Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 17:27:57 (3321)

1997-02-11 17:27:57# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[17:27]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Framsfl. og talsmenn hans hér á þingi eru nokkuð samir við sig þegar kemur að málflutningi og vörn af hálfu þeirra fulltrúa í þessu máli. Ég var nokkuð undrandi þegar hv. formaður iðnn. greip til þess ráðs í dag að fara að tíunda það hér úr ræðustól sem réttlætingu fyrir sínum málflutningi og tillögum að tilteknir menn hafi setið í ríkisstjórn árið 1979 þegar arður hafi fyrst verið greiddur til Landsvirkjunar. Þetta átti svo sem ekki að koma mér á óvart því að þetta er framsóknarlegt athæfi. Það er einmitt þannig sem þessi flokkur og fulltrúar hans hér á þingi ganga til verka, alveg sérstaklega þegar þeir koma út í kjördæmin og eru að lauma ósannindunum að fólki þar til þess að verja aðgerðir sínar af þeim toga sem hér um ræðir.

Ég held að hv. þm. Stefán Guðmundsson hefði átt að skoða þetta mál ögn betur áður en hann gekk fram með þessum hætti. 1979 sat ekki bara ein ríkisstjórn. 1979 sátu að völdum á Íslandi tvær ríkisstjórnir. Það voru stjórnarskipti þann 15. okt. 1979. Þann 12. des. 1979 ritar Landsvirkjun til borgarstjóra og ráðuneytisstjóra iðnrn. og rekur fyrir honum tillögur sem samþykktar hafa verið í stjórninni. Hvenær? Virðulegur forseti. Það er samþykkt í stjórninni 23. nóv. 1979, orðrétt: ,,Jafnframt samþykkti stjórnin að ekki komi til greina að greiða arð þegar um taprekstur væri að ræða, svo sem vegna 1978 en tapið nam 597 millj. kr. og 1979 er tapið verður fyrirsjáanlega um 1.000 millj. kr. Niðurstaða stjórnarinnar var sú að miða arðgreiðslurnar í þetta sinn við 3% af endurmetnum höfuðstólsframlögum og er þá tekið tillit til hinnar erfiðu fjárhagsstöðu Landsvirkjunar auk þess sem ekki var talið eðlilegt að ganga lengra en þetta í upphafi arðgreiðslna. Var þess vænst að eigendur gætu eftir atvikum fellt sig við þessa niðurstöðu.`` (Forseti hringir.)

Með hliðsjón af framansögðu yrðu arðgreiðslur vegna 1977 og 1978 þessar til hvors eiganda. Vegna þessara ára 1977 og 1978 var þessi afgreiðsla ákveðin á stjórnarfundi Landsvirkjunar í nóvember og tilkynnt með bréfi til iðnrn. þann 12. desember. (Forseti hringir.) Ég held að hv. þm. Stefán Guðmundsson ætti að koma upp í þennan ræðustól og biðjast afsökunar á málflutningi sínum og útúrsnúningi og athuga sinn gang áður en hann kemur með slík (Forseti hringir.) ósannindi hér til réttlætingar á gjörðum sínum.

(Forseti (GÁS): Forseti vill geta þess að tími til andsvara eru tvær mínútur.)