Skattaleg meðferð lífeyris og bætur almannatrygginga

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 16:02:45 (6515)

1997-05-14 16:02:45# 121. lþ. 125.4 fundur 573. mál: #A skattaleg meðferð lífeyris og bætur almannatrygginga# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[16:02]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin svo langt sem þau náðu. Það er út af fyrir sig rétt sem ráðherrann nefndi að vissir þættir tengjast heilbr.- og trmrn. en hér er í rauninni um samtengt mál að ræða þannig að það er þá spurningin hvort báðir ráðherrar þurfa ekki að svara fyrir um sömu atriði.

Mér er kunnugt um að starfshópur hefur verið að vinnu á vegum hæstv. heilbr.- og trmrh. með þátttöku aðstoðarmanns fjmrh. Þar ætti þá að vera tryggt samráð og samræmi svo sem nauðsynlegt er í sambandi við þessi efni þar sem hvað grípur inn á annað. Ég tel sjálfsagt mál að gerðar verði leiðréttingar að því er varðar þær breytingar sem almennt hafa orðið í þjóðfélaginu og sem hæstv. fjmrh. gaf vonir um að mundu sjá dagsins ljós á næstu dögum. Við skulum vænta þess að þar verði tekið á með sanngjörnum og eðlilegum hætti. Ég vil ekki fella neina dóma á meðan ekki er komið í ljós hvað þarna kemur frá hæstv. ríkisstjórn. Hitt er jafnnauðsynlegt og ekki síður brýnt, virðulegur forseti, en það er að hinar félagslegu bætur verði teknar til sérstakrar meðferðar að því er varðar tenginguna við skattalega meðferð.

Eins og hæstv. fjmrh. nefndi getur þetta oft og tíðum valdið miklu misræmi. Ég undirstrika að þrátt fyrir það sem hæstv. ráðherra sagði um að bætur næðu ekki skattleysismörkum er það oft svo að ef við bætist félagslegur stuðningur þá fer það upp í þau mörk þannig að um skattlagningu er að ræða og beinlínis refsigjöld. Það er slíkt óréttlæti sem verður auðvitað að afnema fyrr en seinna.