Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 21:32:47 (3348)

1997-02-11 21:32:47# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[21:32]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er kristaltært að hæstv. iðnrh. ætlar þeim sem eru við völd í landinu og ráða málum Landsvirkjunar upp úr aldamótum að standa við stefnu sem hann ásamt meiri hlutanum á Alþingi felldi í dag við 2. umr. málsins. Það er alveg kristaltært. Það er staðan í þessu mál. Það þarf ekki að setja sig í kennarastellingar til þess að segja hver sé munur á arðgjafarmarkmiðum og arðgreiðslum sem slíkum. Það liggur auðvitað í augum uppi. Um það snýst ekki málið, heldur: Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að tryggja framgang máls sem fellt var af meiri hlutanum á þinginu í dag? Nú kom það fram í máli hæstv. ráðherra --- ég bið hæstv. ráðherra um að leggja við hlustir ef hann má vera að --- að 80 milljónirnar sem heimild er til að greiða samkvæmt 6. gr. fjárlaga séu það fé sem um er rætt í sambandi við greiðslur af arði Landsvirkjunar. Það stóð ekki í þeirri heimildargrein. En nú hefur það verið upplýst af hæstv. ráðherra að það er féð, það er silfur Egils sem á að sáldra út eftir formerkjum forustu Framsfl.