Álbræðsla á Grundartanga

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 17:50:22 (6737)

1997-05-16 17:50:22# 121. lþ. 128.2 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[17:50]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég hafði nú ekki ætlað mér að taka aftur til máls við 2. umr. um þetta mikilsverða mál, en af því að áskoranir eru uppi um það af hálfu stjórnarliða, hv. 2. þm. Vestf., að málin verði rædd betur og ítarlegar, þá er auðvitað óhjákvæmilegt annað en að verða við því og fara svolítið yfir málið í tilefni af óskum hans, bæði litið til liðins tíma og að einhverju leyti einnig miðað við framtíðina.

Hér kom hv. þm., talsmaður Framsfl. í þessum málaflokki ásamt hv. formanni iðnn. sem er auðvitað gildur talsmaður líka fyrir utan ráðherrann sem hins vegar hefur ekki sagt mikið í umræðunni og hefur þegar verið á það bent, heldur lætur sína liðsmenn spreyta sig í henni og hef ég síst á móti því.

Hv. 2. þm. Vestf. fór að ræða málin frá því í kringum 1980 þegar sá sem hér talar gegndi því mikilvæga verkefni að fara með iðnaðarmál í ríkisstjórn Íslands og það er bæði ljúft og skylt að fara nokkrum orðum um þá stöðu sem þá var uppi og einnig að rifja upp ýmislegt af því tilefni miðað við stöðu mála nú.

Þá er það fyrst til að taka að á 8. áratugnum gerðist það tvívegis að það urðu verulegar breytingar á orkuverði í heiminum. Það var það sem kallað var á þeim tíma olíuverðssprenging sem varð til þess að verðforsendur á orku almennt breyttust mjög mikið frá því sem verið hafði og þau ríki, sem öðrum fremur ráða yfir olíulindum, náðu saman í samtökunum OPEC, fyrst 1973 sem leiddi til hinnar fyrri verðsprengingar á orkuverði, sérstaklega á olíuverði en hafði auðvitað almenn áhrif og síðan endurtók þetta sig 1978/1979. Menn vissu vissulega ekki þá hversu varanleg þessi orkuverðshækkun yrði en það voru uppi spár um það á þeim tíma að hér væri um varanlega breytingu að ræða á verðforsendum á orku. Hér var um að ræða margföldun á verði olíu. Ég hef ekki tölur á hraðbergi hér en ég læt nægja að vísa til þess. Það var margföldun og gert ráð fyrir því að orkuverðið héldist til lengri tíma langtum hærra heldur en verið hafði. Og það má segja að hluti af þessari hækkun hélst en staða olíuframleiðsluríkjanna reyndist hins vegar veikari og samheldni þeirra brothættari en verið hafði gert ráð fyrir svoleiðis að talsvert af þessari hækkun gekk til baka og orkuverð almennt hefur verið mun lægra á heimsvísu nú undanfarin ár heldur en margir höfðu gert ráð fyrir.

Nú vil ég að það komi fram að ég tel að eitt af því sem þyrfti að liggja fyrir og er jákvætt --- það kannski kemur svolítið á óvart og svolítið öðruvísi fram heldur en hjá sumum sem eru að tala um orkuverð --- að ég tel að fátt sé í rauninni mikilvægara fyrir heimsbúskapinn og framtíð efnahagsstarfsemi í heiminum heldur en það að verð á orku almennt séð hækki til verulegra muna frá því sem verið hefur. Þetta segi ég vegna þess að menn hafa gengið í þessa sjóði frá liðnum tíma, liðnum jarðsöguöldum og þá er ég þar að vísa til eldsneytisins, og ausið úr þeim og byggt á því iðnþróun og efnahagslega sókn í iðnríkjum heimsins á undanförnum mörgum áratugum og öldum ef allt er rakið til upphafs iðnbyltingar, á óforsvaranlegan hátt sem leitt hefur vissulega til langtum hraðari svokallaðrar efnahagsþróunar en ella hefði verið. En á sama tíma eru menn að ganga á framtíðarsjóði, mikilvægar auðlindir sem mannkynið hefði þörf á að geta búið að til langs tíma litið. Og eitt af því sem er viðsjárvert í heiminum nú um stundir og verður það lengi eru áhrif þessarar efnahagslegu sóknar einstakra ríkja, mannsins og mannkyns til efnahagslegrar velsældar sem svo er kölluð, en sem er nú eins og við blasir farin að ógna framtíð manna. Við erum farin að sjá fram á afleiðingarnar í ýmsum greinum sem eiga eftir að taka á sig mun alvarlegri myndir ef fram heldur sem horfir. Þetta er kannski sú staðreynd sem þörf væri á að allir hefðu í huga þegar fjallað er um efnahagsmál, sú staðreynd að sóknin eftir efnahagslegum gæðum á ekki að vera sá drifkraftur og eins ráðandi og hún hefur verið á liðnum tíma vegna þess að það er þessi sókn og sólund á náttúruauðlindum og spilling umhverfis sem hlýst af óhóflegri orkunotkun sem ógnar framtíð mannkynsins.

Þessi sýn til mála hefur vissulega tekið breytingum frá þeim tíma sem við vorum að ræða hér og hv. 2. þm. Vestf. gaf tilefni til, þ.e. í kringum 1980. Þá voru þessar staðreyndir ekki með sama hætti uppi á borði að því er varðar t.d. áhrif orkunotkunar á loftslag og loftslagsbreytingar í heiminum. Að vísu er það svo að þetta var komið fram þegar í kringum 1970 og í riti sem sá setti saman sem hér talar árið 1973 og kom út í ársbyrjun 1974 undir nafninu ,,Vistkreppa eða náttúruvernd`` er einmitt vikið að áhrifum orkunotkunar og að þeirri losun á gróðurhúsalofttegundum sem vísbendingar væru um að mundu hitta mannkynið fyrir ef þær vísbendingar reyndust réttar. Síðan hefur það komið á daginn og það er það sem gerðist á 9. áratugnum, að menn fóru af alvöru að velta fyrir sér: ,,Hvert vísar þetta? Hverjar eru vísbendingarnar af þessari mengun út í sameiginlegan lofthjúp?`` Fyrst urðu áhyggjurnar vegna hinna svokölluðu ósoneyðandi efna og menn sáu að það var að gerast að með notkun þeirra blasti við að hlífðarhjúpur ósonsins yrði eyddur upp á ekki löngum tíma með þeim hrikalegu afleiðingum sem það hefði í för með sér. Heimsbyggðin brást við með því að bindast samstökum um að leggja af notkun hinna svonefndu ósoneyðandi efna og gerð var sérstök bókun við alþjóðasamning sem kennd er við Montreal og menn náðu saman um það og Íslendingar eru þátttakendur í því ferli. Enn er þessi hlífðarskjöldur jarðar að eyðast vegna þess að enn er um verulega notkun ósoneyðandi efna og losun þeirra að ræða frá því sem áður var og auk þess eru að koma fram áhrif af efnahagsstarfsemi liðins tíma sem taka langan tíma að ná jafnvægi vegna þess að ósoneyðandi efni berast á löngum tíma upp í hin hærri loftlög jarðar, og notkun þessara efna á liðnum áratugum á eftir að koma fram í eyðingu þessarar hlífar hátt í lofthjúpnum.

[18:00]

Síðan gerist það að menn átta sig á því að notkun orku og losun gróðurhúsalofttegunda af þeim sökum hefði önnur og kannski enn þá alvarlegri áhrif í för með sér, vísbendingarnar um það og settir voru á fót starfshópar færustu vísindamanna til þess að fara ofan í það sem leiddi til þeirrar niðurstöðu að gerðar voru tillögur um þann loftslagssamning sem samþykktur var og frá var gengið í aðdraganda ráðstefnunnar í Rio de Janeiro 1992 til þess að bregðast við þeirri vá sem hlýst að losun þessara lofttegunda, svokallaðra gróðurhúsalofttegunda. Inn í það samhengi erum við að tala nú á árinu 1997 og hefur auðvitað breytt á róttækan hátt öllum forsendum í sambandi við framtíð mannkyns og ekkert minna, þar á meðal og ekki síst spurningunni um framtíð iðnríkja og þeirra landa sem örast sækja í efnahagslegan vöxt og nota meiri orku en sá hluti jarðarbúa og reyndar stór meiri hluti jarðarbúa sem leggur minna af mörkum í þessu sambandi. Þessar staðreyndir hafa að sjálfsögðu breytt forsendunum í sambandi við orkunotkun og orkufrekan iðnað sem og aðra slíka starfsemi frá því sem var fyrir 20 árum og það er jafngott að menn fari að horfast í augu við það að ekkert þýðir að tala um slíka starfsemi út frá einhverri óskhyggju fyrri tíðar þegar ekki blöstu við þær niðurstöður sem nú liggja fyrir í þessum efnum.

Við erum að gagnrýna það á sama tíma og við Íslendingar erum þátttakendur í því að gangast undir lagalegar skuldbindingar um minnkun á losun gróðurhúsaloftegunda skuli stefnt í það af stjórnvöldum að auka stórlega þá losun umfram þau mörk sem menn eru að ná saman um að stöðva sig á. Fyrsta ákvörðun 1992 laut að því að stöðva sig miðað við losun 1990 og nú eru markmiðin að skera niður með því að draga úr losuninni stig af stigi og þar verði að sjálfsögðu þau ríki sem standa sæmilega efnahagslega að ríða á vaðið og taka meira á sig en önnur. Um það snýst málið ella erum við að dæma meiri hluta mannkyns varanlega á fátæktarstigið svo ekki sé sagt á hungurstigið.

Þetta eru þær forsendur sem blasa við þegar við ræðum þessi efni. Vissulega er það svo að þær orkulindir sem við viljum telja auðlindir í landinu eru með þeim hætti að þeim fylgir ekki sú losun mengandi efna sem fylgir af orkuframleiðslu með jarðeldsneyti. En strax og kemur að nýtingunni, að orkunotkuninni eða stóriðjunni, þá erum við komin beint inn í það samhengi og það er það sem við erum að ræða hér um og það er það sem við erum að gagnrýna og það er það sem við erum að hvetja til, að menn taki tillit til þessara nýju og breyttu viðhorfa, þegar við erum að ræða þessi mál. Þess vegna getur hvorki sá sem hér talar né aðrir þingmenn sem sátu á Alþingi á árum áður rætt þessi mál á sömu forsendum eða út frá sömu viðhorfum og þeir kunnu að hafa túlkað í fortíðinni. Það gengur ekki upp því að fyrir liggur ný þekking, ný sjónarmið, nýjar skuldbindingar og nýtt stefnumið í þessum málum.

Virðulegur forseti. Sem viðbrögð við olíuverðssprengingunni á áttunda áratugnum var það eitt af stefnumiðum, sem m.a. voru ríkjandi í þeirri ríkisstjórn sem sá sem hér talar sat í 1978--1983, að við hlytum að keppa að því að nota orkulindir okkar til þess að draga úr notkun á innfluttri orku, þ.e. olíu. Mjög mikið átak var gert á þessum árum í þá veru að útrýma eða draga úr og helst að losna við notkun á innfluttu eldsneyti og þá sérstaklega til húshitunar og ráðist var í stórfelldar framkvæmdir að þessu leyti.

Það voru líka uppi önnur sjónarmið sem vörðuðu byggingu virkjana á þessum tíma að breyta frá því sem áður hafði verið og að koma upp virkjunum utan Suðurlands eins og það var orðað í umræðu þessara ára, utan hinna eldvirku svæða. Það var sett inn stjórnarsáttmála ríkisstjórnar sem við studdum báðir, hv. 2. þm. Vestf., og hv. núv. formaður iðnn., þá kominn inn á þing, frá ársbyrjun 1979, og veittum stuðning og það var að það markmið væri tryggt sem var sett inn í stjórnarsáttmála að næsta stórvirkjun í landinu, sem svo var kölluð, yrði reist utan hinna eldvirku svæða. Með þetta að leiðarljósi sem ákvæði í stjórnarsáttmála var sett í gang mjög mikil vinna og hert á athugunum sem höfðu verið í gangi áður til þess að ná landi um þetta stefnumið og það voru stofnanir í raforkuiðnaðinum, Orkustofnun, Rafmagnsveitur ríkisins, Landsvirkjun sem voru þátttakendur í því sem sérfræðistofnanir að reikna og bera saman og athuga möguleika í þessum efnum. Býsna mikil keppni á milli landshluta fór í gang eins og vill verða þegar slík markmið eru sett upp sem litu á það sem eftirsóknarvert atriði á þeim tíma að raforkuvirkjun kæmi akkúrat í þeirra landshluta. Yfir þetta efni væri fróðlegt að fara, virðulegur forseti, af því að mikil spenna var í þessum málum. Ég veit vel að hv. þm. Stefán Guðmundsson man vel þá tíð. Það gekk ekki svo lítið á í kjördæmi hv. þm. í því sambandi þar sem lá við að bræður berðust, mælt á fornaldarstíl með fornaldarorðalagi, en náðist þó að stilla af og stilla saman.

Ef litið er á kjördæmi mitt í þessu sambandi voru uppi talsverðar ryskingar, ekki innan svæðis heldur utanaðkomandi, því að eitt af fyrstu verkum þess sem hér talar á stóli iðnrh. var að reyna að tryggja það að svona miðlungsstór vatnsaflsvirkjun yrði innan Austurlands sem þá var tiltölulega einangrað, fékk að vísu haustið 1978 tengingu úr Norðurlandi við kerfið í Norðurlandi. Sem sagt, það var þar komið byggðalínulagningunni á þeim tíma en eftir sem áður höfðu menn áhyggjur af raforkuöryggi innan fjórðungs og mikið af aflinu sem þar var á þeim tíma var með eldsneyti og alveg sérstaklega varaaflið. Þá var tekin ákvörðun um virkjun sem fékk ekki mjög góða einkunn hjá sumum og var kennd við Bessastaði, kölluð Bessastaðaárvirkjun. Samt var ákvörðun tekin um hana haustið 1979 stuttu fyrir stjórnarslit eða raunar um það leyti sem stjórn var að sundrast á haustmánuðum, og við tók ráðherra, ágætur þáv. þm. Bragi Sigurjónsson, settist í stól iðnrh. um fimm mánaða skeið, og hans fyrsta verk var að afnema ákvörðun forvera síns varðandi þessa virkjun. Það blés því ekki byrlega fyrir Austfirðingum í þessum efnum á þeim tíma. Hins vegar gerðist seta kratanna í ríkisstjórn styttri en þeir höfðu vænst og náðu þeir ekki saman um myndun þeirrar viðreisnarstjórnar sem þá var draumur margra eins og síðar kom fram og það kom til allóvenjulegrar stjórnarmyndunar eins og menn rekur minni til og þá var sem sagt tekið til að athuga mál út frá þessum forsendum. Það þótti ekki fært og var ekki stuðningur við það að halda við þá fyrri ákvörðun sem um var að ræða og litið var til stærri virkjunar einnig á Austurlandi inn í þennan samanburð. Úr því varð sú samþykkt sem hv. þm. vitnaði hér til og er sjálfsagt að minnast í sambandi við þessi ár og liggur auðvitað fyrir.

Einnig var að því unnið á þessum tíma að halda áfram tengingu landshlutanna sem var mjög þýðingarmikið verkefni á þessum árum og ekki var aðeins haldið áfram byggðalínuhringnum til Suðausturlands heldur tekin ákvörðun um að loka honum. Næsta ríkisstjórn sem tók við ætlaði sér að vísu að stöðva þá framkvæmd sem var kölluð suðurlína, síðasta áfanganum en sem betur fer varð ekki úr því og niðurstaðan varð sem sagt sú hringtenging sem við búum við enn í dag og var mjög skynsamleg ákvörðun að mínu mati, treysti mjög öryggi landsins alls í raforkumálum og hefur gert margt kleift sem var ekki kleift áður.

Ef litið er síðan til orkunýtingar á þessum tíma vegna þess að eftir því var spurt hér sérstaklega af hv. 2. þm. Vestf., er vissulega rétt að það var litið til þeirra þátta einnig en það var út frá allt öðrum forsendum en nú eru lagðar í sambandi við þessi mál. Það sem var ríkjandi stefna af hálfu þess sem hér talar á þeim árum var að tryggt væri að þau iðnfyrirtæki sem til greina kæmi að stofnsetja og reisa væru undir forræði Íslendinga einnig hvað snerti yfirráð og meiri hluta hlutafjár. Þó að í einhverjum tilvikum kæmi til minnihlutaeignar útlendinga sem ekki var útilokað sem slíkt þá var þetta lykilatriði. Það var tekið skýrt fram að þróunin gæti ekki orðið hröð í þessum efnum vegna þess að uppbygging á þessu sviði hlyti að takmarkast við efnahagslega getu Íslendinga til fjárfestinga á þessu sviði. Þessi stefna var síðan brotin á bak aftur þó ekki gerðist mikið í stóriðjumálum þrátt fyrir miklar tilraunir þar að lútandi.

Það sem gerðist á Alþingi á þessum tíma var að sett voru lög um eitt slíkt fyrirtæki fyrir utan fyrirtæki sem við kölluðum minni fyrirtæki og steinullarverksmiðjan sem rætt hefur verið um hér var eitt af slíkum. Það var reynt við fleiri slík eins og saltverksmiðju á Reykjanesi (StG: Meðalstór.) já, meðalstór fyrirtæki og það var uppi sú hugsun að nota íhlutunarmöguleika stjórnvalda til þess að tryggja skynsamlega dreifingu á slíkum iðnaði út fyrir aðalþéttbýlissvæði landsins. Inn í það samhengi var einnig sú lögfesting sem hér var gerð vorið 1982 um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, fyrirtæki, sem tekið var af dagskrá af ríkisstjórn sem á eftir kom en ekki fyrr en á árinu 1986, eftir að leitað hafði verið með logandi ljósi samkvæmt formúlu Sjálfstfl. að erlendum eigendum af því að það var þá alveg eins og fram til þessa dags tabú, eins og kallað er á erlendu máli, ekki mátti heyra á það minnst að Íslendingar gerðust forræðisaðilar í slíkri uppbyggingu. Niðurstaðan af þeirri stefnu varð sú að fyrirtækið sem var komið í burðarliðinn á þeim árum og var sett á fót samkvæmt þeim heimildum sem þá voru, sumarið 1982, var tekið af dagskrá vegna þessarar stefnumótunar sem þarna kom upp.

Þetta eru örfá atriði sem ég vildi víkja að þó að af mörgu öðru væri að taka og fróðlegt væri að fara yfir það en ég hef ekki ætlað mér hér að fara djúpt ofan í þessar sakir þó að hv. 2. þm. Vestf. gæfi vissulega tilefni til.

Ég get þó ekki látið hjá líða, virðulegur forseti, að nefna það sem var kannski eitt mikilvægasta málið sem glímt var við á þessum tíma og við búum að enn vegna þess sem þá var gert og það var að breyta verðforsendum í sambandi við raforkusölu til stóriðju. Það var tekið upp af ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens í þeirri tíð í tengslum við deilur og málstök sem voru tekin upp gagnvart Alusuisse sem eigendur álbræðslunnar í Straumsvík og jafnhliða því sem fyrirtækið varð uppvíst að því að hlunnfara íslenska ríkið um stórar fjárhæðir að því er varðaði lögmæt gjöld samkvæmt samningi var reist krafan um það að stórhækka raforkuverðið til álbræðslunnar í Straumsvík.

[18:15]

Við þetta verkefni var glímt og það leiddi til þess, þó að því væri ekki endanlega lokið við stjórnarskiptin 1983, að málið var komið í þann farveg að ekki varð aftur snúið. Við þá málafylgju alla var fylgt því leiðarljósi sem hv. þm. Svavar Gestsson kom að að reyna að laða saman krafta á Alþingi um brýna hagsmuni okkar allra til þess að fá leiðréttingu á óhóflega lágu orkuverði í samningnum sem við vorum bundin við til langs tíma. Reynt var að vernda þá samstöðu eins lengi og kostur var. Ég er ekki að fara út í að rifja það upp að brestir urðu í þeirri samstöðu undir lokin, því miður. Tilfinnanlegir brestir urðu í því og leiddi til þess að um það leyti sem stjórnin var að ljúka kjörtímabili lágu fyrir tillögur með uppáskrift frá ekki aðeins stjórnarandstæðingum heldur hluta af ríkisstjórnarliðinu sem túlkaðar voru sem vantraust á þá sem stóðu í eldlínunni í baráttunni. En raforkuverðið var hækkað, það var tvöfaldað og gott betur, að vísu var sá samningur að hluta til tengdur álverði, en sem fært hefur íslensku þjóðarbúi og Landsvirkjun sem fyrirtæki ómældar upphæðir.

Í tengslum við þetta opnaði Landsvirkjun það sem áður hafði verið lokað með þátttöku stjórnskipaðra nefnda, að fara ofan í það hvert væri hið raunverulega framleiðslukostnaðarverð á raforku í landinu, bæði úr því kerfi sem þá var sem og til framtíðar litið. Það hafði verið talið óhugsandi áður vegna þess að litið var á það sem nánast heilagan sannleik að 6,8 mill, sem var raforkuverðið til álbræðslunnar í Straumsvík, væri prýðisverð og væri að borga upp stórvirkjanir með hraði en þegar upp var staðið var viðurkennt af Landsvirkjun að raunverulegt framleiðslukostnaðarverð raforkunnar í landinu væri milli þrefalt til fjórfalt hærra. Það var að sjálfsögðu mjög mikilvægt veganesti litið til framtíðar og ekki verið frá því horfið þó að menn séu nú að tefla á allt of tæpt vað að þessu leyti að mínu mati.

Virðulegur forseti. Ég neita því ekki að ég mundi líta talsvert öðrum augum á verkefnið ef ég kæmi að því nú en ég gerði þá. Því valda mjög breyttar aðstæður, sérstaklega á alþjóðavísu, og einnig í sambandi við þær forsendur sem eru nú lagðar í sambandi við uppbyggingu á orkufrekum iðnaði. Ég tel að þær fjárfestingar útlendinga, sem menn eru að leita eftir núna og leggja kapp á að draga til landsins, sé ekki leið Íslendinga til farsældar að halda áfram á þeirri braut. Ég ræddi þessi mál á 8. áratugnum m.a. við þann mæta mann, fyrrv. formann Framsfl. og um tíma forseta sameinaðs þings á þessum árum, Eystein Jónsson, bæði í einkasamtölum og með öðrum. Umræðan snerist m.a. um gildi þess fyrir Íslendinga að hafa forræði á atvinnurekstri sínum að því er varðaði yfirráð og spurninguna um það hvernig arðurinn úr slíkum rekstri verður notaður. Ég er enn sömu skoðunar og á þeim tíma vegna þess að ég tel að forsendurnar séu í rauninni óbreyttar þó að umhverfið sé verulega annað. Það er ekki þjóðhagslega til farsældar að ætla að byggja stóran hluta af atvinnulífi landsmanna á eignarlegum yfirráðum útlendinga hvort sem það eru einstaklingar eins og einhver Peterson sem væri skrifaður fyrir því eða þeir sem kannski eiga meira undir sér og eru kenndir við fjölþjóðafyrirtæki og auðhringa. Þetta er hluti af þeirri mynd sem ástæða er til að ræða.

Að lokum, virðulegur forseti, legg ég kannski mesta áherslu á hin breyttu viðhorf að því er varðar mengun og áhrif af atvinnurekstri sem felur í sér mikla orkunotkun inni í samhengi loftslagsbreytinganna, inni í samhengi ósoneyðingar og jafnhliða hina gífurlega miklu gengishækkun sem orðið hefur á lítt spjölluðu umhverfi og þeim miklu möguleikum sem eru því samhliða að vernda slíkt umhverfi og reyna að halda sér á öðru spori en þær þjóðir sem lengst hafa gengið í iðnvæðingu sem svo er kölluð.