Ráðgjafanefnd um erfðabreytingar á lífverum

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 14:23:43 (4343)

1997-03-12 14:23:43# 121. lþ. 88.4 fundur 395. mál: #A ráðgjafanefnd um erfðabreytingar á lífverum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur

[14:23]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svör við fyrirspurninni. Hæstv. ráðherra upplýsti að reglugerð á grundvelli 6. gr. laganna hefur enn ekki verið sett. Ég bíð spenntur eftir að fá fregnir af reglugerðarsetningu samkvæmt 7. gr. en þar er nú um langtum umfangsmeira mál að ræða sem að umhvn. orðaði við meðferð málsins á sínum tíma að æskilegt væri að lægi fyrir við umfjöllun hennar þá, þ.e. á síðasta þingi en þá lágu þessi drög ekki fyrir. Þetta leiðir hugann að því hvort ekki sé brýnt í rauninni að ráðuneytin leitist við að móta drög að reglugerðum, a.m.k. til kynningar þingnefndum, til þess að ljóst sé að ekki líði óhóflegur tími frá lagasetningu þar til reglugerð er sett svo og að menn átti sig á því hvert er stefnt af hálfu framkvæmdarvaldsins varðandi reglugerðarheimildir sem auðvitað verða að styðjast við lög en ekki ganga gegn ákvæðum laga. Hæstv. ráðherra sagði að nefndin hefði nýlega verið skipuð, og það væri æskilegt að heyra hvenær gengið var frá skipun nefndarinnar, þannig að hún er þá að hefja störf. Hefur nefndin komið saman? Það er frekari fyrirspurn af minni hálfu.

Varðandi þetta geysistóra mál kemur einnig upp spurningin um hvernig búið er að Hollustuvernd ríkisins sem á að fara með þetta mál að þessu leyti. Ég hafði spurnir af því vegna undirbúnings fjárlaga að þar ætti að fjölga um eitt stöðugildi á þessu ári vegna þessa verkefnis sérstaklega, í rauninni eina stöðuheimildin (Forseti hringir.) til viðbótar hjá Hollustuvernd ríkisins. Mér er mjög til efs að það sé fullnægjandi varðandi þau verkefni sem þarna bíða. En miklu skiptir að framkvæmdin verði ekki látin stranda á því, að það verði hægt að sinna þessu mikilvæga verkefni, bæði eftirliti og leyfisveitingum.