Suðurlandsskógar

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 15:39:24 (6639)

1997-05-15 15:39:24# 121. lþ. 127.8 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[15:39]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sjónarmið liggur fyrir frá ríkisstofnunum sem heyra undir hæstv. ráðherra og eiga að fara með hagsmunagæslu að því er varðar skipulagsmál og í sambandi við náttúruvernd að þessar stofnanir leggja á það áherslu að fram fari mat á umhverfisáhrifum í sambandi við þessa áætlun og framkvæmdir sem að henni lúta. Þessi sjónarmið liggja fyrir og það er mjög einkennilegt ef hæstv. ráðherra treystir sér ekki, með það í höndunum, til þess að gefa yfirlýsingar um það á Alþingi í tengslum við þetta mál að hann muni beita sér fyrir því að slíkt mat fari fram og nýta heimild í lögum þar að lútandi. Það er mjög tortryggilegt. Mér finnst alveg ótækt að þannig sé haldið áfram vinnu að þessum þýðingarmiklu málum án þess að það liggi fyrir. Það er að sjálfsögðu ekkert á það treystandi ef um er að ræða bara heimild í höndum hæstv. ráðherra og þó að hæstv. ráðherra segist ætla að halda fund með stofnunum sem hafa þegar lýst vilja sínum í málinu. Málið á að vera ljóst og skýrt og hæstv. ráðherra ekkert að vanbúnaði að gefa hér almenna yfirlýsingu um það að hann ætli að láta fara að þessum lögum og nota heimild þar að lútandi. Ég skora á hæstv. ráðherra að gefa slíka yfirlýsingu hér og ég er sannfærður um að það mun greiða fyrir þessari áætlun almennt og auðvelda einstakar framkvæmdir innan ramma áætlunarinnar, ef áætlunin sem slík, þ.e. almenn viðhorf sem að henni lúta, vinnureglur og verklag, fara í mat á umhverfisáhrifum. Það væri stórt framfaraspor sem þar væri tekið og það er algerlega ástæðulaust að vera að tortryggja þá aðila sem óska eftir slíkum vinnubrögðum og dregur ekkert úr gildi þess undirbúnings sem t.d. Skógrækt ríkisins hefur lagt og er vissulega í mjög jákvæða átt hvernig þar hefur verið haldið á málum.