Kjarnavopn á Íslandi

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 15:48:12 (4681)

1997-03-19 15:48:12# 121. lþ. 93.9 fundur 427. mál: #A kjarnavopn á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:48]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Það var athyglisvert sem hér kom síðast fram frá öðrum ráðherra í sambandi við þessi mál. Ég vil ráðleggja hæstv. ráðherrum að fara rólega í sakirnar og frekar varlega í staðhæfingar um þessi efni í ljósi sögunnar, í ljósi þess sem hefur verið að koma fram um þessi efni í nágrannalöndum okkar. Það er rétt, og ég vissi það þegar ég bar fram fyrirspurnina í dag, að Leif Leifland hafði lýst yfir að rangt væri eftir sér haft, en jafnframt eftir honum haft að hann gæfi ekkert fyrir yfirlýsingar bandarískra stjórnvalda, sá hinn sami, hátt settur maður í sænsku utanríkisþjónustunni og búinn að gegna þar mjög lengi.

Ég tek fullt mark á því sem hæstv. utanrrh. segir hér, dreg það ekkert í efa að hæstv. ráðherra hafi haft viðleitni í frammi til þess bæði að spyrja og kanna. En ég vek einnig athygli á því að það hefur ekki farið fram nein ítarleg rannsókn af hálfu stjórnvalda, svo mér sé kunnugt, í bandarískum skjalasöfnum um þessi efni. Það liggur einnig fyrir að hluti þeirra gagna er lokaður og aðgengi að honum ekki heimilt að því er fullyrt er af sumum af tillitssemi við bandamenn Bandaríkjanna á þessum árum og áratugum. Ég vek athygli á því, sem m.a. kom fram í leiðara Politiken 10. september 1995, að einmitt sú stefna bandarískra stjórnvalda að hvorki játa né neita tilvist kjarnavopna á yfirráðasvæði annarra landa sé til komin af tillitssemi við stjórnvöld í þeim ríkjum sem um er að ræða.

Ég tel hins vegar að það hafi verið mjög þýðingarmikið þegar þessi mál voru tekin föstum tökum á Alþingi Íslendinga af utanrmn. þingsins m.a. 1985 þegar samþykkt var þál. um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum þar sem því var í fyrsta sinn í raun með samstöðu á Alþingi slegið föstu að það væri í andstöðu íslenska stefnu að hér væru staðsett kjarnorkuvopn og jafnframt hvatt til þess að könnuð yrði samstaða um og grundvöllur fyrir samningum um kjarnorkuvopnalaust svæði í Norður-Evrópu, jafnt á landi, lofti sem á hafinu og fleira sem stendur í þessari ályktun. Eftir þetta lá stefna þingsins mjög skýr fyrir og var auðvitað áður af hálfu stjórnvalda eins og hæstv. utanrrh. hefur sagt og við skulum vona að hún hafi verið virt. Við skulum bara vona það.