Álbræðsla á Grundartanga

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 16:14:01 (6720)

1997-05-16 16:14:01# 121. lþ. 128.2 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[16:14]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. umhvrh. er farinn að taka eigin orð til baka. Hann sagði þjóðinni það í fjölmiðlum í janúarmánuði að hann yrði að viðurkenna að þessi reglugerð sem hann hefði gefið út í júlí í fyrra hefði greinilega ekki þá lagastoð sem æskilegt væri. Nú er verið að taka það til baka. Hvers konar málflutningur er þetta, virðulegur forseti? Hvað segir hæstv. umhvrh. um líkurnar eða hver þarf að reiða fram fjármuni ef dómstólar dæma þessa gjörninga hans ólögmæta og þar með það starfsleyfi sem út hefur verið gefið?

Varðandi kostnað þá er það rétt að það getur verið álitaefni hvað á að reikna kostnaðinn, kostnaðinn við virkjanir og fórnarkostnað af því tagi. En það er sjálfsagt að gera það og það vill nú svo til að það hefur verið ýmis þróun í sambandi við viðhorf og mat á þessum kostnaði á undanförnum árum og áratugum.

Hæstv. ráðherra var að spyrja um viðhorf mín til þessara mála og þátttöku mína í þeim fyrir 17 árum síðan. Ég er ekkert feiminn að fara yfir þau efni og get gert það lið fyrir lið við hæstv. ráðherra og þar á meðal það að þegar teknar voru ákvarðanir 1981 í sambandi við raforkuver var gengið í það af þáv. iðnrh. að tryggja að það sem sett var í forgangsröð númer eitt í sambandi við vatnsmiðlanir væri að tryggð yrði verndun þess. Og það var metið svo af náttúruverndaryfirvöldum þess tíma að það væri skynsamlegt skref og í kaup takandi að gera það enda er nauðsynleg að setja upp ákveðna forgangsröðun í þessum málum og reyna að fylgja henni en ég hef ekki orðið var við það hjá hæstv. núv. ráðherra.