Vegáætlun 1997 og 1998

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 19:49:53 (6678)

1997-05-15 19:49:53# 121. lþ. 127.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[19:49]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Er þetta virkilega svona? Er sambúðin með þeim hætti sem hér er dreginn fram? Hv. formaður samgn. notar hér andsvararétt sinn til þess að rifja upp þær fréttir að Framsfl. hafi lagt til að skera enn frekar niður í vegamálum til þess að geta lyft svolítið heilbrigðismálunum. (StG: Ósannindi.) Þetta er svona. Ósannindi, segir hv. þm. Stefán Guðmundsson. En þetta var nú mælt hér af formanni samgn., í rauninni ekki undir stórri rós. Það var alveg ljóst. Það var alveg ljóst hvað hér var sagt, hvaða fréttir voru hér fluttar.

Mér sýnist að heldur fari að minnka trúverðugleiki þess sem hv. þm. Stefán Guðmundsson sagði, ef rétt er eftir haft, en hv. þm. notar vafalaust rétt sinn til þess að leiðrétta.

Varðandi stöðuna almennt í því sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kom að, þá er hún langtum alvarlegri en samanburðartölur bera vitni, þó að nógu ljótar séu, miðað við álagið á vegakerfið í landinu, miðað við það sem er að gerast í sambandi við þungaflutningana á vegakerfinu í landinu sem mun leiða til þess að menn þurfa að verja langtum meira fjármagni en ella þegar burðarlag veganna er rústað, þegar vegirnir eru komnir í rúst, þegar brýrnar hafa gefist upp. Og á meðan unnið er að því að bæta þar úr, vex sú mismunun sem einstök byggðarlög og landshlutar búa við varðandi samgöngumál og atvinnumál um leið því að þetta er nátengt atvinnulífinu í landinu sem byggir sitt á því að vegakerfið þoli það álag sem nú er og á eftir að vaxa frekar en minnka í framtíðinni.