Hættuleg eggvopn

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 14:20:18 (3119)

1997-02-05 14:20:18# 121. lþ. 62.4 fundur 187. mál: #A hættuleg eggvopn# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur

[14:20]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir greinargóð svör við fyrirspurn minni. Mér er nokkuð rórra eftir að heyra það frá hæstv. ráðherra að þetta mál hafi verið til endurskoðunar, reglur um þetta efni og lög, og væntanlega kemur þá inn í þingið nýtt lagafrv. með mjög hertum ákvæðum um þessi efni. Ég get í rauninni hér og nú tekið undir mikið af því sem fram kom um þessi efni, um nauðsyn þess að tryggja skýrar lagaheimildir til þess að banna burð slíkra vopna og vörslu vopna eða hnífa, eggvopna sem óeðlilegt er að menn hafi undir höndum. Það er ljóst að það verður skammt komist nema slíkar heimildir verði einnig til staðar í lögum.

Auðvitað er mér ljóst að hér er um viðkvæmt efni að ræða að því er varðar mörk milli þess sem eðlilegt getur talist, eggvopn af ýmsu tagi eru til heimilisnota eins og þekkt er þannig að auðvitað eru ýmis álitaefni fyrir löggjafann í þessu máli. En hér hefur orðið alger stökkbreyting í rauninni í meðferð eggvopna á undanförnum fáum árum eins og fréttir bera með sér og yfirlitið frá lögreglunni í Reykjavík sem vel að merkja tekur aðeins til löggæslusvæðis lögreglunnar í Reykjavík því að um annað liggja ekki fyrir gögn á tölvutæku formi þannig að hægt sé að safna þeim. Raunar er könnunin sem ég fékk í hendur unnin handvirkt og má því gera ráð fyrir því, eins og hér segir, að ekki komi öll mál fram svo að þau ættu að hafa skilað sér, þ.e. varðandi landskerfið. Það er mjög nauðsynlegt að þessi mál verði rækilega kynnt, bæði gildandi reglur auðvitað og síðan þær reglur sem lögleiddar kunna að verða og settar á grundvelli nýrra laga því að á það hefur mjög skort samanber þá fákunnáttu sem ég stóð sjálfan mig að þegar ég var að efna í þessa fyrirspurn. Ég gerði mér þá ekki grein fyrir að þarna væri að finna þau lagaákvæði sem þó eru til staðar í íslenskri löggjöf um þetta efni.