1997-03-04 13:49:22# 121. lþ. 83.95 fundur 229#B stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og breytingar á eignaraðild að henni# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[13:49]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Sl. fimmtudag tók ég þetta mál sem nú er rætt í ljósi þess sem gerðist á föstudaginn var. Ég tók það upp við hæstv. iðnrh. og lýsti ugg mínum yfir því að ef ætti að fara að ganga til samninga við Elkem úti í Ósló daginn eftir á þeim forsendum sem við birtust blasa. Það er ekki oft sem ég get lýst því að vera á svipaðri skoðun og núv. hæstv. iðnrh. en ég verð að segja að í sambandi við það sem gerðist á föstudaginn, þá sýnist mér að það hefði verið óðs manns æði að fara að ganga að þeim kröfum sem lágu þar fyrir frá Elkem. Ég held að það geti verið hverjum manni ljóst sem horfir á þær tölur sem við blasa. Það átti nánast að gefa fyrirtækið og það átti að fylgja yfirlýsing, sem ég er hræddur um að hafi verið gefin eða komið fram frá Landsvirkjun um að afhenda hér rjómann í virkjunum okkar á næstu árum til stækkunar fyrir Elkem sem meirihlutaaðila. Hæstv. ráðherra segir að meiri hlutinn sé einskis virði --- hinn íslenski. Ég held að ekki séu allir sammála um það.

Alþb. var vissulega á móti þessum samningi af mörgum ástæðum, efnahagslegum og varðandi umhverfisþætti á sínum tíma og vegna þess markaðssamnings sem nú blasir við. En ég er alveg viss um að ef íslenska ríkið hefði ekki átt meiri hluta í þessu fyrirtæki þau ár sem liðin eru frá því að það hóf rekstur, þá væri búið að loka fyrirtækinu fyrir löngu síðan. (ÖS: Hefði það ekki verið betra?) Ég minni á það viðhorf sem ríkir hjá starfsmönnum og stjórnendum Íslenska járnblendifélagsins í sambandi við þetta mál. Það liggur fyrir m.a. það mat í bréfum til hæstv. iðnrh., svo að ég vitni í bréf fyrir hönd trúnaðarmanna á Grundartanga, með leyfi forseta:

,,Þegar miklir erfiðleikar voru í rekstri járnblendiverksmiðjunnar hélt ríkið sínu hlut á meðan Elkem seldi af sínum. Við spyrjum okkur að því hvert verður (Forseti hringir.) viðhorf erlendra meirihlutaeigenda til starfseminnar þegar erfiðleikar steðja að.`` Og fleira í þessum dúr segir í því erindi. Ég held því að menn þurfi að hugsa (Forseti hringir.) sig um áður en þeir fara að knýja á um það að gengið sé að þessum kröfum Norðmanna. Frekar ætti að skoða það (Forseti hringir.) álitaefni að losa þá út úr fyrirtækinu.