Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 11:27:03 (4709)

1997-03-20 11:27:03# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[11:27]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var nú ekki að óska eftir því að hv. þm. færi að gera grein fyrir sínum þætti í málinu en það er auðvitað velkomið. Spurningin er þessi: Af hverju er hv. þm. og formaður Alþfl. að gefa slíka yfirlýsingu um þetta mál? Ég efa satt að segja stórlega að hv. þm. hafi sett sig inn í gögn málsins. Það má hins vegar vel vera að hann hafi gert það, en sé svo þá er ég allt annarrar skoðunar en hv. þm. í þessu efni. Ég tel að málsmeðferð umhvrn. alveg sérstaklega í þessu máli sé einhver sóðalegasta embættisfærsla sem ég hef verið vitni að síðan það ráðuneyti var sett á laggirnar og mætti reyndar víðar leita. Það kemur m.a. fram í því að þetta er reglugerð sem stenst ekki lög og er dregin til baka og það mál er enn þá í óvissu og fyrir liggur af minni hálfu ósk um að sú reglugerðarsetning sem átti að taka við af hinni fyrri verði skoðuð frekar vegna þess að mér sýnist að þar sé höggvið í sama knérunn og gengið gegn lögum. Þetta á að vera sérstakt sýnishorn um einhverja afbragðs lögfylgju í svo stóru mál. Ég undrast það að formaður Alþfl. skuli í svo mjög umdeildu máli, þar sem þegar koma fram óskir frá samtökum almennings um að farið verði ofan í ákveðna þætti, jafnvel að farið verði í málsókn, úr þessum ræðustóli gefa yfirlýsingu af þessum toga.