Upplýsinga- og fræðslumiðstöð háskólastigsins á Austurlandi

Þriðjudaginn 28. janúar 1997, kl. 17:46:21 (2812)

1997-01-28 17:46:21# 121. lþ. 56.6 fundur 192. mál: #A upplýsinga- og fræðslumiðstöð háskólastigsins á Austurlandi# þál., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[17:46]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka umræðuna sem hér hefur orðið um þessa tillögu. Ég þakka hæstv. menntmrh. og hv. 19. þm. Reykv. fyrir þeirra innlegg í þessa umræðu. Mér þykir mjög gott að heyra að hæstv. ráðherra leggur þessari hugmynd gott lið þegar málið kemur hér á dagskrá, átti raunar ekki von á öðru. Mér fannst ýmislegt af því sem fram kom í máli hæstv. ráðherra réttmætt og athyglisvert og fagna því að væntanleg er löggjöf um háskólastigið. Ég hef raunar lengi litið svo til að mikil þörf væri á slíkri löggjöf. Ég hef nú síðari ár ekki verið í menntmn. þingsins, sem ég átti sæti í með núverandi hæstv. menntmrh. um skeið, þar sem m.a. var fjallað um Háskólann á Akureyri og eflingu hans svo það sé nú nefnt hér.

Ég ítreka það sjónarmið sem ég kom með vegna þess að menn eru að velta fyrir sér kostnaði, sem eðlilegt er þegar svona mál koma upp, að ég held að þetta þurfi ekki að kosta stórfé til að gera verulegt gagn. Hæstv. ráðherra vék að því að ekki ætti að þurfa að vera um að ræða fjárfestingar í steinsteypu í miklum mæli í kringum hugmyndir af þessu tagi. Það er mér ekki í huga. Þetta er ekki skólastofnun sem hér er verið að hugsa til. Framkvæmdin getur farið fram á stöðum og stofnunum og í húsnæði sem fyrir er. Þetta er aðallega sem tengi- og skipulagningarmiðstöð. Ég held hins vegar að það þurfi að vera þarna kraftar til þess að gera þetta að veruleika, hversu margir vil ég ekki leggja neitt mat á. Ég held að þeir þurfi ekki að vera margir, a.m.k. ekki í upphafi og vafalaust ekki eftir því sem menn og stofnanir búa betur af þeim fjarskiptabúnaði sem tæknin nú veitir okkur aðgang að. Svoleiðis að mér finnst að hugsunin í kringum þetta falli mjög saman, eins og undirtektir voru hjá þeim báðum, hæstv. ráðherra og hv. 19. þm. Reykv., sem hér töluðu.

Mér þótti athyglisvert það sem hæstv. ráðherra nefndi í sambandi við atvinnulífið á Austurlandi og almennt úti um byggðir landsins þar sem sjávarútvegur er undirstaða. Ég er þeirrar skoðunar að vöntun á menntun hjá þeim aðilum sem að sjávarútvegi koma og þróun hans sé veruleg hindrun í vegi þeirrar þróunar sem þarf að verða til að auka verðmæti okkar ágæta sjávarafla verulega og auka bæði sjálfsvitund og metnað þeirra sem starfa í greininni og að það sé eitt það allra brýnasta hér. Við þurfum á því að halda að þessar afurðir þróist og verði nær neytendastiginu heldur en tekist hefur. Ég hef oft vísað til þess --- er reyndar enginn höfundur að því --- hvað tekist hefur í mjólkuriðnaði landsmanna, úrvinnsluiðnaði með ostagerð sem ágætt dæmi. En þar er að verki fólk sem býr yfir þekkingu og hefur notið þjálfunar, sumpart erlendis, og hefur síðan gert að verkuleika drauma sem, ég efast um að Nóbelsskáldið okkar, Halldór Laxnes, sem skrifaði ágætar greinar milli stríðsáranna, mig minnir um frumstæði íslenskrar landbúnaðarframleiðslu og alveg sérstaklega ostagerðar, hefði tæpast dreymt um að hægt væri að ná þessum árangri á meðan hann enn lifði. En þetta tel ég að sé í rauninni ástæða til að gefa gaum að. Það eru engin örlög Íslendinga að vera í frumvinnslu og komast ekki meira úr sporum í úrvinnslu okkar sjávarafla og hráefnis á því sviði. Auðvitað á þetta við almennt og í víðara samhengi. Tölurnar sem hæstv. ráðherra nefndi eru vissulega sláandi og til umhugsunar.

Vegna þess að hæstv. ráðherra kom að almenningsbókasöfnum í þessu sambandi vil ég leyfa mér, þótt ég setti mig ekki sérstaklega inn í það frv. sem hér var mælt fyrir áður og tók ekki þátt í umræðu um það, að taka undir þá hugsun, sem var ítrekuð í tengslum við möguleikana á að byggja upp almenningssöfnin og vel að merkja auðvitað í annarri og fjölbreyttari mynd heldur en við höfum tengt við bókasöfn fram að þessu, sem eru þegar farin að þróast í þá átt að búa yfir tækni af öðrum toga, að þarna eru miklir möguleikar.

Ég fékk eiginlega sýn til þessara mála fyrir allnokkru síðan. Árið 1973 heimilaði menntmrn. þeim sem hér talar og tveimur arkitektum að fara í eins konar námsferð eða leiðangur til Bandaríkja Norður-Ameríku til að kynna sér uppbyggingu skóla þar. Ástæðan var Menntaskólinn á Egilsstöðum. Ég var settur til að leiða byggingarnefnd hans á þessu nefnda ári og starfaði að því þangað til ég kom inn á Alþingi. Sá heimur sem opnaðist manni við að fara á milli skóla, ekki bara háskóla, en raunar háskóla, framhaldsskóla og grunnskóla í Massachusetts-fylki í Bandaríkjunum. Það var nýr heimur sem vísaði í þá hluti sem hér eru að komast aðeins úr sporunum. Þetta varð til þess að hugmyndir voru lagðar fram í umræddri nefnd. Við gáfum reyndar út skýrslu um þessa ferð, og mundi hæstv. menntmrh. segja að það hafi ekki verið sú fyrsta eða eina sem fram hafi komið frá undirrituðum, þar sem þessir hlutir voru raktir. Síðan voru mótaðar tillögur um að það yrði reynt að koma upp svona gagnasafni, tengdu Menntaskólanum á Egilsstöðum, ekki aðeins bókasafni skólans heldur gagnasafni með allri þeirri tækni sem unnt væri að ná til og tengja almenningsbókasafn héraðsins þessu og opna þar með skólann fyrir almenningi sem ætti erindi á gagnasafn eða bókasafn, opna þannig skólann og sýn til hans og draga niður þá múra sem oft eru á milli almennings og skólastofnana. Þetta var samþykkt innan nefndarinnar en einnig af stjórn héraðsbókasafns á svæðinu sem var viljugt til þess arna. En því miður stirðnuðu þessar hugmyndir eða gufuðu upp framkvæmdalega séð þegar til kastanna kom, ég var reyndar kominn þá til annarra verka.

En þetta er hugsun sem ég held að ætti heima sem víðast enda vikið að því beint í því 4. gr. frv. sem hæstv. ráðherra nefndi, um heimild til að, svo ég leyfi mér að nefna það í tengslum við þetta mál, stofna til samningsbundins rekstrar- og þjónustusamstarfs milli almenningsbókasafns og bókasafns við skóla, framhaldsskóla eða á háskólastigi þar sem slík tilhögun telst henta vegna sérstakra aðstæðna.

Við erum á réttri leið hér, sýnist mér, í þessum hugmyndum og það er rétt sem hv. 19. þm. Reykv. sagði að fjármagnið er af allt of skornum skammti. Manni finnst þegar verið er að velta fyrir sér stóru tölunum í sambandi við þau mál, m.a. sem voru til umræðu fyrr á þessum fundi, að það mætti skoða betur aðra þróunarkosti en þá sem mest fjármagn er ætlað að streyma til á næstu árum og hvort þar er ekki nokkuð að sækja, sem sagt aukna menntun þjóðarinnar sem undirstöðu fyrir atvinnustarfsemi og náttúrlega velferð almennt í landinu því ekkert er betra neinum manni heldur en það að víkka sjónhring sinn, hvort sem það er með sjálfsnámi eða með námi sem tengist skólastofnunum af hvaða tagi sem er. Þarna þurfum við í rauninni að bæta stöðu okkar mjög verulega. Það er verið að minna okkur á þetta með alls konar samanburði og ekki ætla ég að draga það í efa að margt sé réttmætt sem kemur út úr slíkum athugunum. En það er þó grundvallarskilningurinn sem mestu skiptir í þessum efnum, að menn virkilega finni þörfina og hafi metnað til að rækta eigin garð á þessu sviði og dýpka þar með og plægja akurinn fyrir íslenskri menningu sem er það sem mestu skiptir að fái haldið hér velli og fái dafnað og þróast með öðrum og öflugri hætti en nú er í þessum ólgusjó fjölþjóðamenningar sem upptekur fólk. Ekki ætla ég að hafa á móti þeim tengslum út af fyrir sig en þau verða aldrei dýrmæt og menn nýta þau aldrei til hlítar nema þeir standi sæmilega traustum fótum í eigin þjóðmenningu.