Álbræðsla á Grundartanga

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 16:18:37 (6722)

1997-05-16 16:18:37# 121. lþ. 128.2 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[16:18]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held það væri skynsamlegt fyrir hæstv. umhvrh. að líta aðeins á rökstuðninginn í þeim álitsgerðum sem fyrir liggja og einnig að hæstv. ráðherra reyni að stafa sig sjálfur, virðulegur forseti, í gegnum gildandi lög í landinu því það þarf enga lögspekinga til að sjá með hvaða hætti hæstv. ráðherra hefur gengið gegn lögum í sambandi við reglugerðarsetningu. Það þarf bara sæmilega læsan mann og þokkalega skynsemi og þarf engin digur lögfræðiálit til þess. En ef farið er að flagga lögfræðingum þá bið ég hæstv. ráðherra í fyrsta lagi að endurtaka það ekki að hér sé um álitsgerð Háskóla Íslands eða lagadeildar að ræða. Hér er um álitsgerð frá lögmanni að ræða, sem er Eiríkur Tómasson. Hann hefur reynst vilja túlka lög sem tengjast þessum málum með sérstökum hætti og túlkun á mengunarvarnareglugerð haustið 1995 var úrskurðuð ógild, og ég geri satt að segja ekki mjög mikið með þetta álit en það fjallar að verulegu leyti um allt annað heldur en þessa reglugerð og reglugerðarákvæði. En fyrir liggur, virðulegur forseti, það álit þriggja manna sem skipa úrskurðarnefnd sem vinna að því trúnaðarverkefni að meta athugasemdir sem til hennar berast, að þessi reglugerð fái að öllum líkindum ekki staðið lög. Voru þeir þó ekki beinlínis spurðir en þeir koma því áliti sínu á framfæri í sambandi við úrskurð sinn. Sama gildir um þann lögmann sem árum saman hafði það hlutverk að vera formaður þessarar sömu úrskurðarnefndar, Magnús Thoroddsen, og er álit hans algerlega ótvírætt að þessu leyti. Svo kemur hæstv. ráðherra hér og reynir að klóra í bakkann, það er kannski skiljanlegt í þeirri hörmulegu stöðu (Forseti hringir.) sem hann hefur komið þessu máli með því að gefa almenningi langt nef með gjörningum sínum og hafa ekki fyrir því að horfa fram fyrir fæturna á sér áður en reglugerðunum er ungað út, ólögum eftir ólög í þessu máli.