Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 17:32:21 (3323)

1997-02-11 17:32:21# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[17:32]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er aldeilis þykk höfuðskelin á hv. þm. Hv. þm. skilur ekki það sem hér er verið að segja. Það er að stjórn Landsvirkjunar tekur ákvörðun um þetta efni 23. nóv. 1979. Hver var þá ráðherra iðnaðarmála, hv. þm.? Hét hann Hjörleifur Guttormsson? Nei, hann hét það ekki, hann hét Bragi Sigurjónsson og sat sem ráðherra iðnaðarmála í minnihlutastjórn Alþfl. er tók við 15. okt. 1979. Ef hv. þm. hefur ekki skilið þetta, þá er erfitt að hjálpa honum. Ég var að ætlast til þess að hv. þm. kæmi hér upp og bæði afsökunar á málflutningi sínum, afsökunar á þessum málflutningi. Alþb. sat ekki í ríkisstjórn þegar þessi ákvörðun var tekin um arðgreiðslu vegna 1977--1978, en það vill svo til að þessar ákvarðanir eru teknar í tengslum við arðgreiðslu á árinu 1979. Þær eru teknar þá. Hvers konar málflutningur er það sem hér er hafður uppi?

Ég sé að hæstv. iðnrh. er kominn til stuðnings við vin sinn og það er ekkert skrýtið. Ætli hann hafi ekki matað hann á þessu?