Breytingar umhverfisráðherra á reglugerð um mengunarvarnir

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 16:54:22 (2803)

1997-01-28 16:54:22# 121. lþ. 56.96 fundur 161#B breytingar umhverfisráðherra á reglugerð um mengunarvarnir# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[16:54]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Þetta mál þarf auðvitað að athuga alveg sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu sem fór hér fram 11. desember. Að því leyti er þetta mál nánast einstakt. Ég vil nefna það að það er stjórn Hollustuverndar ríkisins sem í raun kemst að sömu niðurstöðu og ég hélt fram um þetta efni og til þess að hæstv. ráðherra næði áttum í málinu þurfti það að koma til.

Ég spurði hæstv. ráðherra hvaða afleiðingar þetta mál og endurútgáfa reglugerðar á morgun eða hinn daginn hafi á vinnuferli um það starfsleyfi fyrir álbræðslu á Grundartanga sem nú er í gangi. Mér fannst svörin ekki rökræn að svo miklu leyti sem svarað var. Er ekki eðlilegt, hæstv. ráðherra, og ég spyr um það í fyllstu alvöru, að endurútgefa þessa auglýsingu um tillögur að starfsleyfi? Ég er ekki að segja að menn þurfi að senda athugasemdir inn á nýjan leik, en í auglýsingu og í drögum að starfsleyfi var ítrekað vitnað í þá reglugerð sem nú er dregin til baka og mönnum verði gefið færi á því sem vilja koma að athugasemdum í ljósi þessa.

Í öðru lagi vil ég ítreka þá spurningu mína: Er ekki dagljóst að hæstv. ráðherra getur ekki hlutast til um mál sem úrskurðarnefndin kemst að niðurstöðu um þegar hann gefur út endanlegt starfsleyfi, ef til kemur í þessu tilviki sem og öðrum sem síðar koma? Ég held að hæstv. ráðherra verði að vanda sig í þessu efni og líta á hvernig stjórnsýslulögin hafa verið túlkuð að því er varðar sérstakar úrskurðarnefndir sem koma að kærumálum eins og hér er um að ræða. Það er nú nóg að verið í þessu efni að því er snertir álbræðslurnar bæði í Straumsvík og á Grundartanga.

Ég fagna, herra forseti, þeim undirtektum sem fram hafa komið við það sjónarmið mitt að umhvn. þingsins taki málið til sérstakrar skoðunar í ljósi þess sem gerst hefur. Ég held að þingið þurfi að læra af þessu í miklu víðara samhengi varðandi útgáfu reglugerða sem ættu auðvitað að jafnaði að fylgja með þegar lagafrumvörp, meiri háttar frumvörp eru sett hér fram en sem skortir yfirleitt á að gert sé, þó að dæmi séu um hið gagnstæða. Ég tel, virðulegur forseti, að þessu máli sé langt frá því að vera lokið. Það er alveg ljóst að þeim sem gert hafa athugasemdir við álbræðslu á Grundartanga, við starfsleyfistillögur, gefst nú tækifæri til þess ef þeir sætta sig ekki við niðurstöðu Hollustuverndar að leita til úrskurðarnefndar með sín mál.