Landmælingar og kortagerð

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 10:55:41 (6082)

1997-05-12 10:55:41# 121. lþ. 121.8 fundur 159. mál: #A landmælingar og kortagerð# (heildarlög) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[10:55]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um frv. um landmælingar og kortagerð, mál sem hefur verið til athugunar hjá umhvn. og liggur hér fyrir til 2. umr. samkvæmt tillögu nefndarinnar sem skiptist í meiri og minni hluta. Sá fulltrúi sem var inni á þingi fyrir mig fyrir nokkru síðan, Guðmundur Beck, undirritar álit minni hlutans og styð ég þau sjónarmið sem þar koma fram í því áliti og hv. framsögumaður minni hlutans, Kristín Halldórsdóttir, hefur mælt fyrir.

Málefni landmælinga og kortagerðar hafa legið hjá garði á vegum íslenskra stjórnvalda mjög lengi. Þar á meðal að búa eðlilega um stofnunina lögum samkvæmt en ekki síður, og kannski það sem meira máli skiptir en lagaramminn, þær fjárveitingar sem stofnunin hefur fengið á undanförnum mörgum árum og eru allsendis ófullnægjandi til að sinna þeim verkefnum sem brýn eru á þessu sviði, alveg sérstaklega með tilliti til rannsóknastarfsemi í landinu en einnig varðandi upplýsingar af hvers kyns tagi þar á meðal varðandi náttúru landsins, varðandi jarðamörk og fleira svo örfá dæmi séu nefnd að því lútandi.

Ég vil nefna það hér, virðulegur forseti, að þessi efni, landmælingar, hafa verið til umræðu á fyrri stigum og m.a. á borði ríkisstjórnar. Ég nefni það að tvívegis gerði sá sem hér talar atrennu að því að fá málefni Landmælinga Íslands inn í málefnasamning ríkisstjórnar svo brýnt sem mér sýndist það vera. Þetta gerðist 1980 og leit út fyrir að það yrði tekið inn í það safn þeirrar ríkisstjórnar sem þá var mynduð en einnig 1988. En í bæði skiptin féll óskin um stefnumörkun í málefnum Landmælinga Íslands og landmælinga almennt fyrir borð í útstrikunum þeirra sem héldu á penna við lokagerð stjórnarsáttmála. Ég nefni þetta vegna þess að þetta er dæmi um hversu afdrifaríkt það er að taka ekki á svona grunnþáttum og binda sammæli um það af hálfu ríkisstjórnar. Það var sem sagt ekki gert og af þeim sökum erfiðara fyrir þá ráðherra sem á héldu að reyna að fá úrbætur og þoka málum til betri vegar. Því stöndum við í þeim sporum sem við erum í nú að starfsemi landmælinga hérlendis, bæði það sem er á sviði Landmælinga Íslands og þeirra annarra aðila sem vinna að þessum málum, mælingum og kortagerð, er í mjög bágu horfi svo ekki sé fastara að orði kveðið. Hefur svo farið að ríkisstofnanir sem þurfa nauðsynlega á landmælingum að halda hafa talið sig knúðar til að leysa sín mál af eigin frumkvæði fram hjá Landmælingum Íslands og í þeim efnum hefur ekki verið gætt þeirrar samræmingar sem sjálfsögð og eðlileg er bæði varðandi mælikvarða sem og annað og niðurstöður af því starfi ekki verið almennt aðgengilegar í útgefnum kortum svo sem eðlilegt væri.

[11:00]

Til að skýra aðeins frekar það sem ég er að vísa til vil ég nefna það sem snýr að þeim aðilum sem hafa verið að rannsaka vatnsorkuauðlindir landsins, þ.e. Orkustofnun og önnur opinber eða hálfopinber fyrirtæki, sem hafa í rauninni verið aðallandmælingastofnun landsins um áratugi án þess hins vegar að þær afurðir liggi aðgengilegar fyrir í langtum stærri mælikvarða, í mörgum tilvikum, en þau kort sem Landmælingar Íslands hafa gefið út og aðgengileg eru almenningi. Og ég sé út af fyrir sig ekki að mikil bót sé ráðin á því með þeirri stefnu sem hér er mörkuð samkvæmt tillögum meiri hlutans.

Ég vek athygli á að ein af þeim hreinsunum sem fram hafa farið í frv. að tillögu meiri hluta umhvn. er að fella niður 9. gr. frv. með vísun til þess að hún sé óþörf. Þar er þó kveðið á um það, virðulegur forseti, að ,,Landmælingar Íslands láti gera áætlun til fjögurra ára í senn um verkefni stofnunarinnar sem taki m.a. mið af fyrirhuguðum framkvæmdum innan lands er krefjast landmælinga eða kortagerðar. Skal áætlunin byggjast á raunhæfum fjárhagsforsendum og verkefnum raðað í forgangsröð.`` Greinin er þó lengri. Hvað er hér á ferðinni? Hvers vegna sér meiri hluti hv. umhvn. ástæðu til að fella út þau vægu ákvæði sem eru um áætlun af hálfu þessarar opinberu stofnunar? Þetta á bara að ráðast frá ári til árs eins og um hnútana er búið með ákvörðunum sem ganga fyrst og fremst á milli ráðherra og forstjóra stofnunarinnar fram hjá stjórn hennar. En það hefur verið dregið verulega úr hlutverki stjórnar stofnunarinnar samkvæmt tillögu meiri hlutans. Ég sé því ekki að það verði auðvelt hlutverk fyrir þá stjórn að sinna einhverju vitrænu hlutverki eins og hér er um hnútana búið. Vissulega geta menn leitað að stoð í lögum eins og meiri hluti nefndarinnar gerir í nál. sínu um breytingu á lögum sem hér voru gerð um svokölluð starfsmannalög sem veita forstöðumönnum ríkisstofnana mun meiri völd að því er varðar mannahald og margt fleira. En þó er gengið mun lengra hér í þessum efnum, sýnist mér, en þörf er á með tilliti til þeirra laga. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því: Er þetta samkvæmt óskum frá ráðuneytinu? Virðulegur forseti, ég leyfi mér að beina fyrirspurn til ráðherra um það að fella úr frv., sem var vissulega meingallað í ýmsum greinum og aðallega að því leyti að það markaði óljósa og óskýra stefnu, hvað væri Landmælinga Íslands og hvað væri annarra aðila m.a. En er það vilji hæstv. umhvrh. að engin stefnumótun verði gerð til lengri tíma í sambandi við landmælingar og kortagerð og þá m.a. með tilliti til þess hvað skuli vera hvers í þessum efnum að því er opinbera aðila varðar? Siglingaljósin eru vægast sagt dauf og óskýr og hafa forsendur fyrir vitrænu starfi að þessum málum í rauninni versnað við að fella út það sem hér er gert ráð fyrir af hálfu meiri hluta nefndarinnar, sem leggur til að III. kafli laganna falli brott.

Í sambandi við verkaskiptingu ráðuneytis, forstjóra og stjórnar stofnunarinnar þá held ég að menn séu að setja þar fram skil og stefnumörkun sem er í senn óljós og ekki skynsamleg. Ef verið er með stjórnir fyrir ríkisstofnanir þá verður að ætla þeim verulegt hlutverk og annað og meira hlutverk en hér er gert. Auðvitað ætti stjórn þessarar stofnunar að koma að því að marka stefnu til lengri tíma, með fjögurra ára áætlun --- það má vera það ef menn vilja ekki fimm ára áætlanir, eða til lengri tíma sem gæti verið þörf á, að líta til lengri tíma í þessum efnum. Minni ég þá á það atriði, sem minni hluti nefndarinnar vekur sérstaka athygli á sem er starf fjarkönnunarnefndar þar sem vísað er inn á svið hvers þýðing fer ört vaxandi, og hefði auðvitað átt að fresta afgreiðslu þessa máls þangað til sú mynd lægi skýrt fyrir og fara ofan í ýmsa sauma sem eru óskýrir og flausturslega unnir að mínu mati af hálfu meiri hluta umhvn. e.t.v. í samráði við umhvrn. þó að mér sé það ekki að öllu leyti ljóst enda var ég ekki í þinginu þegar lokavinna fór fram varðandi frv. en kom að því á fyrri stigum í vinnu nefndarinnar.

Ég vil þá nefna, virðulegur forseti, til viðbótar einn þátt sem snertir þetta mál og það er staða Landmælinga Íslands og horfur hjá því fyrirtæki, hjá þeirri stofnun, á næstu árum. Mönnum er kunnugt um þá ákvörðun hæstv. umhvrh. að flytja þá stofnun, Landmælingar Íslands, upp á Akranes. Það liggur jafnframt fyrir að ekki hefur komið fram vilji hjá neinum, utan forstjóra stofnunarinnar, síðast þegar ég frétti, um að fylgja þessum fyrirhugaða flutningi, að fylgja stofnuninni á nýjan aðsetursstað. Það er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur, virðulegur forseti, af því hvernig hér hefur verið haldið á málum og hvernig er haldið á málum af hæstv. ráðherra sem að mínu mati anaði út í þetta fen --- að taka ákvörðun eftir flausturslegan undirbúning þáv. hæstv. umhvrh. að halda áfram þeirri stefnumörkun að flytja þessa ríkisstofnun innan höfuðborgarsvæðisins, því Akranes er nú orðið hluti af höfuðborgarsvæðinu svo gott sem þó kannski sé svolítið umhendis að sækja vinnu, þrátt fyrir göng á milli þessara staða. En þetta hefur orðið til þess að eitra, að mínu mati eins og ég þekki til, andrúmsloft í þeirri opinberu stofnun, og setja aðstöðu þeirra sem þar starfa í mikla óvissu og ávinningurinn af þessu í byggðapólitísku samhengi er sannarlega óljós. Ég hef ítrekað hér á Alþingi varað við því hvernig á þessum málum hefur verið haldið í þau skipti sem einstakir ráðherrar hafa ætlað að ganga í flutning ríkisstofnana, að rífa þær upp úr umhverfi sínu og planta þeim niður að eigin geðþótta, án fullnægjandi undirbúnings og athugana á málum, og án þess að þingvilji liggi fyrir. Ég minni á það þegar stofnun var flutt austur á land, Skógrækt ríkisins, þá var það gert að vel ígrunduðu máli og að fengnu samþykki Alþingis. Ekkert slíkt liggur fyrir í sambandi við þetta mál. Ég spyr hæstv. umhvrh., virðulegur forseti, og óska eftir því að hæstv. ráðherra geri skýra grein fyrir því við 2. umr. málsins hvernig horfur eru í sambandi við væntanlegan flutning þessarar ríkisstofnunar, sem hér er verið að setja ný lög um, á nýjan stað og hvernig hæstv. ráðherra hyggst halda á því máli. Hvaða fjárveitingar eru það sem ráðgert er að verja í því skyni nú og á allra næstu árum? Hvað kostar þetta fyrirtæki? Hvaða horfur eru á að verði um það sérmenntaða starfslið sem vinnur nú við Landmælingar Íslands og hvernig metur hæstv. ráðherra stöðu þessa máls? Er hæstv. ráðherra ákveðinn í því að fylgja þessu máli fram hvað sem á dynur og hvernig svo sem horfir í sambandi við störf þess fólks sem nú vinnur að þessum málum og þar sem erfitt getur verið að fylla í skörðin með viðunandi hætti? Þetta tengist auðvitað náið því máli sem við erum að fjalla um, þ.e. framtíð stofnunarinnar Landmælingar Íslands og þeirrar mikilvægu starfsemi sem brýn þörf er á að efla en ekki veikja og sem þetta frv. tekur afskaplega lítið á og með röngum hætti að vissu leyti. Og alveg sérstaklega er ekki sköpuð aðstaða til að marka neina framtíðarstefnu í málefnum stofnunarinnar og er það lítt skiljanlegt hvers vegna meiri hluti nefndarinnar heldur þannig á máli.

Síðan eru minni háttar mál sem snúa t.d. að menntunarkröfum í þessu sambandi. Ég tel að ef ástæða hefði verið til að veita undanþágur vegna núverandi aðstæðna, t.d. varðandi forstjóra stofnunarinnar, þá hefði vel mátt ganga frá því með ákvæði til bráðabirgða og hefði ég haft fullan skilning á því. En að marka þá stefnu sem meiri hlutinn gerir, þ.e. að gera ekki kröfur í lagaramma um háskólamenntun þess sem á að veita þessari mjög svo sérhæfðu starfsemi forstöðu í framtíðinni, það finnst mér á misskilningi byggt og ekki rétt á máli haldið. Það er hins vegar lítið mál í heildarsamhengi þessa máls og ef áhyggjuefnin væru ekki önnur og stærri þá væri ekki ástæða til að hafa þungar áhyggjur af því.