Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 17:25:12 (4769)

1997-03-20 17:25:12# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[17:25]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér sýnist að hæstv. iðnrh. þurfi á kennslustund að halda og kannski er hann að fá einhvern hluta af því núna hjá embættismanni og það er vel. Kannski gæti hæstv. umhvrh. lagt eitthvað til því sannleikurinn er sá að það sem hæstv. ráðherra segir ber vott um að hann skilur hvorki upp né niður í því vandamáli sem menn eru að búa sig undir að takast á við og segir: Hvernig í ósköpunum ætla menn ...? Ætla menn að hætta að nota ál o.s.frv.? Hvernig heldur hæstv. iðnrh. að verði tekið á þeim vanda sem felst í loftslagsbreytingunum með skuldbindandi hætti ef allir ætla að afgreiða málið eins og íslenska ríkisstjórnin hefur gert í framkvæmdaáætlun sinni? Að segja bara: Nýting orkulindanna til stóriðju kemur þessu máli ekki við. Það er raunar það sem hæstv. ráðherra var að segja og vonin um að það tækjust engar skuldbindingar, þetta væri svo langt undan. En svo vill til að hæstv. umhvrh. er þó að baksa við það, með góðu liði, að taka þátt í að ná svona samningi saman í desember nk. með lagalegum skuldbindingum. Og þó að þær komi ekki til þá erum við þjóðréttarlega skuldbundin til að fara ekki fram úr þó hitt sé meira ákvarðandi.

Menn verða einfaldlega að átta sig á því að ætli menn ekki að taka áhættuna sem er samstaða um í heiminum að sé óhófleg, og það eru nú 40 ríki, aðallega eyríki, lönd sem lágt liggja sem eiga það beinlínis á hættu að hverfa á næstu hálfri öld eða svo undir yfirborð sjávar ef fram heldur sem horfir. Hvers konar skilaboð eru það sem hér er verið að gefa af hæstv. ráðherra? Þetta horfir ekki vel. Svo er hæstv. ráðherra að kynna einhverja stefnu um einhverja aðra hluti en neitar (Forseti hringir.) að horfast í augu við mest knýjandi vandamál á alþjóðavettvangi í þessum efnum sem hann sannarlega ber verulega ábyrgð á hvernig Ísland tekur á.