Stofnun Vilhjálms Stefánssonar

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 17:10:35 (3867)

1997-02-24 17:10:35# 121. lþ. 76.14 fundur 364. mál: #A stofnun Vilhjálms Stefánssonar# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[17:10]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. umhvrh. og ríkisstjórn fyrir að leggja fram þetta frv. um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. Það er ánægjuefni að þetta mál skuli vera komið í þennan búning sem það hér liggur fyrir, í búning sem mér sýnist að sé í öllum aðalatriðum prýðilega sniðinn að þeim hugmyndum sem lágu til grundvallar þegar um þetta mál var fjallað á undirbúningsstigi á Alþingi og samþykkt var þáltill. um þetta efni.

Það má vissulega lengi bæta og væntanlega verður svo með þessa stofnun eins og aðrar góðar stofnanir að hún á eftir að taka breytingum, vaxa og dafna og þróast. Ég óttast ekki að það verði skortur á viðfangsefnum eins og raunar má þegar heyra í umræðum um frv. þar sem nokkrir hv. þm. hafa bent á að jafnvel þurfi að leita víðar heldur en fjallað er um og beinar tillögur eru gerðar um. Ég sé þó ekki að í frv. séu neinar takmarkanir settar þannig að þetta ætti að gera farið prýðilega saman, þ.e. þær ábendingar sem hér er vitnað til og sá möguleiki sem væntanleg lög festa, að hægt sé að þróa þessa stofnun og hún geti bætt við sig þáttum eftir því sem ástæða virðist til.

Það var mikið ánægjuefni þegar um það tókst samstaða bæði í umhvn. þingsins veturinn 1994--1995 og í þinginu sjálfu að afgreiða mál rétt fyrir lok fyrra kjörtímabils. Og á morgun eru tvö ár liðin frá því að samþykktin var gerð, þáltill. var samþykkt hér á Alþingi um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri. Hún var samþykkt 25. febrúar 1995. Við stöndum því hér nánast á afmælisári, tveggja ára afmæli þessarar samþykktar þingsins sem er að renna upp á morgun. Og fyrir mig, sem átti hlut að því að færa þetta mál inn í þingið er það auðvitað mjög mikið ánægjuefni að þessi hugmynd skyldi fá þá vængi sem hafa borið málið þetta langt, og eins og hæstv. ráðherra nefndi, í rauninni flogið á móti straumi tímans að vissu leyti, þ.e. að það er ekki mikið um það að menn efni til nýrra þátta í starfsemi hins opinbera nú um stundir. Mér finnst að það sanni okkur að hér sé á ferðinni góð hugmynd sem verðskuldi brautargengi og eigi eftir að verða Íslandi og norðurslóðum og því samstarfi sem á sér stað um norðurslóðir, til framdráttar og vegsauka þegar tímar líða fram.

[17:15]

Ég hlýt að minnast þess að hugmyndin um þessa stofnun eða þörfina á að við Íslendingar næðum að samræma okkar málefni að því er varðar norðurslóðir varð til í ferðalagi til Svalbarða sem ég var þátttakandi í. Þangað er eftir gamalli sögn fjögurra dægra sigling frá Íslandi sem er nú vel í lagt, í fornum sögum. Þetta var mjög eftirminnilegt ferðalag sem ég fór í með efnahagsnefnd Norðurlandaráðs í júní 1993 og komst þá norðar en ég hef stigið fæti fyrr og síðar, norður á 79° norðurbreiddar, í einmitt alþjóðlega rannsóknastöð sem rekin er af Norsk Polarinstitutt með þátttöku fjölmargra annarra rannsóknastofnana í Nýja-Álasundi á Svalbarða. Það má segja að kynnin af þeirri starfsemi sem þar fór fram hafi leitt hugann að þörfinni fyrir að við Íslendingar mörkuðum okkur skýrari stefnu í sambandi við norðurmálefni og rannsóknir á því sviði. Auk þess hafði ég kynnt mér þá þegar nokkuð málefni Norsk Polarinstitutt og gerði það þá enn frekar.

Það var vissulega með hálfum huga en þó nokkurri bjartsýni að ég fór norður til Akureyrar rétt fyrir jólin 1993 til að ræða þessa hugmynd við heimamenn, talsmenn Háskólans á Akureyri og fleiri, sem settust niður í morgunsár til að fara yfir málið áður en það var flutt inn í þingið. Ég fann að það var mikill hljómgrunnur fyrir þessu verkefni þar norður frá sem var alveg nýtt fyrir mönnum að heyra um. Mér fannst það þá þegar nokkuð sjálfsagt að velja svona stofnun stað nálægt Dumbshafinu, einmitt á Akureyri, í því umhverfi sem rannsóknir og rannsóknastofnanir eru að fá aukinn sess og þar sem er að skapast umhverfi sem sé fært um að taka við verkefni sem þessu og tengja eðlilega inn í fjölþætta starfsemi rannsókna og rannsóknaumhverfis.

Allt gekk þetta má segja ótrúlega vel, þ.e. að fá stuðning við málið og þegar það var flutt öðru sinni eins og hér hefur komið fram þá stóðu að tillögunni þingmenn, má ég fullyrða, úr öllum þingflokkum sem fluttu málið. Ég sé raunar ástæðu til að nefna þá hv. þm. sem stóðu að þáltill. eins og hún var síðan samþykkt í aðalatriðum á þeim grundvelli en það voru auk þess sem hér talar hv. þm. Sturla Böðvarsson, Kristín Einarsdóttir, Halldór Ásgrímsson og Sigbjörn Gunnarsson, fulltrúar allra þingflokka sem þá voru á Alþingi. Og vegna þess sem fram kom í máli hv. þm. Tómasar Inga Olrichs áðan þá vil ég leyfa mér að vísa til þess sem fram kemur í grg. með þessari þáltill. þar sem segir eftir að búið er að fara yfir verkefni stofnunarinnar og þátttöku hennar í fjölþjóðlegum rannsóknarverkefnum og leiðöngrum, með leyfi forseta:

,,Hafa ber í huga að þótt náttúrufræðisvið séu óhjákvæmilega fyrirferðarmikil í heimskautarannsóknum taka þær nú orðið til flestra fræðasviða, m.a. mannfræði og félagsfræði, heilbrigðisfræða og lífeðlisfræði, fornminja og tæknigreina.``

Nánar er síðan að þessu vikið annars staðar í þessari þáltill. þannig að þá þegar var hugsað til þess að það væri veruleg fræðileg breidd í starfi þessarar stofnunar.

En eins og hér hefur komið fram, og sem má vera öllum þeim sem hafa kannski efasemdir um svona nýbreytni og svona starfsemi til uppörvunar, svo ég segi ekki huggunar, er sá þáttur frv. sem snýr að samstarfi þeirra mörgu aðila sem nú þegar vinna að málum sem varða norðrið, þ.e. sú samvinnunefnd um málefni norðurslóða sem skipa á til fjögurra ára og sem í eiga sæti aðilar tilnefndir af stofnunum og samtökum sem hafa með höndum verkefni er tengjast norðurslóðarannsóknum. Það var einmitt þegar í upphafi ætlunin að þessi stofnun yrði sameinandi fyrir þessa aðila og gæti myndað glugga og varpað boðum út á við til umheimsins um það að við Íslendingar værum að sinna af fullri alvöru verkefnum sem tengjast norðurslóðum.

Á þessu tímabili og undanförnum árum hefur mikið verið að gerast í þessum efnum eins og hæstv. ráðherra m.a. kom að í sínu máli. Það síðasta er hið pólitíska samstarf þeirra þjóðríkja sem liggja að norðurheimskautinu og hafa nú ákveðið að mynda hið svokallaða Norðurskautsráð eða Arctic Council sem samstarfsvettvang ríkisstjórna á þessu svæði. Áður var komið til samstarf um umhverfismálefni sem Norðurlöndin áttu ríkan þátt í að móta og sem hefur þegar skilað allverulegu verki undir merkjum AMAP-verkefnisins.

Það verður að geta þess að liður í því að bera þetta mál uppi og hugmyndina um það var vissulega sú hugsun að kenna stofnunina við heimskautafrömuðinn Vilhjálm Stefánsson. Sú hugmynd kom inn í umræður um þessi mál á mótunarskeiði og ég vil ekki fullyrða að ég eigi hugmyndina sem slíka en ég bar hana fram inn í frv. því mér fannst hún strax vænleg til þess að lyfta þessu máli og tengja það eðlilega við nafn Vilhjálms Stefánssonar sem getið var að verðleikum í grg. með upphaflegu tillögunni.

Síðan gerðist það, sem einnig átti eftir að hjálpa til við þetta mál, að ekkja Vilhjálms Stefánssonar heimsækir Ísland, raunar eftir að landsmenn höfðu kynnst henni í gegnum frábæran sjónvarpsþátt sem sýndur var í íslenska sjónvarpinu og unninn var af Íslendingi sem lagði mikið af mörkum í sambandi við þessa hugmynd, kynningu á henni og átti hlut í að gefa út bók um ævi Vilhjálms Stefánssonar. Hér á ég við Hans Kristján Árnason sem átti þetta viðtal við Evelyn Stefánsson Nef eins og hún heitir, ekkja Vilhjálms sem enn er á lífi og heimsótti Ísland í boði forseta Íslands vorið 1995 rétt eftir að Alþingi hafði samþykkt þál. um þessa stofnun. Meðal þeirra sem tóku á móti henni fyrir utan forseta Íslands, frú Vigdísi Finnbogadóttur, var forsrh. sem tók á móti henni á Þingvöllum og sýndi þessu máli þá þegar mikinn áhuga eins og forseti lýðveldisins einnig gerði. Þannig lagðist margt á sveif með þessu máli, að lyfta því og gefa því þann byr sem nægði til þess að það er hingað komið.

Ég hlýt líka í þessu sambandi að geta um sérstakan skilning og hvatningu sem komið hefur frá þeim öfluga fjölmiðli Morgunblaðinu í sambandi við þetta mál. En ritstjórn þess hefur ítrekað vakið athygli á gildi þessa máls, á þýðingu stofnunar sem ber heiti Vilhjálms Stefánssonar og hlýtur að rækta arfinn hans og átti það auðvitað góðan hlut í því að veita málinu það brautargengi sem nægði til að við höfum hér í höndum stjfrv. um málið sem væntanlega fær greiða afgreiðslu þingsins og þeirrar þingnefndar sem til að byrja með fær málið til meðferðar.

Það væri, virðulegur forseti, hægt að staldra lengi við einstaka þætti þessa máls. Ég ætla ekki að taka mikinn tíma til viðbótar þar að lútandi. Ég vil aðeins ítreka gildi norðurrannsókna fyrir okkur Íslendinga.

Við búum á mörkum kaldtempraðra svæða og heimskautabeltisins. Láglendið á Íslandi getur talist til hins fyrra en hálendi og fjöll hafa einkenni hins síðara eins og við þekkjum. Svipuðu máli gegnir um mót hafstrauma við landið. Af þessum ástæðum er það ekki aðeins einboðið heldur beinlínis lífsnauðsyn fyrir Íslendinga að kunna góð skil á náttúru landsins og þeim kröftum úr norðri sem ráða svo miklu um svipmót þess, lífsskilyrði á láði og legi og þar með afkomu þjóðarinnar.

Ég ítreka stuðning minn við þetta frv. og hef ekki við það athugasemdir en ef eitthvað er þá kæmi það fram í þingnefnd sem fær málið til umfjöllunar. Tengslin við fyrri umfjöllun málsins í þeirri nefnd mun væntanlega greiða fyrir meðferð málsins og ég er sannfærður um að við stöndum í þeim sporum að geta afgreitt það fyrir lok þessa þings. Það er ástæða til að hraða afgreiðslu málsins, m.a. vegna þeirra samvinnutilboða sem borist hafa vestan um haf í tengslum við verkefni á vegum þessarar stofnunar, en þar á ég við það margmiðlunarverkefni tengt lífi og starfi Vilhjálms Stefánssonar sem hefur verið í undirbúningi á vegum Dartmont College og sem þörf er á að taka undir og tengjast. Í því sambandi má ekki verða langur dráttur vegna þess að það verkefni er u.þ.b. að hefjast. Þetta er mjög fróðlegt verkefni sem þarlendir leggja til fjármuni og bjóða fram krafta um það og gæti orðið til að festa í sessi tengsl vestur á bóginn sem ættu að teljast sjálfsögð í þessu máli. En við Dartmont College er hið dýrmæta bókasafn Vilhjálms Stefánssonar og hluti af þeim háskóla sem þar starfar. Þetta með öðru ætti að verða til að brýna okkur að ljúka afgreiðslu þessa máls fyrr en seinna.