Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 18:30:44 (4784)

1997-03-20 18:30:44# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[18:30]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvað segja lögin, með þínu leyfi, þ.e. 26. gr.:

,,Rísi upp ágreiningur um framkvæmd laga þessara, heilbrigðisreglugerðar, mengunarvarnareglugerðar, heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga og ákvarðana heilbrigðisyfirvalda, annar en skv.`` tilteknum tölulið sem ég sleppi, ,,er heimilt að vísa málinu til stjórnar Hollustuverndar ríkisins til úrskurðar. Séu aðilar ekki sáttir við úrskurð stjórnarinnar er heimilt að vísa málinu til sérstakrar úrskurðarnefndar, er starfar samkvæmt lögum þessum, ...``

Hæstv. ráðherra er hér með sinni reglugerð frá 22. janúar að reyna að innleiða alveg nýja málsmeðferð frá því sem verið hefur. Það bara gengur ekki upp. Menn höfðu réttinn til athugasemda eftir auglýsingu um starfsleyfi. Það hefur ekkert breyst í því. Síðan kemur niðurstaða Hollustuverndar og stjórnar Hollustuverndar samkvæmt reglugerðinni sem ekki var út af fyrir sig nauðsynlegt að breyta og þá hafa menn eftir sem áður lögvarinn rétt til að kæra til stjórnar Hollustuverndar. Og ef því er ekki unað þá hafa menn réttinn til að kæra til úrskurðarnefndar. Þannig liggur þetta. Ég hélt að þetta væri mönnum ljóst. En það virðist vera mjög erfitt fyrir menn uppi í umhvrn., því miður, að lesa í lög að mínu mati.

Síðan aðeins um loftslagssamninginn. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það sem hann skýrði í því efni, en staða okkar er ekkert hliðstæð stöðu landa innan Evrópusambandsins. Innan Evrópusambandsins er þannig haldið á málum að ákvörðuð er skipting á þeim heildarkvóta sem Evrópusambandið ætlar að standa við, þá heildarniðurstöðu í samdrætti, því nú er talað um samdrátt á næstu árum, til ársins 2010 og því er jafnað niður á löndin. En síðan eru engin skipti þeirra á milli. Þau eiga að búa við þessar niðurstöður sem þarna er um að ræða og undir ,,tradable permits`` eða verslun með leyfi er ekki tekið samkvæmt þeim svörum sem ég fékk frá Ritt Bjerregaard og margir hlýddu á í Norræna húsinu.