Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 18:25:46 (4782)

1997-03-20 18:25:46# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[18:25]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er margt sem þyrfti að komast að á þessum tveimur mínútum. En fyrst af öllu þegar hæstv. umhvrh. segir að hann hafi ekki farið jafnilla með skipulagsstjóra og ég hefði gefið til kynna þá verð ég að hryggja hæstv. ráðherra með því að ég fæ ekki betur séð en að hann hafi afnumið í úrskurðarorðum sínum alla 3. gr. þó að vísað sé til í úrskurðinum, með leyfi forseta. Þetta er úr niðurstöðu ráðuneytisins en ekki úrskurðarorðum: ,,Við gerð starfsleyfistillagna ber því Hollustuvernd ríkisins að hafa til hliðsjónar þau atriði sem fram koma í 3. tölulið úrskurðar skipulagsstjóra`` o.s.frv. Og einnig að það er auðvitað geysilega stórt mál að höggva í sundur þá heild sem hér hangir saman, verksmiðju og aðrar matsskyldar framkvæmdir. Það sem skipulagsstjóri vildi fá klárt og sagði í sínum úrskurðarorðum --- það verður ekki farið í framkvæmdir við verksmiðjuna fyrr en búið er að fara yfir allar matsskyldar framkvæmdir. En þetta var afnumið. Þetta var slegið af og það er þessi gjörningur sem hér er verið að gagnrýna með þeim hætti sem ég hef leyft mér að gera.

Og síðan hvað varðar málsmeðferðina --- þrír mánuðir samkvæmt stjórnsýslulögum. Það er gott að ráðherrann upplýsir það en jafnframt hlýt ég að undirstrika að auðvitað getur það ekki gengið upp, það er mitt mat, að afgreiða starfsleyfi út úr ráðuneyti áður en þessu ferli er lokið. Annars væri verið að ganga algerlega yfir það. Vegna reglugerðarinnar fæ ég ekki séð að hún rími saman, að reglugerð nr. 26 frá þessu ári rími saman við ákvæði 26. gr. Hæstv. ráðherra er að reyna að túlka þær athugasemdir (Forseti hringir.) sem komu fram við auglýsingu Hollustuverndar ríkisins. Hann er að reyna að túlka það sem kærur. Það eru engar kærur í tengslum við þá málsmeðferð sem verið (Forseti hringir.) hefur heldur bara réttur til athugasemda á auglýsingatíma. Síðan gefur Hollustuvernd út leyfið og þá hafa menn kæruréttinn samkvæmt gildandi lögum til stjórnar Hollustuverndar ríkisins en ekki úrskurðarnefndar, það er næsti vettvangur.