Suðurlandsskógar

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 15:19:17 (6633)

1997-05-15 15:19:17# 121. lþ. 127.8 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[15:19]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er athyglisvert mál á ferðinni og vafalaust gagnlegt mál ef vel verður að staðið og fjárveitingar koma til verkefnisins sem hér er um að ræða. En það er einn þáttur þessa máls sem ég hlýt að gera athugasemdir við og það er sú einkennilega afstaða af hálfu landbn. að áætlun af þessum toga fari ekki í mat samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Mér er með öllu óskiljanlegt af hverju ekki er tekið fram af hálfu nefndarinnar að hún fallist á það að málið verði unnið með þeim hætti. Það virðist sem svo að hjá ýmsum á Alþingi og utan þings sé uppi sá misskilningur að málsmeðferð af þeim toga að mál fari í mat á umhverfisáhrifum feli í sér einhverja andstöðu við mál sem slíkt. Þessi farvegur er einmitt til þess ætlaður að allt fari sem best úr hendi og að farið sé að settum lögformlegum reglum varðandi framkvæmdina, að öll sjónarmið geti komið fram og síðan geti skipulagsyfirvöld og viðkomandi ráðherra tekið á málinu eins og farvegur er markaður fyrir í lögunum. Það ætti ekki að vera neinum, að mínu mati, mótdrægt að svona háttur sé á hafður. Hvers konar sjónarmið er það að sama stofnun og er ætlað að móta tillögurnar verði í rauninni sú stofnun sem kveður upp úr um það hvernig á er haldið? Þetta rímar ekki saman og ég tel útilokað að afgreiða lög um svona stór mál á Alþingi án þess að það liggi skýrt fyrir hvernig með verður farið.