Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 16:25:58 (4753)

1997-03-20 16:25:58# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[16:25]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér fannst ýmislegt athyglisvert koma fram í máli hv. 10. þm. Reykn. að því er varðar viðurkenningu á þeim vanda sem við blasir í sambandi við þennan stóriðjurekstur sem meiri hlutinn er hér að búa sig í að taka ákvarðanir um að settur verði niður. En mér finnst skorta á að hv. þm. dragi af þessu þær ályktanir sem þarf að gera, þ.e. það þýðir ekkert að vera að vísa vandanum út í einhverja bláa framtíð í stað þess að taka á honum nú. Hann blasir við núna. Það er núna sem átti að taka ákvarðanir um að beita tiltækri tækni til að leysa mengunarvandann eins og að setja upp vothreinsibúnað sem þingmaðurinn nefndi réttilega að þyrfti að koma þarna. Eftir hverju er að bíða?

Nú teflir Elkem auðvitað inn á það að það er enginn vothreinsibúnaður hjá þessari álbræðslu. Þeir hugsa sér að koma með marga ofna upp á Grundartanga og eru að fá tilboð um rjómann úr vatnsaflinu í því skyni. Hvernig ætla menn menn stöðva sig af í þessum efnum? Ég hefði talið að hv. þm. og þingmenn Sjálfstfl. hefðu átt að leggja sig fram við afgreiðslu þessa máls um að stöðva þennan ófarnað sem Framsfl. ber höfuðábyrgð á, í Stjórnarráðinu, að er hér að ganga fram til ákvarðana. Mér finnst að það gæti þó skilnings hjá þessum hv. þm. en það vantar að stíga skrefið.

Síðan er stóra málið sem hv. þm. virðist átta sig á betur en ýmsir sem talað hafa úr stjórnarliði við þessa umræðu. Það er spurningin um gróðurhúsalofttegundirnar. Það er sú stóra spurning. En hvernig ætlar hv. þm. að réttlæta það, og þetta auðvitað gildir um að aðra sem hér ætla að styðja þetta mál, að hér verði teknar ákvarðanir um þessa gífurlegu losun sem kallar á að það verður að draga saman annars staðar. Þetta gengur ekki upp.