Rafknúin farartæki á Íslandi

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 19:19:03 (3882)

1997-02-24 19:19:03# 121. lþ. 76.18 fundur 323. mál: #A rafknúin farartæki á Íslandi# þál., 327. mál: #A notkun vetnis í vélum fiskiskipaflotans# þál., HG
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[19:19]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég sé ástæðu til þess að segja nokkur orð í tengslum við þær þáltill. sem hér hefur verið mælt fyrir af hv. 1. flm., Hjálmari Árnasyni. Tillögurnar eru fluttar af nokkrum hv. þm. Framsfl. og fela í sér áskorun um tiltekin efni á hæstv. umhvrh. sem er ekki langt undan, virðulegur forseti, þegar Framsfl. er nefndur því að hæstv. ráðherra mun vera varaformaður flokksins fyrir utan önnur mikilvæg trúnaðarstörf sem hann gegnir. Boðleiðirnar ættu því ekki að vera mjög langar milli hv. flm. og hæstv. ráðherra. Með þessum orðum er ég síst að lasta það að málið skuli fært í þann búning að flytja þáltill. á Alþingi til þess bæði að vekja athygli á málinu og fá fram vilja þingsins. En ég hlýt þó að benda á að unnt hefði verið að fara skemmri leiðina sem stundum hefði verið kölluð djúpleið, fara djúpleiðina, að hvetja hæstv. ráðherra án þess að fara í gegnum Alþingi til þess að taka til þeirra ráða sem felast í tillögunum.

Þetta nefni ég m.a. vegna þess að ég sé það í grein sem birtist í Morgunblaðinu fyrir réttu ári, 23. febrúar 1996, þar sem fjallað er um annað það efni sem hér er til umræðu, þ.e. rafbíla, að starfandi hafi verið stjórnskipuð nefnd til þess að sinna þessum verkefnum, þ.e. að leggja á ráðin um aukna notkun rafbíla, sett niður af umhvrh. nr. tvö í því embætti, fyrrv. ráðherra Eiði Guðnasyni. Í blaðinu segir síðan að Morgunblaðið leitaði frétta af nefndinni um aukna notkun rafbíla og komst að því að hún hafi var lögð niður í janúar sl. með þeim orðum að ekki hafi fundist lífsmark með henni. Og nú stendur hv. þm. Hjálmar Árnason upp á Alþingi til þess að hvetja hæstv. ráðherra til þess að bæta ráð sitt og taka það mál upp sem hæstv. ráðherra komst að að væri þarflaust eða þannig vaxið að það yrði að veita þessari stjórnskipuðu nefnd nábjargirnar. Það má auðvitað vel vera að þessi nefnd, sem hefur þá verið búin að sitja á fjórða ár líklega, hafi verið orðin södd lífdaga, það má leiða líkur að því og hafi verið þörf að gefa henni nýtt blóð og kannski nýtt umboð. En ég vek einfaldlega athygli á því vegna þess að tillagan fjallar nákvæmlega um slíka nefndarskipun og lítið meira í nákvæmlega sama dúr og þessi nefnd sem lögð var af fyrir rétt rúmu ári síðan. Og svo á ráðherra nú að setja nýja nefnd á laggirnar og hún á að gera Alþingi grein fyrir tillögum sínum fyrir árslok 1997.

Spurning er hvort eitthvað var unnið í tíð fyrri nefndar. Það liggur auðvitað ekki fyrir og er ekki rakið hér. En ég tek eindregið undir að sú hugsun sem er á bak við báðar þessar tillögur er góð og gild og skiptir þá engu þó að málið hafi verið til meðferðar á fyrri stigum þó að ég hefði gjarnan viljað sjá efnismeiri umfjöllun um málið, sérstaklega í sjálfum tillögunum, heldur en þetta einfalda atriði að hæstv. ráðherra skipi nefnd vegna þess að hér er auðvitað í raun um mjög stór mál að ræða sem varðar miklu að tekið sé á af fullri alvöru og þó fyrr hefði verið. Hér er spurningin í báðum tilvikum um að nýta innlendar orkulindir, innlenda orkugjafa í samgöngutækjum okkar, skipum og bílum, og útrýma jarðefnaeldsneyti sem leggur inn í það safn mengunar sem Íslendingar eru valdir að. Fiskiskipaflotinn veldur þar eða skipaflotinn um þriðjungi af þeim koltvísýringi og öðrum gróðurhúsalofttegundum sem verða til á Íslandi, bílaflotinn er með annan þriðjunginn og síðan iðnaðurinn með síðasta þriðjunginn. Þannig liggur þetta. Hér er því um gífurlega stórt verkefni að ræða sem hefur allt of lengi hvílt óbætt hjá garði ef svo má segja.

Ég hlýt að nefna samhengisins vegna að þau mál sem varða framleiðslu vetnis hefur ítrekað borið á góma hér á Alþingi og ekki fengið þann stuðning sem þau verðskulda, enda flutt af þingmönnum í stjórnarandstöðu sem eiga oft á brattann að sækja með sín mál eins og reynslan sýnir því miður. En þingmenn Kvennalistans, sem kalla sig þingkonur, virðulegur forseti, þeir ágætu þingmenn, heill þingflokkur sem taldi hér sex þingmenn fyrir nokkrum árum, flutti tillögu um framleiðslu vetnis. Það var 134. mál á 113. löggjafarþingi, ætli það hafi ekki verið nálægt 1990.

Sú tillaga var um að fela ríkisstjórninni að hefja skipulagðar rannsóknir og undirbúning að framleiðslu vetnis til notkunar sem eldsneyti til innanlandsnota, og meira en það, og til útflutnings eins og það var orðað í tillögutextan. Jafnframt verði athugað, og nú er ég farinn að vitna, virðulegur forseti, og bið um leyfi: ,,Jafnframt verði athugað hvaða breytingar þurfi að gera á bifreiða-, skipa- og flugvélaflota og öðrum vélakosti landsins til að notkun á vetni sem eldsneyti yrði möguleg, umfang þeirra breytinga og kostnaður við þær.``

Það hangir því miklu meira á spýtu í þessari tillögu frá 113. löggjafarþingi heldur en hér er lagt til, þar sem einfaldlega er verið að láta kanna möguleika þess að vélar íslenskra fiskiskipa verði knúðar vetni í stað olíu. Málið er nefnilega það að það er fleira en rafbílar sem koma til greina. Það er einnig bílar knúðir vetni, möguleikarnir að nýta vetni sem eldsneyti á bíla verðskulda athygli.

Ég vil nefna að margir hafa vakið athygli á þessum málum og reyna að minna á það. Einn var nefndur hér af hv. frsm. að því er varðar vetnisframleiðsluna, Bragi Árnason prófessor, óþreytandi boðberi þess að menn eigi að nýta þetta vistvæna eldsneyti og orkulindir okkar til þess að framleiða það. En varðandi rafbílana nefni ég nafn eins og Jón Baldur Þorbjörnsson bíltækniráðgjafa sem hefur lagt mikið í þetta og Gísla Júlíusson, yfirverkfræðing hjá Landsvirkjun, varaforseta Landverndar, sem hefur verið mikill áhugamaður um rafbíla.

Að lokum, virðulegur forseti, svona rétt upp á samhengið af því að það er oft rætt um rafbílinn Gísla Jónssonar prófessors, sem eitt sinn var hér á götunum og var í rekstri frá árinu 1979 að telja má ég segja, en sá bíll var keyptur eftir að ónefndur maður sem var til húsa í iðnrn. 1979 fann upp á því að fá ríkisstjórnina til að samþykkja að fella niður aðflutningsgjöld á þennan bíl sem hafði lengi verið draumur Gísla Jónssonar prófessors. Því miður var það svolítið endasleppt með þessar tilraunir. Skilningurinn var takmarkaður og er því miður enn takmarkaður. Þökk sé hv. 1. flm. fyrir að hreyfa þó í litlu sé við þessu stóra máli enn á ný.