Veiðiþol beitukóngs

Þriðjudaginn 04. mars 1997, kl. 17:01:16 (4193)

1997-03-04 17:01:16# 121. lþ. 83.9 fundur 343. mál: #A Veiðiþol beitukóngs# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[17:01]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er sárgrætilegt til að vita hversu naumt er skammtað til rannsókna á íslenskri náttúru, íslensku lífríki og einnig á hafsvæðinu í kringum landið. Við hljótum að hugsa til þess, m.a. í samanburði við hvað er veitt í alls konar atriði sem snúa að stórum framkvæmdaáformum, hvað er búið að eyða í sambandi við drauma um stóriðjuver útlendinga sem reynt er að draga hingað upp á landið, ef það væri saman talið. Það eru nokkrir milljarðar sem hafa farið fyrir lítið í þeim efnum. En á sama tíma erum við með þessi mál í svelti að því er snertir það sem liggur við bæjardyrnar hjá okkur, rétt utan við bæjarhelluna og þetta er ekki farsælt. Þetta er röng stefna. En af því að hv. þm. fór að nefna hugðarefni Alþfl. í formi veiðigjalds, sem ég ætla ekkert að taka inn í þessa umræðu, það er enginn tími til þess, þá eigum við ekki að fara að tengja slík efni saman. Alþfl., eða jafnaðarmannaflokkur Íslands, ef hann heitir svo nú um stundir, verður að baksa með þessi mál sín og hugðarefni sér á parti, en ekki að vera að tengja þau við beitukóng og aðra góða hluti og tillögur af þessum toga. Hvar enda menn? Hv. þm. hefði getað komið hér með málefni númer eitt sem sameinaður jafnaðarmannaflokkur Íslands berst fyrir, þ.e. aðild að Evrópusambandinu. Það er verið að gylla það fyrir okkur að þar sé í sjóði að leita og ætli það væri ekki hægt að fá stuðning þaðan til rannsókna á beitukóngi við Ísland? Ég hugsa það, þeir eru margir sjóðirnar. En það er líka rukkað fyrir þetta. Þetta er ekkert gjafafé sem er þarna á ferðinni svo að við skulum reyna að standa að svona sjálfsögðum hlutum á eigin fótum og eigin forsendum.