Suðurlandsskógar

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 21:40:20 (6772)

1997-05-16 21:40:20# 121. lþ. 128.20 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[21:40]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er bráðum öld liðin síðan tekið var skipulega til við að hlúa að skógum hérlendis. Þar voru í upphafi að verki danskir velunnarar Íslendinga sem kynntust aðstæðum hér á ferðum sínum. Einn hét Fritz, síðan kom Flensborg, svo nöfn séu nefnd í þessu samhengi, og þeir áttu hlut að því að stigin voru fyrstu skref í sambandi við friðun skóglenda hérlendis. Nokkru síðar eða 1907 var fyrsta löggjöfin samþykkt um skógrækt í landinu og þá var þegar búið að friða fyrstu birkiskógana. Þetta voru mikil og góð skref sem þá voru stigin í þessum efnum og þó að ekki hafi menn verið stórtækir e.t.v. á mælikvarða okkar nú til dags í þessum málum, þá voru þessi fyrstu skref býsna stór miðað við allar aðstæður.

Þarna var um að ræða aðgerðir um friðun skóganna á Hallormsstað og á Vöglum í Fnjóskadal. Þeir voru girtir, teknir undir friðun gagnvart beit, sérstaklega sauðfjár, og nokkrar tilraunir hófust fljótlega á þessum stöðum með ræktun og uppeldi plantna í smávegis mæli innfluttra, erlendra tegunda. Þó var fljótlega dregið í land með það og aðallega hugað að verndun íslenskra birkiskóga. Þáv. skógræktarstjóri danskur að ætt, Kofoed Hansen, hafði ekki mikla trú á því að hér væri hægt að koma til aðfluttum tegundum og var nokkur lægð í því um áratugi í raun þangað til nokkur breyting varð á á fjórða áratug aldarinnar.

Nú hafa Íslendingar allverulega reynslu af því að stunda slíkt ræktunarstarf. Að vísu verður að segja að kannski hafi menn farið að einhverju leyti offari á stundum í þeim efnum en á heildina litið hefur safnast verðmæt reynsla og þó að einhver mistök hafi verið gerð, þá er það til að læra af þeim og það hafa skógræktarmenn gert í mörgum greinum.

Það sem ég hef gert athugasemdir við og tel að menn þurfi að gæta sín í þeim efnum er hvað ríkisstofnunin, Skógrækt ríkisins, hefur seilst óþarflega mikið til áhrifa í sambandi við áhugamannafélögin, þ.e. skógræktarfélögin, en þannig var nú til þeirra hluta stofnað að þessi áhugafélagsskapur, skógræktarfélögin, Skógræktarfélag Íslands sem yfirstofnun þar, var stofnað í tengslum við Alþingishátíðina á Þingvöllum, ef ég man rétt, og skógræktarfélög sem stofnuð voru víða um land í framhaldi af því hafa vissulega unnið margt gagnmerkt starf. En þess gætti nokkuð um skeið að þau yrðu eins konar vasaútgáfa af þeirri starfsemi sem fram fór á vegum Skógræktar ríkisins í aðalstöðvum hennar og oftrúin á það að ekkert væri hægt að gera öðruvísi en stefna að innfluttum tegundum og ræktun þeirra endurspeglaðist í því að víða var farið á vegum skógræktarfélaganna að planta erlendum tegundum inn í birkiskógana. Þetta var að mínu mati ekki mjög skynsamlega að verki staðið því að verkefni áhugafélagsskaparins hefði þurft að beinast fyrst og fremst að því að vernda og hirða hinar innlendu skógarleifar í héruðum landsins. En allt um það. Nokkur reynsla hefur þó safnast einmitt vegna þessarar tilraunastarfsemi og þeirra tilrauna sem fóru fram. Kannski var ekki mjög vísindalega að þeim staðið og þær gerðar svolítið af handahófi eins og gengur á vegum áhugafélaga en þá vita menn auðvitað meira um ræktunarskilyrði, getu og þol einstakra innfluttra tegunda á þessum svæðum og af því má læra. Ég veit að á vegum Skógræktar ríkisins hafa menn reynt nú í seinni tíð að safna upplýsingum einmitt um reynsluna af slíkri ræktunar- og tilraunastarfsemi hér og þar á landinu og af því má einmitt margt læra varðandi aðgerðir í sambandi við skógrækt og aðgerðir sem tengjast verndun skóga, hvernig til hefur tekist.

Það er hins vegar dálítið sérstakt, virðulegur forseti, að hugsa til þess að lengi vel var eins og menn áttuðu sig ekki á hinum afskaplega mismunandi skilyrðum í einstökum héruðum landsins til ræktunar, breytilegum veðurfarsskilyrðum, sem hafa auðvitað mjög mikil áhrif á hvaða tegundir henta, ef menn eru að hugsa um ræktun innfluttra tegunda og ræktun þeirra og að sjálfsögðu einnig varðandi innlendar tegundir, þá eru skilyrðin ótrúlega breytileg í sama landshluta og þarf ekki langt að fara. Dæmi um það er Austurland þar sem ég þekki auðvitað hvað best til. Ef við berum saman skilyrði annars vegar á Fljótsdalshéraði og hins vegar í fjörðum, þá eru þau afar ólík. Mér þótti það dálítið sérkennilegt vegna þess að ég taldi mig þekkja nokkuð vel til á Héraði, að þar skyldi ekki vera meira um leiðbeiningar frá þeim sem buðu plöntur til sölu og dreifingar hvað hentaði og hvað væri eiginlega vonlaust að reyna. Þannig var það lengi vel en ég held að á þessu hafi verið ráðin einhver bót, þó alls ekki með þeim hætti sem hægt væri að gera ef menn vönduðu sig. Þar með er ekki sagt að kaupendur hlýði alltaf ráðleggingum, það er ekki hægt að ætlast til þess. En þarna er breytileikinn mikill og hann endurspeglast auðvitað í ólíkum meðalhita á hinum einstöku svæðum og héruðum. Ætli breytingin á meðalhita sé ekki þrjár gráður yfir sumarmánuðina, fjóra sumarmánuði, ef litið er til Austfjarða annars vegar og Fljótsdalshéraðs hins vegar. Svo mikill er þessi munur. Þar við bætist síðan ólík veðrátta að vetrarlagi, snjóalög og annað þess háttar sem hafa vissulega áhrif á þrif skóglenda. Því er ég að ræða þetta, virðulegi forseti, að þegar ráðist er í meiri háttar áætlanir eins og gert var með Héraðsskógaáætluninni á sínum tíma, þá geta menn tekið mið af þeirri reynslu sem safnast hefur og tekið ákvarðanir í ljósi hennar. Það hefur hins vegar ekki alltaf fallið í mjög frjóa jörð að hlýða á slíkar ráðleggingar og fylgja þeim sjónarmiðum sem vísindamenn og góðir starfsmenn með reynslu hjá Skógrækt ríkisins, sem þekkja vel til mála, hafa mótað um að skynsamlegt sé að ætla sér ekki um of í þessum efnum og taka tillit til skilyrðanna, verðurfarslegra skilyrða, loftslagsskilyrða og þannig sé vonlítið að ætla að taka með sama hætti lendur, þó í sama héraði sé jafnvel, svo dæmi sé tekið um þetta. Það má vera Sunnlendingum til umhugsunar viðhorf þeirra sem veita ráð á vegum Skógræktar ríkisins í sambandi við Héraðsskóga að vart er hægt að teygja þá ræktun undir þeirri áætlun sem er í gangi mikið út fyrir Egilsstaði vegna þess að þar sé komið að mörkum sem ekki henti til þess uppeldis sem hugsað er til í sambandi við Héraðsskóga.

Til samkomulags hafa menn farið út í Eiða með slíka markalínu. Menn hafa þó nokkra reynslu af plöntuuppeldi úti á Eiðum þar sem á vegum Alþýðuskólans og forstöðumanna þar t.d. Þórarins Þórarinssonar var plantað allmiklu af innfluttum trjám á sínum tíma og þannig hafa menn áratuga reynslu af því að vöxturinn á þessum tegundum er allt annar og minni vegna lægri meðalhita, vegna kaldara loftslags en þegar kemur aftur inn í Fljótsdalinn og inn á Hallormsstað þar sem byrjað var með bændaskógræktina í kringum 1970 með nokkrum myndarbrag og hafa menn þar verulega reynslu.

Það skiptir sem sagt mjög miklu máli hvernig á svona málum er haldið eins og skógræktaráætlunum af þeim toga sem við erum að ræða samkvæmt þessu frv. Ég tel að þau sjónarmið þurfi að liggja til grundvallar þeirra aðgerða sem menn ætla sér að vinna að á vegum Suðurlandsskóga, eins og það hefur verið kallað í þessu frv. Það eru líka mörg önnur sjónarmið og margir aðrir þættir sem þarf að gæta að en þeir sem varða vaxtarskilyrðin sem helgast af loftslagi og öðrum aðstæðum. Það eru þau viðhorf sem tengjast landslagsmyndinni, landslagsheildinni og tengjast þeim gróðurlendum sem fyrir eru og ástæða kann að vera að halda utan við slíka ræktun. Það eru þau viðhorf er tengjast sérstæðum minjum í landslagi sem ástæða er til að halda eða láta þróast í náttúrlegu horfi án þess að til sérstakrar ræktunar komi og fjölmörg önnur slík atriði sem skylt er að taka tillit til í sambandi við slíka starfsemi. Þetta á auðvitað ekki síst við þegar ríkið stendur að málum eins og hér er fyrirhugað með miklum tilkostnaði, miklum fjárhæðum sem á að verja í þessu skyni. Þá er auðvitað þeim mun sjálfsagðara að vandað sé til allra verka þó að ég geri þar ekki endilega höfuðgreinarmun hvort það eru einstaklingar sem standa þar að frá upphafi til enda eða hið opinbera. En enn þá sjálfsagðara á það auðvitað að vera þegar um er að ræða opinbert fjármagn.

Það sem mig undrar talsvert í sambandi við þetta mál og hef þegar haft orð á í þessari umræðu er að það skuli ekki vera talið sjálfsagt mál af þeim, sem leggja þetta fram, að þar verði farið samkvæmt lagaákvæðum um mat á umhverfisáhrifum, þó að það sé ekki skylt samkvæmt núgildandi lögum, þá eru heimildir til þess og ríkar kröfur eru um þetta frá fjölda manns og ég átta mig alls ekki á því hvers vegna hv. landbn. skuli ekki taka jákvætt undir slíkar óskir. Ég tel þau sjónarmið alveg fráleit sem hér hafa komið fram hjá formanni nefndarinnar og alls ekki frambærileg að þetta komi til með að tefja verkið. Hvílík rök eru það að gera sér fyrir fram grein fyrir hvert er verið að stefna og veita almenningi möguleika til að leggja inn orð í þann belg, --- að það eigi að verða til þess að tefja verk sem á að standa í áratugi og snertir útlit og áferð landsins ef til vill um aldir. Þetta er því með öllu óskiljanlegt.

Einnig sú viðbára að þetta komi til með að kosta slíkt fé. Það hefur ekkert komið fram um það sem rennir stoðum undir þessar fullyrðingar að hér sé um einhvern þann tilkostnað að ræða að það eigi að hindra að þannig sé staðið að verki. Ég tel að þessi viðhorf séu úrelt og alls ekki rökstudd og ég undrast það að formaður landbn., hv. þm. Guðni Ágústsson, skuli ekki koma til móts við þau sjónarmið sem fram hafa komið, ekki aðeins innan þings heldur sterklega utan þings og eiga sér einnig ríkan stuðning á því landsvæði sem um er að ræða í þessu tilviki, þ.e. sunnanlands. Ég hef það fyrir satt að Samband sunnlenskra sveitarfélaga hafi lýst yfir stuðningi við það að þessi áætlun sem hér um ræðir fari í mat á umhverfisáhrifum og að henni verði staðið með þeim hætti. Ég bið hv. formann landbn. að leiðrétta ef það er rangt eftir haft að fyrir liggi samþykkt frá Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga þess efnis að í þá áætlun verði ráðist með þessum hætti. En menn ætla þá að hundsa slík sjónarmið sem einnig hljóta stuðning frá þeim stofnunum sem eiga að vakta það og gæta þess af opinberri hálfu þ.e. Skipulag ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands, sem er helsti vörsluaðili alþjóðasamninga eða veitir þar ráðgjöf í þeim efnum, að eftir þeim sé farið og tillit sé tekið til þeirra varðandi líffræðilega fjölbreytni, og Náttúruvernd ríkisins sem opinber stofnun. Forstöðumenn allra þessara stofnana hafa eindregið lagst á þá sveif að þarna beri að gera mat á umhverfisáhrifum þessarar áætlunar sem forsendur fyrir henni og fyrsta skerf. Samband sveitarfélaga í landshlutunum ályktar í sömu veru þannig að hér er uppi einhver furðuleg meinbægni af hálfu þeirra sem bera málið fram, að vilja ekki taka það hér með eða a.m.k. gefa um það skuldbindandi yfirlýsingar að þannig verði staðið að málum.

Ég tel að menn séu í rauninni að vanvirða þá löngu reynslu sem skógræktarmenn í landinu hafa safnað á löngum tíma og þeir sem fyrir slíku starfi standa og ég skil ekki þau sjónarmið ef það er uppi hjá forráðamönnum skógræktar nú í landinu að það sé eitthvað andstætt þeirra starfi og stefnu að farið sé á nútímalegan hátt í vinnu að áætlun af þessum toga. Ég tel það raunar mikið áhyggjuefni ef á að halda svo fram með ágætt málefni eins og það sem hér er á ferðinni, standa þannig að því að það þurfi að vera um það ósætti að staðið sé að málinu á jákvæðan hátt að því er varðar undirbúning og að almenningur fái þar að koma sínum sjónarmiðum að og vera þátttakendur í undirbúningi. Það er með öllu óskiljanlegt og verið er að þjóna einhverjum sjónarmiðum sem ég fullyrði að eigi sér ekki ríka stoð í almenningsáliti að halda eigi þannig á þessum málum að þeim sé haldið í einhverju sérhólfi þar sem almenningur komist ekki að málum.

Virðulegur forseti. Ég held að það sé löngu kominn tími til þess í sambandi við þetta ágæta málefni að menn vandi vinnubrögðin og ég er út af fyrir sig ekkert að tortryggja það að sá vilji liggi að baki. Ég er ekkert að tortryggja það. En þeim mun frekar eiga menn að taka á þessum máli með þeim hætti sem hér eru óskir um. Það er ekki hollt fyrir neinn aðila að vera dómari í eigin máli eins og stefnt er að með þessu. Skógrækt ríkisins, sem mun hafa lagt inn gögn um fyrirhugaðan undirbúning af sinni hálfu hefur, að mér skilst heldur dregið úr að tekið verði á þessu samkvæmt mati á umhverfisáhrifum. Það þýðir þá að viðkomandi ríkisstofnun vill vera sem mest sjálfráð um það hvernig svona verk er undirbúið. Það er ekki hollt fyrir neinn að standa þannig að máli.

[22:00]

Ég vek athygli á því að í nýsamþykktum skipulagslögum er gert ráð fyrir að farið verði víðtækt yfir áætlanir og að sjónarmið eins og mat á umhverfisáhrifum verði þar tekið með. Ég vænti þess að hv. formaður landbn. hafi kynnt sér hvernig þar er um hnútana búið. Þetta er auðvitað nákvæmlega sama eðlis sem hér er á ferðinni. Þetta eru viðhorf sem er farið að tíðka hvarvetna um lönd og svo ætlum við að halda okkur á einhverjum sérbáti að þessu leyti. Ég held að hv. formaður landbn. ætti að fara í námsferð til Svíþjóðar og Norðurlanda til þess að kynna sér þau breyttu viðhorf sem þar hafa orðið í sambandi við mál af þessum toga. Hann ætti einnig að kynna sér þær samþykktir sem gengið er út frá í Evrópusambandinu að þessu leyti þar sem einmitt er verið að ganga mjög rækilega frá því að allar áætlanir, sem varða ráðstöfun lands til lengri tíma og skipulag, fari í slíkt víðtækt mat á byrjunarstigi fyrir utan það að einstakar framkvæmdir komi inn í slíkt samhengi.

Mín ósk til nefndarinnar og þingsins er sú að tekið verði á þessu máli á annan hátt en lagt er til af nefndinni, eins og það liggur fyrir. Og ég harma það mjög ef ekki verður orðið við þeim óskum sem hafa komið fram um þetta mál. Ég vil leyfa mér, virðulegur forseti, að vitna í lögin um mat á umhverfisáhrifum þar sem fjallað er um þetta til að menn, sem kannski hafa ekki lesið þau nýlega, skilji betur inn í hvaða samhengi er verið að tala. Í 6. gr. laga nr. 63 frá 21. maí 1993 segir, með leyfi forseta:

,,Umhverfisráðherra er heimilt, að fengnu áliti skipulagsstjóra, að ákveða að tiltekin framkvæmd eða framkvæmdir, sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag, en ekki er getið í 5. gr., verði háðar mati samkvæmt lögum þessum.

Áður en ákvörðun skv. 1. mgr. er tekin skal ráðherra leita umsagnar framkvæmdaraðila, leyfisveitanda og hlutaðeigandi sveitarstjórna.``

Í 9. gr. er ákvæði um að framkvæmdaraðili sjái um mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum þessum og beri kostnað af því og síðan segir, og ég vek athygli á því:

,,Skipulagsstjóri ríkisins setur almennar leiðsögureglur um framkvæmd matsins að teknu tilliti til sérákvæða í lögum og alþjóðlegra skuldbindinga.``

Hæstv. umhvrh. sem ræddi málið í gær í þinginu lýsti þeim vilja sínum að fundað yrði eftir lagasetninguna með fulltrúum stofnana sem málið varðar og ýmissa aðila, ef ég skildi það mál rétt, og það er skilningur sem kemur fram í því af hálfu hæstv. ráðherra að hér þurfi að vanda vel til verka. En ég tel að hæstv. ráðherra ætti að stíga skrefið nú eða stuðla að því að nefndin taki málið til skoðunar út frá því sjónarmiði að þessi heimild verði notuð, enda verði samkomulag um hvernig á verði haldið því að ég tel að innan ramma laganna rúmist það að varðandi hina almennu áætlun, sem sagt, ramma þessarar áætlunar, sé hægt að veita ákveðna forsögn með samkomulagi við skipulagsstjóra sem setur almennar leiðsögureglur um framkvæmd matsins.

Síðan er þess að geta, virðulegur forseti, að það er enginn kominn til með að segja að fram þurfi að fara annað en frummat á þessari áætlun, enginn er kominn til með að segja það og ég satt að segja á ekki von á því miðað við að fullyrt er að fyrir liggi mjög vandaður undirbúningur af hálfu Skógræktar ríkisins eða hugmyndir og þá leiðir það af eðli máls að ef það reynist svo vera að slíkur undirbúningur sé góður og vandaður og ekki séu sterkar eða víðtækar athugasemdir við málið sem séu teknar til greina af skipulagsstjóra ríkisins sem fer með þetta fyrir hönd samfélagsins, þá verði um annað að ræða en frummat. Fullyrðingar um einhvern meiri háttar kostnað sem hljótist af þessu eru að mínu mati út í bláinn. Það getur auðvitað verið ef þarf að fara út í annað og meira en frummat, þá getur safnast kostnaður, en þá er það vegna þess að að bestu manna yfirsýn eru fullar ástæður og rök fyrir því að taka þannig á málum sem ég satt að segja á ekki von á að þurfi til að koma. Mér þætti því vænt um ef forusta landbn., þeir ágætu fulltrúar sem þar eiga sæti og hafa rætt þetta mál og þekkja málið og vita hversu víðtækur stuðningur m.a. Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga er fyrir því að svona sé staðið að málum, þeir taki tillit til þeirra sjónarmiða sem hér hafa komið fram hjá þeim sem líta mjög jákvætt á þetta mál almennt séð en vilja að staðið verði þannig að undirbúningi að sem víðtækust sátt geti orðið um málið. Ég get ekki séð annað en sú sátt sé tryggð miðað við þær yfirlýsingar, sem liggja fyrir frá sveitarfélögum, og ég heiti á forráðamenn og hæstv. ráðherra, sem hefur auðvitað mikið að segja í þessu máli, að stíga það skref sem eðlilegt er og losna þar með úr því karpi sem á eftir mun fylgja ef málið er afgreitt í óvissu um með hvaða hætti á því verður haldið.

Ég ítreka það sem ég nefndi í upphafi. Þau stóru skref sem stigin voru fyrir einni öld í sambandi við að hlynna að skóglendi í landinu og sú mikla vinna og áhugastarf sem fram hefur farið á þeirri öld sem síðan er liðin og margt má af læra, allt þetta ber að hafa í heiðri. En við þurfum líka að gæta þess að taka tillit til almennra og alþjóðlegra viðhorfa um það hvernig best verði haldið á málum af þessum toga. Það er engin spurning í mínum huga að það verður best tryggt með því að farið verði yfir áætlun sem þessa og út frá þeim sjónarmiðum sem liggja til grundvallar mats á umhverfisáhrifum, algerlega opnum huga, þ.e. að því fylgir ekki á neinn hátt neikvæður stimpill. Það er einfaldlega aðferð til að tryggja að sem flest sjónarmið komist til skila á undirbúningsstigi og geti notið sín í málsmeðferðinni því verki til hagsbóta sem þarna er verið að efna til og til farsældar fyrir það starf sem er síðan fyrirhugað og dreginn er rammi um í þessari áætlun, sem ég styð að nái fram að ganga í þinginu, og vænti að fái hér gott brautargengi, enda fylgi sá heimanmundur sem við höfum verið að ræða og óska eftir í sambandi við undirbúning málsins.