Tilraunadýranefnd

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 14:28:43 (4345)

1997-03-12 14:28:43# 121. lþ. 88.5 fundur 396. mál: #A tilraunadýranefnd# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur

[14:28]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Á þskj. 690 ber ég fram svofellda fyrirspurn til hæstv. umhvrh. um tilraunadýranefnd. Efni fyrirspurnarinnar er svohljóðandi, með leyfi forseta:

1. Hverjir eiga sæti í tilraunadýranefnd samkvæmt lögum nr. 15/1994, um dýravernd?

2. Hvenær var sett reglugerð ,,þar sem kveðið er á um meðferð tilraunadýra og eftirlit með tilraunum``, sbr. 16. gr. laganna?

3. Hver eru helstu efnisatriði reglugerðarinnar?

16. gr. laganna er í VI. kafla þessa lagabálks um dýravernd. Þar er fjallað um tilraunir á dýrum og kveðið á um að umhvrh. skipi tilraunadýranefnd til fjögurra ára í senn, einn án tilnefningar með háskólamenntun og þekkingu á sviði dýratilrauna og einn fulltrúi er skipaður af Rannsóknastofnun í siðfræði auk þess sem yfirdýralæknir á sæti í nefndinni og er formaður hennar. Þarna er einnig kveðið á um reglugerðarheimildina eða reglugerðarkvöðina því það er sett fram ákvarðandi að sett skuli reglugerð.

[14:30]

Tilraunir á dýrum eru mikið stundaðar í sambandi við vísindarannsóknir af ýmsum toga og reyndar framleiðslu á lyfjum og ýmsu fleira og hér er um vandasamt mála að ræða og viðkvæmt að mörgu leyti. Því skiptir miklu máli að vel sé á þessu haldið. Við þetta bætist síðan að tilraunir á dýrum geta varðað efni siðfræðilegs eðlis eins og kemur fram í því hvernig nefndin skal vera skipuð. Þar á siðfræðingur að vera til ráðgjafar. Stóru tíðindin frá síðustu vikum er um einræktun á spendýrum. Það er sauðkindin Dollý sem búin var til með tilraunum á sauðfé og breytti verulega þeirri mynd sem við blasir í þessum efnum. Upp hlýtur að koma spurningin um það, þó ég sé ekki að leiða líkur að því að verið sé að vinna í þessa áttina hér þó ekki væri nema vegna fjárskorts þó áhugi kynni að vera á því en ég hef ekki orðið var við neitt slíkt, þá hlýtur að vakna spurningin hvort ekki eigi að setja blátt bann við slíkum tilraunum hér á landi og varðar það þá þau lög sem hér er um að ræða, a.m.k. efnislega séð þó að það sé nokkuð sérstakt mál. (Forseti hringir.) Þetta tengist einnig spurningunni um starfsemi þessarar nefndar, spurningunni um það hvort setja skuli á fót sérstakt lífsiðfræðiráð til þess að hafa heildaryfirlit og vöktun á þessu stóra sviði öllu saman.