Hvalveiðar

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 15:29:44 (5777)

1997-05-05 15:29:44# 121. lþ. 116.1 fundur 303#B hvalveiðar# (óundirbúin fsp.), HG
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:29]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Varðandi það sem hér kom fram hjá hæstv. sjútvrh., þá erum við nú ekki mikils vísari um afstöðu hæstv. ráðherra í málinu. Það á greinilega að steinþegja um það gagnvart Alþingi hvað standi til að taka ákvörðun um, ef nokkra, í hæstv. ríkisstjórn um þetta mál. Og hvað um þessi markaðsmál? Það eru stjórnarliðar, hv. þm. Guðjón Guðmundsson og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sem fullyrða að hæstv. ráðherra hafi komið bara með bréf upp á það frá Japan sl. haust að þeir væru reiðubúnir að kaupa hvalaafurðir. Ég held að það væri rétt að hæstv. ráðherra svari sjálfur úr þessum ræðustól hvað liggur að baki því sem þessir hv. þingmenn eru að segja á Alþingi.

Ég tek eindregið undir það að menn eigi að fara varfærnislega fram í þessu máli. En menn gátu tekið ákvarðanir um það fyrir tveimur árum, jafnvel fyrir þremur árum að hefja hér veiðar á hrefnu í mjög smáum mæli fyrir innanlandsmarkað til að undirstrika rétt okkar og menn eiga ekki að vera að kenna umhverfissamtökum um það að við ekki höldum á þeim rétti.