Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 21:36:47 (3350)

1997-02-11 21:36:47# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[21:36]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hafa menn séð þingmann hörfa úr vígi með líkt og hv. þm. Stefán Guðmundsson gerði hér og nú? Minnast menn orða hv. þm. þegar hann gaf atkvæðaskýringu sína hér í dag, að það væru ráðherrar Alþb. sem hefðu borið ábyrgð á því þegar fyrst var greiddur arður frá Landsvirkjun? Hv. þm. hefur ekki þor að því er virðist til þess að biðja afsökunar úr þessum ræðustól á rangfærslum sínum, ósannindum í þessu efni, virðulegur forseti, miðað við það sem fyrir liggur, heldur kemur hér upp og segir: ,,Ja, það var byrjað að ræða um arðgreiðslur í janúar 1979.`` Ákvörðun um þetta er tekin í iðnaðarráðherratíð Braga Sigurjónssonar í nóvember 1979. Þá eru ákvarðanir teknar. Rétt segir þingmaðurinn. Af hverju biður hann ekki afsökunar á þeim orðum sínum sem hann er búinn að tvítaka í þinginu í dag? Næst er greiddur arður --- hvenær er það? --- 1985 segir þingmaðurinn. Er þetta framganga? Ég get ekki ímyndað mér að það verði klappað í Skagafirði fyrir málflutningi sem þessum. Ég get ekki ímyndað mér það. Og 10% hækkunin, hún er þarna. Lækkunin, hvernig greiddi hv. þm. atkvæði í dag þegar breytingartillaga lá fyrir um að lögfesta það sem menn eru að tala um í orði að leggja á þá sem ráða ráðum í landinu og ráða málum Landsvirkjunar upp úr aldamótum? Hér er karlmannlega að verki staðið eða hitt þó heldur. Þá skuli raforkuverðið lækka. Nei, ég held að það verði að fara aðeins að endurmeta lífshlaup og sögu hv. þm. Stefáns Guðmundssonar, virðulegur forseti, ef hv. þm. hefur ekki fyrir því að hafa það sem sannara reynist.