Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 21:41:07 (3352)

1997-02-11 21:41:07# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[21:41]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ætli margir þeir sem á okkur hlýða í þinginu mundu nú ekki taka undir að það hefði verið skynsamlegt að láta líða einhvern tíma á milli umræðna um þetta mál til þess að menn stæðu ekki hér --- virðulegur forseti, ég vil nú helst ekki taka upp samlíkingu við dýraríkið, ég skal sleppa því --- og ræddu málin eins og hér er gert af þeim sem bera ábyrgð á málinu. Þeir eru hér með lausar tilvitnanir í fólk utan þings og eru að túlka mál og sjónarmið þeirra sem eru aðilar sem hafa staðið að ,,sammæli``, svo notað sé orðalag bókunarinnar, sammæli um þetta mál. Borgarstjórinn í Reykjavík sagði í sjónvarpinu í kvöld að bókunin breytti sáralitlu og talsmaður minni hluta í borgarstjórn, Vilhjálmur Vilhjálmsson, sagði efnislega á þá leið að hún virtist helst til þess fallin að hugga einhverja alþingismenn.

En, virðulegur forseti, það sem hér hefur skýrst er í sambandi við silfur Egils, silfur Framsfl. sem á að vera sárabótin til að vega upp á móti þeim sárindum og hneykslan sem er í hugum manna út af þessari málafylgju sem hér er staðið fyrir, þ.e. heimild til að greiða 80 millj. kr. einhverjum, eftir formúlum sem hæstv. iðnrh. á að móta. Það á að vera það sem bætir fyrir þann gjörning sem hér á að lögleiða í kvöld. Mér hafði ekki dottið í hug að svo illa væri komið að huggunin sem átti að vera vegna stóriðjumannvirkjanna tengdist þessu máli og afgreiðslu þess. En það er svo.