Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 14:46:07 (4735)

1997-03-20 14:46:07# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[14:46]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Málflutningur þingmanna og forustu Alþfl. í þessari umræðu er einkar athyglisverður. Það vekur ekki síður athygli hverjir ekki eru hér viðstaddir umræðuna úr þeim þingflokki eins og fyrrv. hæstv. umhvrh. Annaðhvort er hann sammála þessum hv. þm. Alþfl. og formanni hans eða hann kýs að halda sig fjarri og er nú margt gleymt af því sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson reyndi að lyfta hér og tókst ágætlega í ýmsum tilvikum í sinni ráðherratíð.

Það er líka einkennilegt hvernig þessir hv. þm., Sighvatur Björgvinsson og Gísli S. Einarsson, rökstyðja sitt mál hér. Þeir vísa til þess að álbræðslur og járnblendiverksmiðjur séu ekkert verri en frystihús og útgerð og ég man ekki hvað hv. þm. tók hér annað til samanburðar og spyrja: Hvernig hefðu nú málin verið hér á Íslandi ef við hefðum aldrei reist frystihús? Það er svona málflutningur sem er alveg með ólíkindum. En það eru hins vegar alvarlegri mál sem eru í bakgrunni þess sem við ræðum hér. Það eru m.a. alþjóðlegar skuldbindingar Íslendinga varðandi samninginn um loftslagsbreytingar. Sú fabrikka sem hér á að fara að reisa uppi á Grundartanga mun losa samkvæmt mati hæstv. umhvrh. 373.000 tonn á ári af gróðurhúsalofttegundum og auka 13% við það sem losað var árið 1990 sem er viðmiðunarár varðandi alþjóðlega samninga. Við stöndum frammi fyrir því að gerður verði lagalega skuldbindandi samningur um samdrátt þessarar losunar væntanlega fyrir lok þessa árs. Ég spyr talsmenn Alþfl. og þann sem hér talaði síðastur: Hafa þeir engar áhyggjur af þessu máli? Eru þeir eins og ríkisstjórnin að stinga bara hausnum í sandinn eins og fyrir liggur í hennar framkvæmdaáætlun?