Endurskoðun laga um tæknifrjóvgun

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 15:05:48 (4665)

1997-03-19 15:05:48# 121. lþ. 93.5 fundur 394. mál: #A endurskoðun laga um tæknifrjóvgun# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:05]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Fsp. mín á þskj. 688 er beint til dómsmrh. og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

1. Hverjir eiga sæti í nefnd til að fylgjast með framkvæmd laga nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun, og vinna að endurskoðun þeirra, sbr. ákvæði til bráðabirgða í þeim lögum?

2. Hvaða rammi var settur um störf nefndarinnar og hversu langt er endurskoðun laganna komin, m.a. á ákvæðum um nafnleynd kynfrumugjafa?

Þetta er fyrirspurnin og hún sækir efni til ákvæðis til bráðabirgða í nefndum lögum þar sem gert var ráð fyrir að dómsmrh. skipaði við gildistöku laganna 1. júní 1996 þriggja manna nefnd sérfróðra aðila á sviði læknisfræði, lögfræði og siðfræði til að fylgjast með framkvæmd laganna og vinna að endurskoðun þeirra. Þar segir einnig: ,,Nefndin skal hafa hliðsjón af laga- og tækniþróun á sviði tæknifrjóvgunar, m.a. með tilliti til nafnleyndar. Nefndin skal ljúka störfum innan tveggja ára frá gildistöku laganna.``

Hér eru alveg skýr fyrirmæli hjá löggjafanum um þetta efni og vikið að ákveðnum efnisþætti sem mjög var til umræðu þegar frv. til laga um tæknifrjóvgun var rætt á Alþingi fyrir ári síðan og það atriði sem varðaði nafnleynd kynfrumugjafa var alveg sérstaklega umdeilt í þinginu en það ákvæði sem hér kom inn var sett til að koma til móts við sjónarmið sem hér voru uppi, bæði innan stjórnarliðs og stjórnarandstöðu að þessu leyti.

Um nafnleyndina sem slíka er fjallað í 4. gr. laganna og samkvæmt ákvæðum hennar getur kynfrumugjafi, og þá er oftast um að ræða sæðisgjafa, krafist nafnleyndar og ber þá að tryggja að hún verði virt. Sé það hins vegar ekki gert getur barn sem til verður vegna kynfrumugjafar óskað eftir því við 18 ára aldur að fá aðgang að skrá sem upplýsir um kynfrumugjafann og þar með áttað sig á faðerni sínu eins og mun nú oftast vera um að ræða. Hér er sem sagt spurt um í hvað stefnir í sambandi við þennan þátt endurskoðunar á vegum stjórnskipaðrar nefndar.