasti þátturinn, herra forseti, í þessu máli og stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar varðar hins vegar túlkun og viðhorf til rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Ríkisstjórn landsins hefur að fengnu samþykki Alþingis staðfest þennan samning sem hefur þjóðréttarlegt gildi. Samt ætlar ríkisstjórnin að láta ákvæði hans sem vind um eyru þjóta. Á fundi þingsins hefur verið dreift ljósriti af skriflegu svari umhvrh. við fyrirspurn minni frá því í desember um losun gróðurhúsalofttegunda. Það sem þar kemur fram segir meira en mörg orð í hvert óefni stefnir. Lítið á bls. 3 og 4 í svari hæstv. umhvrh. ef stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga. Viðbótin frá fjórum verksmiðjum, sem nú er stefnt að af hálfu iðnrn., mundi meira en tvöfalda heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi en án tilkomu þeirra er áætlað að hún verði árið 2000 rúmlega 3 millj. tonna. Viðbótin frá verksmiðjunum fjórum, og fleiri hugmyndir eru uppi, yrði hins vegar samtals 3,7 millj. tonna af gróðurhúsalofttegundum, mun meira en tvöföldun. Eru menn með réttu ráði?

Þó ekki kæmi til álbræðsla á Grundartanga eða stækkun járnblendiverksmiðjunnar stefnir að því að Ísland keyri langt fram úr skilmálum þessa rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, hvað þá ef þessi stóriðjuver yrðu staðreynd. Ríkisstjórnin vísar í fjármagn til landgræðslu og skógræktar. Ef beita ætti þeirri aðferð til að vinna upp það sem tapast varðandi loftslagsbreytingar með tilkomu álbræðslu á Grundartanga þyrftu 6--7 milljarðar kr. að koma til til ræktunar. Nú er unnið að því á alþjóðavettvangi að ná saman um gerð lagalega skuldbindandi samnings um þessi efni til þess að lækka losun gróðurhúsalofttegunda um sem nemur 50%. Ríkisstjórn Íslands er með réttu að reyna að fá lagalega skuldbindandi alþjóðasamning gegn losun þrávirkra lífrænna efna í hafið og að reyna að ná samkomulagi gegn losun geislavirkra efna. Ég tek undir spurningar hv. frummælanda um þessi mál og spyr: Hvað veldur því að verið er að miða gildistíma starfsleyfis við tíu ár en ekki t.d. fimm ár, sem eðlilegt væri að fenginni fyrstu reynslu?

Ég segi að lokum, virðulegi forseti: Sú vakning og það frumkvæði sem komið hefur frá fólki í sveitunum við Hvalfjörð og er að vekja stjórnmálamenn til vitundar um hvað málið snýst, hvað hér er í húfi, er mikið fagnaðarefni. Ég tel að ríkisstjórnin ætti að taka áformin um álbræðslu á Grundartanga til endurskoðunar í heild áður en stefnt er í meira óefni.