Afgreiðsla frumvarps um Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 14:22:41 (3299)

1997-02-11 14:22:41# 121. lþ. 66.96 fundur 183#B afgreiðsla frumvarps um Landsvirkjun# (um fundarstjórn), HG
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[14:22]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Hér lá þingmönnum eðlilega mikið á hjarta í sambandi við afgreiðslu þessa máls og mjög margir notuðu rétt sinn til atkvæðaskýringa. Það er afar eðlilegt. En mér hefur, virðulegur forseti, oft verið hugsað til þess að svo virðist sem þingsköp séu túlkuð þannig að menn geti brugðist við í atkvæðaskýringum hver við annars afstöðu. Menn eru að biðja um orðið varðandi atkvæðaskýringar þegar kannski tíu eru búnir að gera grein fyrir atkvæði sínu, þá dettur einum hv. þm. í hug að hann þurfi nú að svara fyrir sig út frá því sem fram kemur í atkvæðaskýringu. Þetta hefur gerst allítrekað en mér finnst í rauninni að kominn sé tími til að menn staldri við í sambandi við þessa túlkun á þingsköpum.

Þegar þingsköpin voru endurskoðuð 1991 var um þetta rætt í forsætisnefnd sem ég átti sæti í og hvernig með skyldi fara í sambandi við atkvæðaskýringar sem þá voru til endurnýjaðrar umræðu að því er þingsköpin varðaði. Það var sammæli manna í forsætisnefnd þingsins þá að menn hlytu að biðja um að flytja atkvæðaskýringu þegar tilkynnt væri að gengið yrði til atkvæða um viðkomandi grein þannig að ekki upphæfust almennar umræður þar sem menn væru að svara hver öðrum í atkvæðaskýringu. Mér finnst þetta ekki ganga upp og ég hef hvergi á ráðstefnu eða þingum, þar sem menn hafa rétt til atkvæðaskýringa, reynt það að þannig væri með farið eða þessi háttur viðhafður.

Ég vil biðja hæstv. forseta að íhuga þetta mál í tilefni þess sem hér fór fram. Einnig má finna dæmi í mörgum tilvikum á þessu þingi sem ég hef tekið eftir og hef ég raunar setið á mér að koma ábendingum og mínum sjónarmiðum hvað þetta snertir á framfæri þar til nú. Ég hef hins vegar gert það fyrr á þingum og get vísað til þess. Er þá þarflaust af minni hálfu að hafa fleiri orð uppi um þetta en þetta var mjög áberandi í þeim atkvæðaskýringum sem fóru fram áðan.