Álbræðsla á Grundartanga

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 18:22:44 (6739)

1997-05-16 18:22:44# 121. lþ. 128.2 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[18:22]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef hv. þm. er að vísa til tillögu sem borin var fram undir heitinu ,,Um orkunýtingu`` ... (ÓÞÞ: Um virkjanir.) Sem sagt, frv. til laga um raforkuver. Ég mundi ekki bera það fram með þeim hætti sem þá var gert. Það mundi ég alls ekki gera. Ég tel að forsendur séu verulega aðrar nú. Ég tel t.d. síður en svo keppikefli fyrir Austfirðinga að ráðist verði í Fljótsdalsvirkjun í því formi eins og hún hefur legið fyrir. Það tel ég alveg auðsætt. Það hafa bæði orðið þær breytingar í viðhorfum og möguleikar til að taka þau mál með öðrum hætti og þær hugmyndir sem uppi eru um orkunýtingu eru einnig þannig að ég tel það síður en svo keppikefli, ég tala ekki um ef menn væru að hugsa um mengandi stóriðju inn í austfirska firði í því samhengi. Ég bendi á að það er engum landshluta til framdráttar að fá þær virkjanir einar út af fyrir sig. Því fylgir ekkert til frambúðar í störfum. Ef t.d. Fljótsdalsvirkjun væri reist, ætli það væru ekki 2--4 störf sem fylgdu slíkri framkvæmd varanlega? Það er ekki meira. Hvaða keppikefli er það ef viðkomandi landshluti nýtur svo einskis af þeirri uppbyggingu sem ætti að fara fram í krafti slíkrar virkjunar? Þá er ég þeirrar skoðunar að það sé ekki eftir að sækjast. Ég taldi hins vegar á þeim tíma og tel enn að það beri að sjálfsögðu að skoða möguleika á uppbyggingu á viðráðanlegum iðnaði en þá undir forræði okkar Íslendinga og umfram allt að tryggja að ekki sé um að ræða mengandi iðnað og ekki farið fram úr alþjóðlegum skuldbindingum að því leyti.